160 manns hlýddu á Davíð Oddsson ræða hagstjórnarvandann

Húsfyllir var á fundi Viðskiptaráðs um hagstjórnarvandann sem haldinn var á Grand Hótel í morgun. Á fundinum hélt Davíð Oddsson, formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands, framsögu um hagstjórnarvandann og fór víða í umfjöllun sinni. Hann benti m.a. á að færa mætti ágætisrök fyrir því að þáverandi ríkisstjórn hefði mátt hugsa betur gang sinn þegar breytingar voru gerðar á húsnæðisstefnu stjórnvalda árið 2003 og að hugsanlega hefði verið skynsamlegra að geyma þær til loka hagsveiflunnar.

Að sama skapi sagði Davíð um húsnæðiskerfið: „[...] þá blasir við að samkeppnisstaða á húsnæðismarkaði gengur ekki upp, þegar einn aðili nýtur lánstrausts ríkissjóðs, greiðir ekki ábyrgðargjald og er undanþeginn ýmsum gjöldum sem samkeppnisaðilar hans bera. Það er laukrétt að þetta vissu lánastofnanir fyrir þegar þær opnuðu upp á gátt. En það er, sem fyrr sagði, orðið aukatriði nú og verkefnið hlýtur að vera, að koma þessari skipan í eðlilegt horf sem allra fyrst."

Heitar pallborðsumræður spruttu að lokinni framsögu Davíðs en í pallborði sátu Edda Rós Karlsdóttir frá Landsbanka, Ingólfur Bender frá Íslandsbanka, Þórður Pálsson frá KB banka og Katrín Pétursdóttir, forstjóri Lýsis. Kristján Kristjánsson, dagskrárgerðarmaður á RÚV stjórnaði umræðum.

Fram kom í máli Ingólfs Bender að vaxtahækkun Seðlabankans hefði verið of hófleg enda hefði greiningardeild Íslandsbanka gert ráð fyrir að bankinn myndi hækka vexti um 50-75 punkta við útgáfu peningamála á föstudag. Edda Rós Karlsdóttir og Þórður Pálsson tóku ekki undir þetta mat Ingólfs enda teldu þau að vaxtahækkunin væri í samræmi við væntingar markaðsaðila. Katrín Pétursdóttir lýsti yfir áhyggjum sínum á háu vaxtastigi í landinu og sagðist hafa vonast eftir því að Seðlabankinn myndi lækka stýrivexti um 25 punkta eða meira.

Undir lok fundarins steig Davíð Oddsson í pontu á nýjan leik og áréttaði afstöðu Seðlabankans og svaraði einstaka vafaatriðum sem fram komu í pallborði.

Smelltu hér til að sækja ræðu Davíðs Oddssonar, formanns bankastjórnar Seðlabanka Íslands á morgunverðarfundi Viðskiptaráðs Íslands 5. desember 2005.

Tengt efni

Vel heppnað Viðskiptaþing 2023

Húsfyllir var á vel heppnuðu Viðskiptaþingi 2023 sem fór fram á Hilton Reykjavík ...
20. feb 2023

Vel heppnað Viðskiptaþing 2022

Húsfyllir var á vel heppnuðu Viðskiptaþingi 2022 sem Viðskiptaráð stóð fyrir á ...
25. maí 2022

Velkomin til framtíðarinnar, árið 2003

Landvernd kynnti tillögur um orkuframleiðslu og -skipti til ársins 2040 án ...
27. jún 2022