Bankaábyrgðir

Viðskiptaráð hefur að undanförnu kannað umfang þess vanda sem mörg íslensk fyrirtæki standa frammi fyrir hvað varðar bankaábyrgðir hjá íslenskum bönkum. Eins og við er að búast hafa mörg innlend fyrirtæki, sem stunda milliríkjaviðskipti af einhverju tagi, átt í vandræðum með að fá erlenda viðskiptaaðila til að taka ábyrgðir íslenskra banka gildar, en það er þó ekki algilt. Sum innlend fyrirtæki, einkum stærri fyrirtæki, sem hafa tengsl við alþjóðalegar samsteypur, hafa til að mynda ekki lent í miklum vandræðum hvað þessi atriði varðar.

Smærri fyrirtæki hafa þó rekið sig á að erlendir aðilar eru vissulega tregari til að taka ábyrgðir íslenskra banka gildar eftir hrun fjármálakerfisins, en það veltur þó iðulega á því hversu langt aftur í tímann viðskiptasambönd teygja sig og er vandinn því misjafnlega alvarlegur eftir fyrirtækjum. Í sumum tilfellum hafa erlendir aðilar haldið áfram að taka áður útgefnar ábyrgðir íslenskra banka gildar en í öðrum tilfellum hafa erlendir birgjar krafist fyrirframgreiðslna í ríkara mæli en áður. Í þeim tilfellum þar sem erlendir aðilar taka ábyrgðir íslenskra banka ekki gildar hefur sú leið stundum verið farin að sleppa einfaldlega ábyrgðinni. Þetta felur þó iðulega í sér að íslenska fyrirtækið þarf að senda því erlenda ítarlegar upplýsingar um fjárhagsstöðu sína.

Eitt virðist þó sammerkt með flestum þeim fyrirtækjum sem nota bankaábyrgðir í íslenskum bönkum en það er sú staðreynd að afgreiðsla slíkra ábyrgða tekur nú öllu jafna mun lengri tíma en áður. Þannig tók afgreiðsla ábyrgða iðulega um tvo til þrjá daga fyrir hrun en getur nú tekið allt að tvær vikur. Þetta sýnist í fljótu bragði óþarflega langur afgreiðslutími og til þess eins fallinn að tefja viðskipti og torvelda samskipti innlendra og erlendra aðila.

Viðskiptaráð mun nú halda áfram að vinna að úrlausn þessa vanda á grundvelli þeirra upplýsinga sem þegar hafa borist frá félögum. Þeir félagar sem búa yfir upplýsingum um þessi mál sem þeir vilja koma á framfæri eru beðnir um að hafa samband við ráðið í síma 510-7100 eða með því að senda póst á vi@vi.is.

Tengt efni

Allt að 43% lægra matvöruverð án tolla

Afnám tolla myndi lækka verð á matvörum um allt að 43%. Þetta kemur fram í nýrri ...
8. ágú 2024

Norðurlöndin með mikilvægari viðskiptalöndum Íslands

Danmörk, Noregur og Svíþjóð stóðu undir 13,9% af heildarutanríkisverslun Íslands ...
8. des 2022