Fjölmennasta og glæsilegasta Viðskiptaþing Verslunarráðs

Árlegt Viðskiptaþing Verslunarráðs var haldið í dag á Nordica hóteli. Jón Karl Ólafsson formaður Verslunarráðs og Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra fluttu erindi. Sérstakur gestafyrirlesari Viðskiptaþings í ár var Björgólfur Thor Björgólfsson athafnamaður.

Í ræðu sinni fjallaði forsætisráðherra m.a. um að Íslendingar hefðu uppskorið ríkulega í kjölfar umdeildra pólitískra ákvarðana, eins og um uppbyggingu stóriðju, endurskipulagningu sjávarútvegsins með kvótakerfi og einkavæðingu bankanna. Áhrif þessara skipulagsbreytinga birtust meðal annars í verulega styrktri samkeppnisstöðu íslensks efnahags- og viðskiptalífs.  Forsætisráðherra tók undir meginsjónarmið í skýrslu ráðsins, 15% landið Ísland, um að stjórnvöld hugi að frekari breytingum á efnahagsumhverfi sem við búum við. Tók hann fram að það ætti ekki eingöngu við um skattaumgjörðina, heldur einnig eftirlitsþáttinn og almennt um reglugerðarumfangið. “Við þurfum að finna þann gullna meðalveg sem tryggir heilbrigt og framsækið atvinnulíf þar sem svo er búið um hnútana að almennar leikreglur séu í heiðri hafðar og opinbert eftirlit hefti ekki eðlilegan framgang fyrirtækjanna.”

Sjá ræðu forsætisráðherra hér.

Formaður Verslunarráðs fjallaði um skýrslu ráðsins til Viðskiptaþings, 15% landið Ísland. Með skýrslunni leggur Verslunarráð til að skattkerfið á Íslandi verði einfaldað verulega og að sem skattar, tekjuskattur einstaklinga og fyrirtækja og virðisaukaskattur, verði lækkaðir niður í 15%. Í skýrslunni er líka fjallað um þau tækifæri sem Ísland getur búið sér til með því að stefna að því að verða höfn höfuðstöðva erlendra sem íslenskra fyrirtækja.

Sjá ræðu formanns Verslunarráðs hér.

Björgólfur Thor Björgólfsson kom víða við í ræðu sinni. Hann fjallaði um hugtakið útrás taldi það ekki heppilegt orðatiltæki að tala um útrás íslenskra fyrirtækja. Það væri frekar merki um heimóttarskap. Þá fjallaði Björgólfur um hugmyndir um kosti dreifðrar eignaraðildar almennt í stórum fyrirtækjum. Varpaði hann fram þeirri skoðun sinni að kostir hennar væru ekki eins ótvíræðir og mætti ætla í fyrstu. Björgólfur fjallaði um íþyngjandi reglur á viðskiptalífið. Hann sagði að í kjölfar ódæðisverkanna 11. september 2001 hefði almennur eftirlitskúltúr styrkt sig í sessi á Vesturlöndum. Eftirlitsiðnaðurinn hefði farið ört vaxandi sem byggðist á vantrú og vantrausti embættis- og sjórnmálamanna á viðskiptalífinu. Þetta vantraust væri afar óheppilegt því það fjölgaði fyrirvörum, skilyrðum og skilmálum og hægði á viðskiptum, umbótum, arðsemi og framförum. Björgólfur sagði frjáls viðskipti manna með eigin fjármuni farsælasta fyrirkomulag viðskipta.

Sjá ræðu Björgólfs Thors hér.

Að ræðu Björgólfs lokinni voru pallborðsumræður undir stjórn Ólafur B. Thors en með þátttöku þeirra Aðalheiðar Héðinsdóttur, Bjarna Ármannssonar, Guðfinnu S. Bjarnadóttur og Þorsteins Más Baldvinssonar. Íslenskt viðskiptalíf á tímamótum var yfirskrift umræðunnar og bar margt á góma. Aðalheiður talaði um að lítil fyrirtæki ættu erfitt með að feta sig í regluveldi. Hún tók sem dæmi að við það eitt að reka verslun í Kringlunni, sem selur kaffi, án vínveitingaleyfis og er ekki með lengri opnunartíma en aðrar verslanir í Kringlunni, þurfi hún að skila inn 35 pappírum til lögreglustjóra. Bjarni sagði að umhverfið á Íslandi skipti miklu máli og mætti ekki hefta frumkvöðla. Áður fyrr hefði fólk flutt þar sem fyrirtækin væru með starfsemi sína, en nú væru fyrirtæki að flytja starfsemi þangað sem fólk vill búa. Guðfinna talaði um mikilvægi menntunar. Hún lagði áherslu á að viðskiptalífið kæmi með meira fjármagn inn í háskóla. Vildi hún að fyrirmynd að tengslum atvinnulífs og háskóla væri sótt til Bandaríkjanna, þar sem fyrirtæki greiða háar upphæðir til skólastarfs. Hún sagði að Ísland gæti orðið alþjóðleg háskólamiðstöð og að hingað til lands væri hægt að laða hæfustu kennara heims. Þorsteinn Már talaði um að erfitt væri að gera 3-5 ára áætlanir í sjávarútvegi. Kosið væri á 4 ára fresti hér á landi og að stjórnmálaflokkarnir hefðu misjafnar áherslur. Sagði hann að rekstrarumhverfi sjávarútvegsins þyrfti að vera tryggara.

Viðskiptaþing er fjölmennasta samkoma viðskiptalífsins á ári hverju. Slegin var metaðsókn í ár en um 370 gestir sóttu þingið. Bæði í kaffihléi og í móttöku á eftir þinginu gafst kollegum í viðskiptalífinu tækifæri til að ræða þau mál sem eru í brennidepli hverju sinni.

Ljósmyndir frá þinginu.

       

        

Skýrsluna 15% landið Ísland má nálgast hér á PDF formi.   Skýrslan er  seld á skrifstofu Verslunarráðs, Kringlunni 7 og kostar kr. 2.000

Tengt efni

Sameiningin sem endaði ofan í skúffu

Ásta S. Fjeldsted, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, fjallar um áform stjórnvalda ...
5. ágú 2020

Skilvirkni og hagkvæmni í þágu atvinnulífs og neytenda

Opinberar stofnanir ættu að vera færri frekar en fleiri, umfang þeirra nægilegt ...
12. nóv 2020

Er Íslandsvélin að ofhitna?

Verslunarráð Íslands mun standa fyrir morgunverðarfundi miðvikudaginn 16. mars ...
16. mar 2005