Fyrirtækjasamsteypur í íslensku umhverfi. Ræða eftir Þór Sigfússon á fundi FVH 13. maí 2004

Þór Sigfússon framkvæmdastjóri VÍ

Fyrirtækjasamsteypur í íslensku umhverfi

Ræða á hádegisverðarfundi FVH 13. maí 2004

Þegar skoðuð er útrás íslenskra fyrirtækja kemur í ljós að þau fyrirtæki sem náð hafa traustri markaðshlutdeild á stærri mörkuðum njóta meiri velgengni en önnur.  Nær öll öflugustu íslensku útrásarfyrirtækin eru leiðandi á sínu sviði, annaðhvort á stórum mörkuðum eða á heimsvísu: Össur er næst stærsta stoðtækjafyrirtæki heims, Marel er eitt stærsta fyrirtækið í heiminum á sviði skurðartækni fyrir matvælavinnslu, Flaga MedCare eykur hlut sinn í svefnrannsóknum, Pharmaco (Actavis) er eitt af stærstu lyfjafyrirtækjum Austur Evrópu, Hampiðjan,  SÍF, Sæplast og mörg önnur fyrirtæki tengd sjávarútvegi eru mjög öflug á einstökum sviðum og jafnvel með leiðandi markaðshlutdeild.  Í sumum tilfellum er markaðshlutdeild þessarra fyrirtækja á  stórum mörkuðum 40-50%.   Við fögnum hverjum sigrinum á fætur öðrum hjá kraftmiklum íslenskum útrásarfyrirtækjum og stærum okkur af því að þau séu orðin leiðandi á sínum sviðum – jafnvel markaðsráðandi.

Veltan meiri en þjóðarframleiðslan

Ef stærstu útrásarfyrirtækin vaxa eins og þau virðast stefna að má áætla að velta 5 stærstu fyrirtækjanna og dótturfélaga þeirra árið 2010 geti orðið meiri en núverandi þjóðarframleiðsla – velta fimm stærstu yrði því eðlilega meiri en velta allra annarra fyrirtækja hérlendis samanlagt.  Samt sem áður munu þessi fyrirtæki verða skilgreind sem lítil meðalstór fyrirtæki á erlenda vísu.  Við erum rétt búin að fá forsmekkinn af því sem koma skal með stærstu fyrirtæki landsins. 

Þessi árangur og sú auðlegð sem mörg þessi fyrirtæki eru að skapa erlendis opna einstök tækifæri fyrir Ísland.  Okkur hefur skort auðmenn á Íslandi sem geta lagt þolinmótt fé m.a. í  fyrirtæki, nýsköpun, þjónustu,  menningu og listir.  Mörg þeirra verkefna sem eru að styrkja samkeppnisstöðu Íslands á ýmsum sviðum eru til komin vegna þess að öflug fyrirtæki og leiðtogar þeirra hafa trú á Íslandi og þeim tækifærum sem landið býður upp á.  Ástæða þess að við erum nú í 5. sæti yfir samkeppnishæfustu þjóðir heims samkvæmt lista IMD skólans í Sviss eru fyrst og fremst framúrskarandi stjórnvöld hérlendis sem hafa haft kjark til að nýta mörg tækifæri til að efla samkeppnisstöðu fyrirtækja.

