Atvinnulíf kallar eftir bættu viðskiptasiðferði

Í könnun sem gerð var meðal íslenskra stjórnenda kemur fram að það er mat þeirra að ekki sé nægilega hugað að siðferði í viðskiptalífi hér á landi. Almennt höfðu þátttakendur í könnuninni trú á ágæti siðferðis innan eigin fyrirtækis en höfðu á sama tíma neikvæðari sýn á önnur fyrirtæki og utanaðkomandi aðila. Könnun er hluti af doktorsverkefni Þrastar Olafs Sigurjónssonar, lektors við viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík, sem kynnti niðurstöður könnunarinnar á morgunverðarfundi sem fram fór í HR í gær. Fundurinn var haldinn af Viðskiptaráði Íslands, Félagi löggiltra endurskoðenda, Félagi viðskipta- og hagfræðinga, Lögmannafélagi Íslands og Háskólanum í Reykjavík.

Könnunin var framkvæmd á meðal tæplega 500 íslenskra stjórnenda og var í henni skoðaðar breytingar á siðferði í viðskiptum undangengin þrjú ár. Niðurstöðurnar gefa til kynna að lítill hluti stjórnenda telji að viðskiptasiðferði hafi batnað marktækt síðan 2008.

Hugsanlega þörf á nýrri nálgun í kennslu
Á fundinum var einnig rætt hlutverk háskóla hvað kennslu á sviði viðskiptasiðfræði varðar, en Þröstur telur að jafnvel þó hlutverk háskóla í siðfræðikennslu sé mikilvægt er ekki síður mikilvægt að leggja áherslu á  að læra gott siðfræði á vinnustað. Hann telur það eiga vera skyldu fyrir nemendur í viðskiptafræðideildum háskóla að læra siðfræði, en þó er hugsanlega þörf á nýrri nálgun í kennslu enda er það hans mat að kennsluaðferðir hingað til hafi ekki dugað sem skyldi.

Róbert H. Haraldsson prófessor í heimspeki við Háskóla Íslands, flutti einnig erindi á fundinum og tók hann í sama streng og Þröstur um mikilvægi háskóla þegar kemur að kennslu í faginu. Hann fór almennt yfir sögu viðskiptasiðfræði sem námsgreinar bæði hér á landi sem og erlendis. Í erindi hans kom fram að merkja mætti aukinn áhuga á faginu hér á landi eftir hraun og að aukin áhersla hefði verið lögð á kennslu í siðfræði innan íslenskra háskóla.

Mikilvægt að undirbúa jarðveginn
Í pallborðsumræðum kom fram að siðfræði almennt og viðskiptasiðfræði glíma við ólík viðfangsefni þar sem vandamálin og hagsmunaaðilar eru aðrir. Þá var ennfremur rætt um kennslu í faginu á mismunandi skólastigum og komu fram vangaveltur um hvort vandamálið væri að við byrjuðum of seint kennslu í faginu eða hvort við hættum einfaldlega of snemma. Mikilvægt er að undirbúa jarðveginn en á sama tíma má ekki gleyma að minna stjórnendur reglulega á mikilvægi góðs siðferðis í viðskiptum.

Í pallborðinu sátu auk frummælenda þeir Henry Alexander Henrysson verkefnastjóri við Heimspekistofnun HÍ, Ketill Berg Magnússon stundakennari við HR og mannauðsstjóri Skipta ásamt Erni Valdimarssyni formanni FVH og forstöðumanni hjá Eyri Invest.

Aukinn áhugi á stjórnarháttum fyrirtækja
Áhugi á málum tengdum viðskiptasiðferði hefur aukist umtalsvert frá hruni. Þar má nefna aukna áherslu stjórnenda á eftirfylgni við leiðbeiningar um stjórnarhætti fyrirtækja, sem Viðskiptaráð hefur gefið út síðastliðin ár ásamt öðrum. Þá hélt Viðskiptaráð Umbótaþing fyrir félaga sína á síðastliðnu ári, en í niðurstöðum þess kom fram mikill vilji stjórnenda til að bæta viðskiptaumhverfið hér á landi. Á þinginu voru málin rædd og komu fram tillögur að verkefnum til að stuðla að bættum starfsháttum fyrirtækja og auknu gagnsæi, ásamt því að bæta viðskiptaumhverfið hér á landi almennt.

Mikilvægt er að sinna þessum málum af natni til að efla traust til atvinnulífs í framtíðinni og ennfremur til að efla traust á milli lykilaðila, þ.e. atvinnulífs, heimila og stjórnvalda. Glærur af fundinum má nálgast hér að neðan.

Tengt efni

Keppni án verðlauna

Við fáum engin verðlaun fyrir að vera kaþólskari en páfinn
12. júl 2023

Samkeppnishæfni Íslands stendur í stað

Niðurstöður úttektar IMD háskóla á samkeppnishæfni ríkja voru kynntar á fundi ...
20. jún 2023

Lesskilningur Landverndar

Engin óvissa ríkir um efnahagslegar afleiðingar orkuskiptasviðsmyndar ...
2. mar 2023