Aukinn stuðningur við háskólamenntun og nýsköpun

Sjálfseignarstofnun Viðskiptaráðs Íslands um viðskiptamenntun (SVÍV), Samtök iðnaðarins (SI) og Samtök atvinnulífsins (SA) hafa tekið höndum saman um að styðja við og efla háskólastarf á Íslandi með 200 milljón króna framlagi til Háskólans í Reykjavík (HR). Þetta kom fram í ávarpi dr. Ara Kristins Jónssonar, rektors Háskólans í Reykjavík, við útskriftarathöfn HR sem haldin var í Hörpu á laugardag. Í ræðu sinni sagði Ari Kristinn m.a.:

„Í ljósi þess hve mikilvægur Háskólinn í Reykjavík er íslensku atvinnulífi hafa bakhjarlar skólans - Samtök iðnaðarins, Samtök atvinnulífins og Sjálfseignarstofnun Viðskiptaráðs Íslands um viðskiptamenntun - tekið höndum saman um að styðja við og efla háskólamenntun og rannsóknir á Íslandi með 200 milljón króna framlagi til skólans. Þetta framlag er mikilvæg lyftistöng fyrir Háskólann í Reykjavík en um leið markar það fyrsta skrefið í þá átt að halda áfram öflugri upbbygingu skólans. Með þessu framlagi er atvinnulíf landsins að sýna í verki að  fjárfesting í háskólamenntun er fjárfesting í framtíð atvinnulífs og samfélags.“

Ari Kristinn undirstrikaði mikilvægi öflugs háskólastarfs fyrir íslenskt samfélag og sagði það spila lykilhlutverk í samkeppnishæfni atvinnulífs. Það ætti bæði við um menntun starfsfólks sem og rannsóknir til nýsköpunar. Í ræðu rektors kom ennfremur fram að HR væri, þrátt fyrir ungan aldur, nú þegar orðinn stærsti tækni- og viðskiptaháskóli Íslands, en HR útskrifar tvo af hverjum þremur sem ljúka tæknimenntun á háskólastigi og um helming þeirra sem lýkur viðskiptamenntun.

Mikilvægur stuðningur
Stuðningur atvinnulífsins er mikilvæg lyftistöng fyrir starf HR og eitt fyrsta skrefið í þá átt að halda áfram öflugri uppbyggingu háskólastarfs fyrir framtíð Íslands. Viðskiptaráð Íslands tekur virkan þátt í uppbyggingu menntunar í gegnum SVÍV (Sjálfseignarstofnun Viðskiptaráðs Íslands um viðskiptamenntun) sem stofnuð var til að mæta eftirspurn eftir vel menntuðu og hæfu starfsfólki sem er atvinnulífinu mjög mikilvægt.

Viðskiptaráð tók við stofnun þess árið 1917 yfir rekstur Verzlunarskóla Íslands, en markmiðið með stofnun skólans var að auðvelda Íslendingum að afla sér menntunar á sviði viðskipta og verslunar. SVÍV stóð að stofnun Háskólans í Reykjavík sem að grunni til var byggður á áratuga reynslu og góðum árangri Verzlunarskóla Íslands. Þá hefur Viðskiptaráð einnig veitt um árabil styrki til framhaldsnáms erlendis, nánari upplýsingar hér.

Tengt efni

Hætt við að íslenskir neytendur beri kostnaðinn á endanum

Viðskiptaráð telur brýnt að jafna samkeppnisstöðu innlendra og erlendra miðla. ...
7. jún 2024

Sóknarfæri á tímum sjálfvirknivæðingar

Aukinni sjálfvirknivæðingu fylgja áskoranir en um leið ýmis tækifæri
6. apr 2022

Fullkomin óvissa um kostnað ríkissjóðs

Umsögn Viðskiptaráðs um breytingu á lögum um tímabundnar endurgreiðslur vegna ...
2. jún 2022