 En við færumst einnig upp samkeppnislistann vegna þess að nokkrir leiðtogar í íslensku atvinnulífi tóku afgerandi ákvarðanir fyrir innan við áratug síðan um að losna úr viðjum vanans og hefja strandhögg eða byggja upp þekkingarfyrirtæki hérlendis.   Í því sambandi má nefna þegar stórhuga frumherji hóf erfðarannsóknir hérlendis, ungir íslenskir bankamenn höfðu trú á því að þeirra viðskiptavit ætti erindi á stærri markaði og þegar ungir athafnamenn hófu að kaupa breskar verslanir og verksmiðjur. Hækkunin á samkeppnislistum er m.a. komin til vegna þess að íslensk fyrirtæki stunda erlendar fjárfestingar mun meira en áður og framlög til rannsókna og þróunar aukast umtalsvert.  Bæði atriðin skýrast fyrst og fremst af krafti og þori einstakra athafnamanna.  Þessi kraftur er síðan að smitast út í allt samfélagið; viðmiðin hækka, fleiri fyrirtæki setja sér háleitari markmið um vöxt og þjóðfélagið allt hagnast.    Stóra hugarfarsbreytingin í samfélaginu er auðvitað að við samfögnum þeim sem græða í stað þess að fordæma þá eins og áður tíðkaðist. Við höldum að mestu ró okkar, sofum vel yfir velgengni þeirra en viljum samt að þeir skynji ábyrgð sína. Við þurfum að sjálfsögðu að huga ávallt að því að hér ríki áfram samkeppni og þróunin sé í samræmi við það sem best gerist í kringum okkur. 

 Þarf að breyta leikreglunum?

 Nú er augljóst að þeir sem leiddu breytingar á íslensku samfélagi í átt til aukins frjálsræðis hafa áhyggjur af þróun mála og óttast hringamyndun og markaðasráðandi fyrirtæki sem muni á endanum draga úr lífsgæðum og hafa varanlegar breytingar í för með sér á íslensku samfélagi.   Ríkisstjórnir síðasta áratugar breyttu leikreglunum þannig að leikurinn er hraðari en nú telja stjórnvöld að leikmenn kunni sér ekki hófs og hugsanlega þurfi að breyta reglunum með hliðsjón af því.   

 Viðskiptalífið verður að sjálfsögðu að taka alvarlega þá gagnrýni sem stjórnvöld hafa sett fram á einstakar gjörðir stjórnenda fyrirtækja og umsvif einstakra fyrirtækja og fyrirtækjasamsteypa hérlendis.  Verslunarráð Íslands skoðar með reglubundnum hætti hvernig umræða í samfélaginu er varðandi viðskiptalítið og mjög athyglisvert er að skoða hana síðustu þrjú árin.   Sé innihald frétta skoðað kemur í ljós að fyrir 2-3 árum voru margvísleg fjölmiðlamál í deiglunni sem snertu einstakar gjörðir stjórnenda.  Hugtakið græðgi kemur fyrir tvöfalt oftar í fjölmiðlum árið 2003 en 2002 og hugtakið hringamyndun nær tvöfaldast milli ára.  Síðar snerist umræðan meira um ofurlaun stjórnenda og auðvitað verðsamráð fyrirtækja.  Í þessu umhverfi hljóta að spretta fram fleiri efasemdarraddir um viðskiptalífið og að viðskiptalífið hafi ekki meðtekið frelsið með þeirri ábyrgð sem nauðsynleg er.   Verkefni okkar í viðskiptalífinu verður að auka traust til fyrirtækja og um leið að vara við patentlausnum eins og þeim að með því að senda markaðsráðandi fyrirtæki á bekkinn þá sé búið að koma í veg fyrir ofurvald einstakra auðmanna hérlendis og þannig farnist þjóðfélaginu öllu betur. 

 Fyrst um markaðsráðandi fyrirtæki í litlum löndum. Það er alveg ljóst að fákeppni er og verður landlæg í litlum ríkjum.  Hér var nýverið stödd sendinefnd frá Eistlandi.  Þar í landi búa 1,5 milljónir manna.  Fyrir 10 árum voru tæplega 40 bankar starfandi í landinu.  Nú eru tveir bankar með um 70-80% markaðshlutdeild.  Sömu sögu er að segja um ýmsar þjónustugreinar í þessu litla landi.  Jafnvel á hinum Norðurlöndunum er ekki  óalgengt að markaðshlutdeild 2-3 stærstu fyrirtækjanna á mörgum sviðum, þ.m.t. í verslun og þjónustu, sé á bilinu 60-80%. 

