Nýr framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs

Dr. Finnur Oddsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands.  Finnur tekur við starfinu af Höllu Tómasdóttur sem lætur af störfum í haust til að stofna eigið fyrirtæki.  Finnur er doktorsmenntaður í frammistöðustjórnun í Bandaríkjunum en þar starfaði hann einnig sem ráðgjafi hjá Aubrey Daniels International í þrjú ár.  Hann hefur starfað hjá Háskólanum í Reykjavík undanfarin sex ár sem lektor við viðskiptadeild, framkvæmdastjóri Stjórnendaskóla HR og sem forstöðumaður MBA náms.  Finnur mun áfram gegna stöðu lektors við Háskólann í Reykjavík meðfram nýju starfi. 

Viðskiptaráð fagnar 90 ára afmæli þann 17. september nk.  Ráðið hefur frá upphafi verið í fararbroddi nýrra hugmynda og breytinga í viðskiptaumhverfinu og er aðalbakhjarl og eigandi bæði Háskólans í Reykjavík og Verslunarskólans.  Starfsemi Viðskiptaráðs hefur breyst mjög að undanförnu, enda hefur gjörbylting átt sér stað í íslensku atvinnulífi.  Ráðið sinnir nú í auknum mæli alþjóðlegum samskiptum og upplýsingaflæði um efnahagsmál og viðskipti og gefur út skýrslur og upplýsingarit sem auka þekkingu erlendra aðila á Íslandi.  Skýrsla ráðsins um fjármálastöðugleika sem unnin var af prófessorunum Frederic Mishkin og Tryggva Þór Herbertssyni var lykilþáttur í viðsnúningi þeim sem varð í neikvæðri umfjöllun um íslenskt fjármála- og efnahagslíf á síðasta ári.

Um leið og Viðskiptaráð fagnar ráðningu Dr. Finns Oddssonar í starf framkvæmdastjóra vill ráðið þakka Höllu fyrir afar góð störf í þágu íslensks viðskiptalífs undanfarin misseri og óska henni jafnframt velgengni á nýjum vettvangi og við að viðhalda frumkvöðlakrafti á Íslandi.

Reykjavík 27. júní 2007

Nánari upplýsingar veita:

Erlendur Hjaltason 860-8602
Halla Tómasdóttir 863-7105
Finnur Oddsson 820-6276

Tengt efni

Launakostnaður á Íslandi og skaðsemi atvinnuleysis

Eitt mikilvægasta verkefnið næstu mánuði er að sporna gegn atvinnuleysi með ...
29. sep 2020

Ávinningur af einföldun regluverks

Staða Íslands er að mörgu leyti slæm þegar horft er til umfangs regluverks og ...
3. des 2020

Katrín Jakobsdóttir á föstudagsfundi Viðskiptaráðs

Félagar Viðskiptaráðs fá reglulega uppfærslu á efnahagsstöðunni á tímum COVID-19 ...
21. apr 2020