Viðskiptaráð Íslands 90 ára

Í dag eru 90 ár liðin frá stofnun Verzlunarráðs Íslands, en ráðið var stofnað í KFUM húsinu við Amtmannsstíg í Reykjavík þann 17. september 1917.

Í tilefni dagsins stóð Viðskiptaráð fyrir fjölmennum afmælisfundi þar sem ríkisstjórn Íslands var afhent ný skýrsla ráðsins sem ber yfirskriftina „90 tillögur að bættri samkeppnishæfni Íslands“. Skýrslan inniheldur eina tillögu fyrir hvert starfsár ráðsins og spanna tillögurnar vítt svið, allt frá atvinnumálum til skattamála og menntunar- og heilbrigðismála, en þær eiga allar sammerkt að þeim er ætlað að gera íslenskt hagkerfi samkeppnishæfara.

Erlendur Hjaltason formaður Viðskiptaráðs hélt opnunarávarp þar sem hann ræddi um hlutverk og þróun Viðskiptaráðs á 90 ára starfstíma þess. Ræðu Erlendar má finna hér.

Í kjölfarið kynnti Finnur Oddsson framkvæmdastjóri ráðsins kynnti 90 tillögur að bættri samkeppnishæfni Íslands. Í ræðu sinni hvatti Finnur stjórnvöld til að móta skýra framtíðarsýn er miðar að því að styrkja allar stoðir íslensks hagkerfis. Séu ákvarðanir byggðar á langtímahagsmunum er mun líklegra að Ísland haldi sér í fremstu röð hvað varðar velferð og lífsgæði. Ræðu Finns má finna hér.

Svafa Grönfeldt rektor Háskólans í Reykjavík fjallaði um framtíðarsýn skólans sem leiðandi alþjóðlegan háskóla og brautryðjandi afl í rannsóknarstarfi og nýsköpun í kennslu sem og útrás Íslendinga á sviði menntunar. Glærur Svöfu má nálgast hér.

Geir H. Haarde forsætisráðherra ávarpaði fundargesti í gegnum fjarbúnað. Ráðherra þakkaði Viðskiptaráði fyrir gott og gæfuríkt samstarf og lýsti yfir vilja sínum til að styrkja það enn frekar. Útdrátt úr ræðu forsætisráðherra má nálgast hér.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra, Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra og Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra veittu skýrslunni viðtöku fyrir hönd ríkisstjórnarinnar. Eftir að hafa veitt skýrslunni viðtöku fjölluðu ráðherrarnir um álit sitt á tillögunum.

Fundurinn, sem haldinn var í Salnum í Kópavogi, var fjölmennur en eftir fundinn var boðið uppá veitingar í Gerðarsafni Íslands þar sem myndlistarsafn Þorvaldar í Síld og Fisk var til sýnis. Um 200 manns sóttu fundinn, en meðal gesta voru forsvarsmenn aðildarfélaga ráðsins, ráðherrar, alþingismenn og fleiri sem hafa í gegnum tíðina komið að starfsemi ráðsins með einhverjum hætti.

Viðskiptaráð þakkar þeim fjölmörgu aðilum sem lögðu hönd á plóg við að gera þennan dag eins vel heppaðan og raun bar vitni. Það er von okkar að tillögurnar hljóti góðan hljómgrunn meðal ráðamanna, en ráðið mun leggja sitt af mörkum til að sem flestar komi til framkvæmda.

Tengt efni

Virkjum fallega

Skiptar skoðanir eru um raforkuframleiðslu á Íslandi. Dæmin sanna að ...
24. ágú 2022

Þetta er ekki búið fyrr en það er búið

Svanhildur Hólm gerir upp árið 2021 - sýninguna sem ekki hefði verið selt inn á.
29. des 2021

Er stórtækur atvinnurekstur hins opinbera náttúrulögmál?

Að viðskiptabönkunum undanskildum hefur stöðugildum hins opinbera í ...
26. nóv 2021