 Markaðsráðandi fyrirtæki verða ávallt hlutfallslega fleiri í litlum ríkjum. Það er varasamt að setja slík fyrirtæki í sérstakan bás eða ætla embættismönnum að ákveða æskileg og óæskileg fyrirtæki og fjárfesta.  Skilgreiningar á markaðsráðandi fyrirtækjum eru mjög á reiki og mismunandi eftir löndum. Framkvæmdastjórn ESB lítur m.a. svo á að 40-45% markaðshlutdeild sé markaðsráðandi og allt umfram það sé merki um markaðsráðandi stöðu.  Þá er talið að 25-40% markaðshlutdeild sé vart markaðsráðandi nema keppinautar séu margir og litlir.  Áfrýjunarnefnd samkeppnismála hérlendis taldi m.a. að 37% markaðshlutdeild Landssímans í internetþjónustu væri markaðsráðandi vegna styrks fyrirtækisins.  Hérlendis er mjög varasamt að útiloka markaðsráðandi fyrirtæki frá starfsemi á öðrum sviðum. Að mínu áliti er eðlilegt skoða markaðshlutdeild fyrirtækja í athugunum á því hvort þau misnoti stöðu sína en mjög varasamt er að fela Samkeppnisstofnun það verkefni að útiloka slík fyrirtæki frá rekstri á öðrum sviðum.  Í fyrsta lagi er skilgreiningin óljós og í öðru lagi skiptir mestu að fyrirtækin misnoti ekki aðstöðu sína og að aðgengi annarra fyrirtækja inn á markaðinn sé gott.  Til þess höfum við samkeppnislög.  Að sjálfsögðu er aðgengi nýrra aðila á markaði ávallt mismunandi eftir greinum en það hefur sýnt sig að í flestum tilfellum hafa nýir aðilar komið fram ef fyrirtæki í sterkri stöðu á markaði hafa farið að slaka á eða skapa sér fákeppnisgróða.  Hérlendis eru einmitt góð dæmi um þetta í verslun, samgöngum og mörgum öðrum sviðum á allra síðustu árum.

 Reynsla annarra ríkja

 Þegar rætt er um hvernig draga megi úr samþjöppun, hringamyndun og markaðsráðandi stöðu hérlendis er mikilvægt að hafa í huga að reynsla annarra ríkja af lögum á þessu sviði er afar misjöfn og aðgerðir gegn þessum fyrirtækjum ekki skilað sér í bættum hag neytenda. 

 Ronald Coase hagfræðingur sagðist eitt sinn vera búinn að gefa upp alla von um að einhvern tíma yrði umræða um hringamyndun og markaðsráðandi fyrirtæki byggð á faglegum sjónarmiðum en ekki upphrópunum.  Umræða um markaði einkenndist af því að þegar verð hækkuðu væri fullyrt að það væri merki um einokun, þegar verð lækka væri því haldið fram að það væri merki um svokallaða drápsverðlagningu og þegar verð væru óbreytt á markaði væri það merki um leynimakk. Þessi orð eiga einkar vel við um umræðu hérlendis um þessar mundir.

 Í Bandaríkjunum er augljóst að lög um hringamyndun hafa í mörgum tilfellum skaðað bandarískt efnahagslíf.  Í einni þekktustu bók um hringamyndun og afleiðingar hennar sem nefnist  Antitrust and Monopoly, skoðar höfundur 55 þekktustu dómsmál á þessu sviði í Bandaríkjunum.  Höfundur kemst að þeirri niðurstöðu að í öllum tilfellum hafi fyrirtækið, sem kært var, stuðlað að lækkuðu verði, aukinni framleiðslu og nýsköpun en þeir sem “liðu” fyrir styrk fyrirtækisins voru þeir samkeppnisaðilar sem höfðu beðið lægri hlut í samkeppninni vegna þess að þeir höfðu sofið á verðinum.

 Eitt frægasta dæmið um dómsmál á þessu sviði er án efa dómur sem féll í Bandaríkjunum árið 1944 þar sem ALCOA fyrirtækið var talið saknæmt um að beita “hæfileikum og framtíðarsýn”  sem dómarinn taldi að hefði komið sér illa fyrir minni fyrirtæki með síðri framtíðarsýn og minni hæfileika starfsmanna.  Dómarinn klykkti út með því að fullyrða að ALCOA hefði yfir að ráða elítu viðskiptalífsins sem erfitt væri að keppa við.

