Ályktun stjórnar Viðskiptaráðs um Evrópumál

Á stjórnarfundi Viðskiptaráðs Íslands var eftirfarandi ályktun samþykkt samhljóða:

Stjórn Viðskiptaráðs Íslands telur ekki rétt að slíta aðildarviðræðum við ESB á þessum tímapunkti líkt og lagt er til í fyrirliggjandi þingsályktunartillögu utanríkisráðherra.

Fram kom í ályktun stjórnar Viðskiptaráðs í nóvember 2012 að stjórnin teldi brýnt að aðildarviðræður Íslands við Evrópusambandið yrðu til lykta leiddar og að kapp yrði lagt á að ná sem allra bestum samningi sem síðan yrði lagður í dóm þjóðarinnar.

Í ljósi þess að hvorugur núverandi stjórnarflokka er fylgjandi ESB aðild má færa rök fyrir þeirri afstöðu að torvelt gæti reynst að halda aðildarviðræðum áfram á þessum tímapunkti. Þrátt fyrir það telur stjórn Viðskiptaráðs ekki rétt að slíta viðræðunum. Með slíkri ákvörðun væri lokað á mikilvægan valkost í efnahagsmálum, einkum hvað varðar framtíðarskipan peningamála. Með hliðsjón af þeim miklu hagsmunum sem eru að veði fyrir lífskjör í landinu er mikilvægt að skerpa betur á þeim valkostum sem í boði eru áður en jafn afdráttarlaus ákvörðun er tekin.

Skynsamleg sáttaleið í þessu erfiða máli væri að gera hlé á aðildarviðræðum við ESB til loka kjörtímabilsins í stað þess að slíta þeim. Það er mat stjórnar Viðskiptaráðs að sú leið myndi skapa grundvöll fyrir stjórnvöld til að vinna að uppbyggingu efnahagslífsins næstu þrjú ár í breiðari sátt við aðila vinnumarkaðarins og aðra hagsmunaaðila en ella. Nálgun af þessu tagi væri ennfremur í takt við markmið stefnuyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar um aukinn samtakamátt og samvinnu í helstu verkefnum þjóðfélagsins. Þar segir:

Ríkisstjórnin mun leitast við að virkja samtakamátt þjóðarinnar og vinna gegn því sundurlyndi og tortryggni sem einkennt hefur íslensk stjórnmál og umræðu í samfélaginu um nokkurt skeið. Framfarir og bætt lífskjör á Íslandi hafa byggst á samvinnu og samheldni og til framtíðar munu Íslendingar halda áfram að leysa sameiginlega af hendi helstu verkefni þjóðfélagsins.

Flestir geta verið sammála um nauðsyn þess að efnhagsstefna stjórnvalda miði að því að uppfylla almenn skilyrði fyrir heilbrigðu efnahagslífi. Í slíkri stefnu felast markmið um stöðugleika í gengis- og verðlagsþróun, hóflega vexti og jafnvægi í rekstri og skuldastöðu hins opinbera. Þessi skilyrði, sem falla saman við svonefnd Maastricht skilyrði, geta verið sameiginlegt leiðarljós í vinnu stjórnvalda, atvinnurekenda og aðila vinnumarkaðarins á komandi árum. Breið sátt um að stefnt verði að auknum efnahagslegum stöðugleika – án þess að valkostum um peningamálastefnu framtíðarinnar verði fækkað – myndi efla trúverðugleika hagkerfisins og styðja við markmið um bætt lífskjör til lengri tíma.

Tengt efni

Jöfnunarsjóður atvinnulífsins?

Svanhildur Hólm Valsdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, skrifar um ...
21. feb 2024

Lesskilningur Landverndar

Engin óvissa ríkir um efnahagslegar afleiðingar orkuskiptasviðsmyndar ...
2. mar 2023

Alltaf á þolmörkum?

Ný kynning Viðskiptaráðs fjallar um stöðu mála og framtíðarhorfur í ...
2. sep 2021