Greiðslutrygging Euler Hermes: merki um aukið traust

Stærsta greiðslutryggingarfélag heims, Euler Hermes, hefur nú staðfest að það sé tilbúið til að tryggja greiðslur fyrirtækisins Innnes á sama hátt og gildir með fyrirtæki í öðrum löndum. Í tilkynningu frá Innnes kemur fram að félagið hafi frá hruni lagt áherslu á að upplýsa Euler Hermes reglulega um stöðu fyrirtækisins, sem og um stöðuna á Íslandi. Góð fjárhagsleg staða fyrirtækisins og mikið upplýsingastreymi eru hvoru tveggja liður í að þessi árangur hefur náðst.

Þessi ákvörðun Euler Hermes endurspeglar vonandi aukið traust félagsins til íslensks atvinnulífs, en strax eftir hrun bankakerfisins lokuðu öll stærstu alþjóðlegu greiðslufallstryggingafélögin á íslensk fyrirtæki. Síðustu mánuði og misseri hafa hins vegar félögin Atradius og Coface opnað almennt fyrir sambærilegar tryggingar hér á landi og gildir fyrir erlend fyrirtæki. Var það m.a. afrakstur vinnuhóps sem settur var á laggirnar í nóvember 2008 að frumkvæði Viðskiptaráðs og iðnaðarráðuneytisins. Í þessum hóp hafa starfað, auk Viðskiptaráðs og iðnaðarráðuneytis, Creditinfo á Íslandi, TM, Sjóvá, Seðlabanki Íslands, utanríkisráðuneytið, efnahags- og viðskiptaráðuneytið ásamt fulltrúum allra bankanna. Þar til það kom til höfðu innflutningsaðilar búið við ströng fyrirmæli um staðgreiðslur og innborganir vegna pantana.

„Þó skref Euler Hermes sé stutt þá er það í rétta átt og vonandi merki um að opnað verði frekar fyrir greiðslutryggingar til íslenskra aðila. Fyrirtæki geta flýtt þar fyrir með því að fylgja góðu fordæmi Innnes og leggja áherslu á reglubundna upplýsingagjöf til innlendra og erlendra aðila.“ segir Finnur Oddsson framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs.

Tengt efni

Atradius opnar á greiðslutryggingar

Frá hausti 2008 hafa íslensk fyrirtæki, inn- og útflytjendur, lent í allnokkrum ...
27. sep 2011

Greiðslutryggingar: Góður árangur náðst en enn töluvert í land

Í kjölfar hruns efnahagskerfisins í október 2008 lokuðu stærstu erlendu ...
1. des 2011

Opnað fyrir Ísland á ný

Eitt stærsta greiðslutryggingarfélag heims, Coface, hefur nú staðfest skriflega ...
19. ágú 2009