 Sú umræða sem hér fer nú fram um markaðsráðandi öfl og auðhringa hefur án efa haft neikvæð áhrif á þá þróun sem þegar var farin af stað í fjárfestingum fyrirtækja á sviðum sem áður hafa verið nær alfarið einokuð af ríkinu. Umræðan er í raun farin að snúast um neikvæða þætti markaðarins en ekki þau tækifæri sem frjáls markaður býður upp á. Verslunarráð Íslands hefur verið í fararbroddi þeirra sem talað hafa fyrir einkarekstri og meiri fjölbreytni í rekstri sem áður var alfarið á höndum ríkisins.  Öll þessi umræða nú er að leiða til þess að athafnamenn, sem hefðu hugsanlega lagt fé í verkefni á þeim sviðum sem þörf er á einkaframtaki í, halda að sér höndum.  Þeir vilja ekki verða sakaðir um að stefna að því að eignast Ísland og kunna sér ekki hófs með því að bjóðast til að eiga og reka Sundabraut, tónlistar- og ráðstefnuhús, hjúkrunarheimili eða jafnvel skóla.  Þeir skynja líka að slík umfjöllun getur verulega skaðað ímynd fyrirtækja þeirra.   Þetta var kannski einmitt það sem andstæðingar frjáls markaðsbúskapar og einkavæðingar vildu sjá að gerðist með þessari umræðu um græðgi fyrirtækja og íslenska auðhringi en er auðvitað bagalegt fyrir þau tækifæri til aukinna fjölbreytni og einkareksturs sem gætu verið framundan á nýjum sviðum.

 Viðbrögðin

 Eðlilegt er að spurt sé hvernig íslenskt viðskiptalíf hyggist bregðast við þeirri gagnrýni sem fram hefur komið á viðskiptalífið sjálft og hugmyndum um lagasetningu gegn samþjöppun.

 Segja má að framkomnar leiðbeiningar um stjórnarhætti fyrirtækja séu gott dæmi um frumkvæði sem viðskiptalífið sjálft hefur tekið til að gera betur og takast á við vandamál sem augljóslega höfðu haft skaðleg áhrif á ímynd viðskiptalífsins.  Í leiðbeiningunum er m.a. sagt til um störf stjórnar, ákvarðanir um kjör og kauprétt æðsta stjórnanda og óhæði stjórnarmanna.

 Sú umræða sem farið hefur fram um stjórnarhætti fyrirtækja og útgáfa leiðbeininga um stjórnarhætti eru smám saman að leiða til þess að viðmiðin hækka. Það þætti ekki tiltökumál eða ástæða til að upplýsa um það sérstaklega fyrir nokkrum árum síðan að stjórnarmenn fyrirtækis væru einnig í öðrum störfum fyrir sama fyrirtæki og að laun stjórnenda væru ákveðin milli stjórnarfunda svo eitthvað sé nefnt.   Nú þurfa upplýsingar af þessu tagi að koma fram opinberlega og allt verklag stjórna er að batna.  Auðvitað var það umræða í þjóðfélaginu sem fyrst og fremst varð hvatning fyrir viðskiptalífið til að ráðast í gerð leiðbeininga en allir sjá að fyrirtækin sjálf og eigendur þeirra hafa mikilla hagsmuna að gæta í því að þessi mál séu í traustum farvegi.  Okkur er semsagt að takast að breyta leikreglunum á skilvirkan máta og án lagasetningar.

 Við þurfum að halda áfram að líta í eigin barm og skoða hvort við getum ekki áfram hækkað viðmiðin ef svo má segja með opinni umræðu.   Þar er ábyrgð leiðtoga fyrirtækja mikil. Forystumenn stórfyrirtækja verða að skynja að stórfelld kaup á margvíslegri starfsemi í okkar litla landi, stórri og smárri, hljóta að leiða til þess að ótti skapast í þjóðfélaginu um að fyrirtækin séu á góðri leið með að kaupa upp Ísland.  Þá má segja að ekki sé heppilegt að fyrirtæki sem eru í hatrammri samkeppni á fleiri en einu sviði séu sameiginlega eigendur að öðrum fyrirtækjum.   Það væri fráleitt að banna þeim slíkt en viðskiptalífið veit að slíkt skapar tortryggni og vantrú á að menn séu saman í einni sæng einn daginn en sláist eins og hundur og köttur til hagsbóta fyrir neytendur hinn daginn. 

