Viðskiptaþing 2013: Námsstyrkir Viðskiptaráðs afhentir

Á árlegu Viðskiptaþingi Viðskiptaráðs, sem fram fer núna á Hilton Reykjavík Nordica, afhenti Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, námsstyrki Viðskiptaráðs.  Af því tilefni sagði Katrín menntun vera undirstöðu atvinnulífsins og að menntun væri ekki aðeins mikilvæg fyrir einstaklinginn heldur fyrir samfélagið í heild.

Frá stofnun Viðskiptaráðs árið 1917 hefur ráðið stutt með virkum hætti við og tekið þátt í uppbyggingu menntunar. Ráðið hefur haft umsjón með rekstri Verzlunarskóla Íslands frá árinu 1922. Viðskiptaráð stóð einnig að stofnun Háskólans í Reykjavík, sem að grunni til var byggður á góðum árangri Verzlunarskólans. Lítur Viðskiptaráð raunar svo á að stuðningur þess við menntun sé mikilvægasta framlag ráðsins til atvinnulífsins, en um leið til samfélagsins í heild.

Hluti af þeim stuðningi er árleg veiting námsstyrkja úr tveimur námssjóðum ráðsins á Viðskiptaþingi, sem löng hefð er fyrir. Að þessu sinni hljóta fimm einstaklingar styrk og er hver þeirra að fjárhæð 400.000 kr. Tæplega 60 umsóknir bárust um námsstyrki ráðsins, sem er umtalsvert meira en síðustu ár, og var það niðurstaðan að styrkina hljóta í ár þau:

  • Ólafur Haraldsson, doktorsnemi í byggingar- og jarðskjálftaverkfræði við University of Washington.
  • Ragnhildur I. Bjarnadóttir, nemi í MPH í lýðheilsufræði við Columbia University, Mailman School of Public Health.
  • Eiríkur Þór Ágústsson, mastersnemi í rafmagnsverkfræði og upplýsingatækni við ETH Zurich.
  • Ásta Þöll Gylfadóttir, kandídatssnemi í stafrænni hönnun og miðlun við IT Universitet í Kaupmannahöfn
  • Eiríkur Fannar Torfason, mastersnemi í tölvunarfræði í ETH Zurich.

Eiríkur Þór Ágústsson, Eiríkur Fannar Torfason og Ásta Þöll Gylfadóttir hlutu styrkinn sem kenndur er við upplýsingatækni.

Viðskiptaráð óskar þeim öllum til hamingju með styrkina og áframhaldandi velfarnaðar í námi og lífi. Þá þakkar Viðskiptaráð þeim fjölmörgu sem sóttu um, fjölmargir þeirra hefðu verið vel að þessum styrkjum komnir.

Tengt efni

Úthlutað úr Framtíðarsjóði Viðskiptaráðs 

Sex verkefni fengu styrk úr Framtíðarsjóði Viðskiptaráðs Íslands
23. feb 2024

Viðskiptaráð styrkir afreksnema á erlendri grundu

Styrkþegar í ár eru Gunnar Þorsteinsson, Helga Kristín Ólafsdóttir, Ísak Valsson ...
24. feb 2023

Styrkveiting úr Menntasjóði Viðskiptaráðs 2022

Styrkþegar í ár eru Anton Óli Richter, Esther Hallsdóttir, Guðrún Höskuldsdóttir ...
23. maí 2022