Hvað ungur nemur gamall temur

Síðastliðinn fimmtudag stóðu Viðskiptaráð Íslands og Innovit fyrir mentor kvöldverði undir yfirskriftinni Ný-sköpun-Ný-tengsl. Valdir „mentorar“ úr íslensku atvinnulífi buðu nokkrum fulltrúum nýrra fyrirtækja sem eru að stíga sín fyrstu skref í atvinnulífinu til kvöldverðar og var markmið kvöldsins að skapa áhugaverðan vettvang skoðanaskipta og tengslamyndunar þar sem þekking og reynsla smitast á milli kynslóða í atvinnulífinu.

Að þessu sinni voru þátttakendur úr röðum frumkvöðla fulltrúar þeirra fyrirtækja sem voru í úrslitahópi Gulleggsins ásamt fjórum fulltrúum úr Fræi Háskólans í Reykjavík og Klaki. Þau frumkvöðlafyrirtæki sem tóku þátt voru Base Finance, BrandScript, Fyrirburaföt, Gítargrip.is, IC Game House, KinWins, Lipid Pharmaceuticals, Memmm, Pink Iceland, Puzzled by Iceland, Streamplicity, RóRó, Undraland og Worn By Worship. Þeim gafst öllum færi á að kynna fyrirtæki sín ásamt því að leita ráða vegna þeirra vandamála sem helst hafa komið upp á frumskrefunum.



Kvöldverðurinn var haldinn á glæsilegu renniverkstæði Össurar að Grjóthálsi, þar sem fram fer hugvitsamleg framleiðsla á íhlutum í vörur fyrirtækis sem ekki alls fyrir löngu taldist til sprota í íslensku atvinnulífi. Þetta var í þriðja sinn sem uppákoma hefur verið haldin í þeim tilgangi að styðja við sprotastarf og rekstur lítilla fyrirtækja, sem er áhersla í starfi Viðskiptaráðs. Ráðgert er að næsti kvöldverður Ný-sköpun-Ný-tengsl verði að hausti. Þeim sem vilja kynna sér málið frekar er bent á að hafa samband við Þórdísi Bjarnadóttur, hjá Viðskiptaráði, eða Andra Heiðar Kristinsson, hjá Innovit.

„Stjórn Viðskiptaráðs leggur ríka áherslu á stuðning við nýsköpun og eru mentora-kvöldverðirnir kærkomin leið til að deila reynslu og efla þannig vaxtarbrodda atvinnulífsins. Að auki hafa stjórnarmenn og félagar bæði gagn og gaman af samskiptum við eldhuga í sprotafyrirtækjum, en þar gefst ekki síst tækifæri til að ræða nýjar viðskiptahugmyndir og áhugaverð tækifæri.“ - sagði Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands.

„Það er gríðarlega dýrmætt fyrir stofnendur nýrra sprotafyrirtækja að geta lært af þeim reynsluboltum sem á undan hafa gengið í íslensku viðskiptalífi og stjórna nú nokkrum af glæsilegustu fyrirtækjum landsins. Eins og allir vita eru þær fjölmargar hindranirnar sem stofnendur nýrra fyrirtækja þurfa að klífa yfir í vegferð sinni og á viðburði sem þessum fá þeir einstakt tækifæri til að stytta örlítið leiðina með því að hlusta á ómetanlegar ráðleggingar og efla tengslanetið.“ - sagði Andri Heiðar Kristinsson, framkvæmdastjóri Innovit.

Smellið á myndirnar til að stækka þær

Tengt efni

Ríkið kyndir undir verðbólgu

Leiðrétt fyrir stöðu hagsveiflunnar eru ríkisfjármálin að styðja svipað mikið ...
13. des 2021

Spánskur viðskiptadagur

Spánsk-íslenska viðskiptaráðið efnir til málþings um viðskipti milli Spánar og ...
28. jún 2011