Tekjuskattur hækkaður og hækkun útsvars heimiluð

Um leið og ríkisstjórnin kynnti hagræðingaraðgerðir við 2. umræðu fjárlaga í dag var lagt til að tekjuskattur á einstaklinga yrði hækkaður um 1%, úr 22,75% í 23,75%. Að auki hyggst ríkisstjórnin veita heimild til hækkunar útsvars sveitafélaga og er það rökstutt á þann veg að slíkt leiði til tekjuhækkunar fyrir sveitarfélög sem mun koma til móts við aukaframlög úr jöfnunarsjóði, sem að óbreyttu munu falla niður.

Viðskiptaráð telur aðgerð þessa í hæsta máta óheppilega. Fjárhagsstaða einstaklinga og heimila er nú þegar í molum og ekki á það bætandi með skattahækkun. Þrátt fyrir góða afkomu hins opinbera síðastliðin ár hafa útgjöld vaxið með miklum hraða og því ljóst að umtalsvert svigrúm er til hagræðingar í rekstri þess. Frekar á að bæta afkomu hins opinbera með víðtækum niðurskurði í ríkisútgjöldum í stað þess að leggja auknar álögur á almenning. Í því efnahagsástandi sem nú ríkir er hætt við því að skattahækkanir leiði til enn frekari samdráttar í efnahagslífinu.

Viðskiptaráð benti á þessi sjónarmið fyrir stuttu í skoðun sinni „Forðast ber skattahækkanir“. Þar er lagt til að hið opinbera forðist allar skattahækkanir við núverandi efnahagsaðstæður, enda er hætt við að þær leiði til enn frekari samdráttar.

Tengt efni

Jón er hálfviti

Það er þetta með fólkið í opinberri umræðu sem elskar afgerandi lýsingarorð og ...
24. feb 2023

Gera þarf breytingar á fjölda og fjármögnunarkerfi sveitarfélaga

Umsögn Viðskiptaráðs um drög að stefnu í málefnum sveitarfélaga (mál nr. 72/2023).
19. apr 2023

Nauðsynlegt að skapa rétta hvata

Umsögn Viðskiptaráðs og SA um endurskoðun á regluverki Jöfnunarsjóðs ...
31. mar 2023