Bætt samstarf atvinnulífs og stjórnvalda

Í pallborðsumræðum meðal formanna stjórnmálaflokka á Viðskiptaþingi 2013, sem haldið var í síðustu viku, tóku þátt þeir Árni Páll Árnason formaður Samfylkingarinnar, Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins, Guðmundur Steingrímsson formaður Bjartrar framtíðar, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Framsóknarflokksins og Steingrímur J. Sigfússon fráfarandi formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs. Þar var mikið rætt um mikilvægi þess að atvinnulíf og stjórnvöld störfuðu saman að því að efla hér hagkerfið.

 

Almennt voru formennirnir jákvæðir gagnvart Samráðsvettvangi um aukna hagsæld á Íslandi, sem kynntur var á dögunum, og töldu áframhaldandi uppbyggingu atvinnulífs þurfa að byggja á traustum grunni undirstöðuatvinnuvega landsins. Þá var rætt mikilvægi nýs stöðugleika- og hagvaxtartímabils hér á landi. Hér má horfa á upptöku af pallborðinu:

Steingrímur sagðist binda miklar vonir við Samráðsvettvanginn og taldi jafnframt nauðsynlegt að hér byggist upp útflutnings-, framleiðslu- og hugvitsdrifinn hagvöxtur.

Sigmundur Davíð var sammála þeim átta grundvallar reglum sem Esko Aho, fyrrum forsætisráðherra Finnlands fjallaði um í ræðu sinni og sagði ennfremur að ef menn myndu skoða hlutina í samhengi út frá fyrirliggjandi staðreyndum, þá myndi ganga mun betur að vinna saman og skapa stöðugleika.

Bjarni talaði um mikilvægi þess að hér myndist nýtt stöðugleika- og hagvaxtartímabil. Þá sagðist hann sammála mörgu af því sem kemur fram í Hugmyndahandbók Viðskiptaráðs, ekki einungis það sem snerti einkageirann heldur einnig það sem lýtur að opinbera geiranum.

Árni Páll sagðist telja að framkvæma yrði hlutina rétt og benti á að bleiki fíllinn væri enn í stofunni og ekki hafi verið rætt um krónuna á þinginu, líkt og Jón Sigurðsson gerði á Viðskiptaþingi 2012. Jafnframt taldi hann þær tillögur sem Viðskiptaráð kynnti á þinginu eiga mikinn samhljóm með stefnu Samfylkingarinnar.

Guðmundur vitnaði í ræðu Esko um að mikilvægt sé að taka áhættu og prófa eitthvað nýtt. Þá benti hann jafnframt á að með þær 180 skýrslur sem þegar eru komnar þá séum við með gott veganesti og þurfum því bara að fara að taka ákvarðanir.

Brynja Þorgeirsdóttir fjölmiðlakona stjórnaði umræðum.

Tengt efni

Vel heppnað Viðskiptaþing

Viðskiptaþing fór fram fimmtudaginn 8. febrúar síðastliðinn. Yfirskrift þingsins ...
14. feb 2024

Árangurslitlar aðgerðir á húsnæðismarkaði

„Stuðningsúrræði stjórnvalda hafa verið of almenn í gegnum tíðina og kostað háar ...
4. des 2023

Vandrötuð umræða um stærsta efnahagsmálið

Þróun vaxta og tekna, ásamt fólksfjölda og íbúðabyggingum, mun áfram hafa mikið ...
4. nóv 2021