 Viðbrögð viðskiptalífsins við þeirri gagnrýni sem fram hefur komið eiga að vera að sýna að við erum að taka okkur á, setja okkur skráðar og óskráðar starfsreglur, auka upplýsingar og hækka viðmiðin. 

 Aukin samkeppni

 Um leið verðum við að minna á þau tækifæri sem eru að skapast með auðsöfnun og öflugum fyrirtækjum hérlendis og að besta svarið gegn samþjöppun sé að bjóða upp á rekstrar- og skattaumhverfi í heimsklassa, hleypa inn fleiri fyrirtækjasamsteypum og láta erlend fyrirtæki keppa við íslenskar fyrirtækjasamsteypurog opna landið fyrir fyrirtæki og fjárfesta.  Í þessu sambandi má nefna að af þeim 13.8 milljörðum sem fyrirtæki greiddu í tekjuskatt í ríkissjóð árið 2002 voru um tíu bandarísk og kanadísk stórfyrirtæki sem hafa stofnað hér á landi eignarhalds- eða fjármögnunarfélög til að þjónusta önnur félög innan samstæðu sinnar sem skiluðu um 500 milljónum í skatt árið 2002 eða um 4% af skatttekjum allra skattskyldra fyrirtækja á Íslandi.  Við getum grætt á því að bjóða hagstætt umhverfi fyrir alþjóðleg fyrirtæki og fjárfesta.  Það kann að vera að þau byrji smátt hér heima en ef aðstæður eru góðar kunna þau að auka umsvif sín hér. 

 Við getum bæði haldið í íslensk alþjóðafyrirtæki og  laðað til okkar fyrirtæki og fjármagn ef viljinn er til staðar.   Við þurfum að opna fyrir erlendar fjárfestingar í sjávarútvegi og orku, bjóða fyrirtæki á borð við Landssímann jafnt innlendum sem erlendum fjárfestum og hvetja til erlendrar fjárfestingar hérlendis.   Nú keppa 8-10 hópar fjárfesta á ólíkum sviðum en áður voru hér aðeins tveir hópar fjárfesta.  Hluthafar í þessum hópum eru auðvitað tugþúsundir Íslendinga. Ef rétt er á málum haldið getum við séð fyrir að innan 5-10 ára verði hér starfandi 15-20 hópar öflugra fjárfesta, innlendra og erlendra, sem munu fjárfesta hér á ýmsum sviðum, nýta sér gott skatta- og rekstrarumhverfi, keppa innbyrðis og stuðla þannig að aukinni samkeppni og bættum lífskjörum heimilanna í landinu.  Þetta hefur orðið raunin í nágrannalöndum okkar og ef rétt er á málum haldið getur þessi þróun orðið hérlendis.  Við þurfum aukið frelsi í fjárfestingum milli landa og almenna og skýra lagasetningu – ekki sértæka löggjöf sem getur spornað við eðlilegri þróun í atvinnulífinu og skert lífsgæði okkar.

Tengt efni

Árangurslitlar aðgerðir á húsnæðismarkaði

„Stuðningsúrræði stjórnvalda hafa verið of almenn í gegnum tíðina og kostað háar ...
4. des 2023

Ákvörðun sem kostað hefur íslenskt atvinnulíf 9,8 milljarða

Að innleiða regluverk, sem sniðið er að milljóna manna þjóðum, með meira ...
2. okt 2023

Nauðsynlegt er að tryggja samkeppnishæfan vinnumarkað

Umsögn Viðskiptaráðs um frumvarp til laga um breytingu á lögum um ...
15. mar 2023