Menntamálaráðherra afhendir námsstyrki Viðskiptaráðs

Á árlegu viðskiptaþingi Viðskiptaráðs Íslands, sem nú fer fram á Reykjavík Hilton Nordica, afhenti Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra námsstyrki Viðskiptaráðs. Löng hefð er fyrir því á Viðskiptaþingi að veita styrki úr námssjóðum Viðskiptaráðs, en styrkinn hljóta framúrskarandi nemendur í framhaldsnámi á háskólastigi í greinum sem tengjast atvinnulífinu með beinum hætti. Þar af er að lágmarki einn styrkur sérstaklega ætlaður námsmanni á sviði upplýsingatækni og kemur sá styrkur úr sérstökum sjóði sem aðildarfélagar Viðskiptaráðs innan upplýsingatæknigeirans standa að baki.

Að þessu sinni hlutu fjórir nemendur styrk að upphæð 350 þúsund krónur hver. Framkvæmdastjórn Viðskiptaráðs valdi þrjá umsækjendur, en hana skipa Erlendur Hjaltason, Katrín Pétursdóttir, Halla Tómasdóttir, Kristín Jóhannesdóttir, Hermann Guðmundsson, Tómar Már Sigurðsson og Knútur G. Hauksson. Sérstök ráðgjafanefnd námssjóðs um upplýsingatækni, skipuð Gunnar Guðjónssyni, Magnúsi Steinarr Nordahl og Þórði Sveinssyni, valdi styrkþega á sviði upplýsingatækni.

Viðskiptaráð óskar þessum fjórum einstaklingum innilega til hamingju með styrkinn og eru þeir allir sérlega vel að þessu komnir

Eftirfarandi einstaklingar hlutu námsstyrk Viðskiptaráðs Íslands árið 2009:

Helgi Skúli Skúlason er fæddur árið 1983 og stundar meistaranám í rafmagnsverkfræði við McGill háskólann í Kanada. Hann útskrifaðist með tvær B.Sc. gráður í rafmagns- og tölvuverkfræði og eðlisfræði. Í námi sínu við McGill hefur Helgi unnið við rannsóknir á grafín, sem er eitt atómlag af kolefni, og hefur Helgi verið að rannsaka ljóseiginleika þess. Helgi hefur samhliða námi sínu kennt við McGill, flutt erindi víðsvegar og eftir hann hafa verið birtar tvær greinar. Að loknu mastersnámi hyggur Helgi á doktorsnám við McGill háskólann.

Ólafur Guðmundsson er fæddur árið 1984 og stundar meistaranám í rafmagnsverkfræði við Stanford háskólann í Kaliforníu. Áður hafði hann útskrifast með B.Sc. gráði í rafmagns- og tölvuverkfræði. Í námi sínu við Stanford hefur Ólafur lagt áherslu á merkjafræði, bestun og sjálfvirkni og hefur hann komið að verkefnum þar sem sjálfvirkni og bestun eru notuð til að bæta geislameðferðir gegn krabbameinsæxlum og þar sem gervigreind er notuð til að leysa verkefni við starfræna segulómmyndun. Ólafur ætlar að loknu námi að nýta nám sitt til uppbyggingar nýsköpunar og frumkvöðlastarfs í atvinnulífinu.

Eva H. Arnarsdóttir er fædd árið 1978 og stundar meistaranám í hagnýtri hagfræði og fjármálum við Viðskiptaháskólann í Kaupmannahöfn. Eva lauk áður Cand. Oecon gráðu í viðskiptafræði. Viðfangsefni meistararitgerðar hennar er samanburður á fjárfestingum á Íslandi og erlendis. Eva býr í Danmörku og stefnir á að stafa á dönskum vinnumarkaði að námi loknu en flytjast til Íslands eftir nokkurra ára dvöl þar.

Birgir Már Þorgeirsson er fæddur árið 1979 og stundar meistaranám í tölfræði við London School of Economics. Birgir hefur B.Sc. gráðu í tölvunarfræði og hefur einnig lokið prófi frá Informatics deild Edinborgarháskólans. Birgir hefur lengi haft áhuga á frumkvöðlastarfsemi og er meðlimur í frumkvöðlafélagi Lundúnaskólans. Er hann m.a. að undirbúa stofnun fyrirtækis á sviði sérhæfðra mannaráðninga í Bretlandi. Að námi loknu hefur Birgir hug á að starfa við tölfræðilega greiningu.

Tengt efni

Úthlutað úr Framtíðarsjóði Viðskiptaráðs 

Sex verkefni fengu styrk úr Framtíðarsjóði Viðskiptaráðs Íslands
23. feb 2024

Hvað eiga Ísland, Mósambík og Kongó sameiginlegt?

Þá séu svo einfaldir útreikningar fremur til þess fallnir að kasta ryki í augun ...
12. apr 2023

Hvert stefnir verðbólgan?

Huga ætti að vaxtahækkunarferlinu í litlum skrefum til að kæla frekar en að kæfa ...
31. mar 2022