Skaðlegar skattaáherslur og einkennileg viðbrögð yfirvalda

Nú eru rétt tæpir tveir mánuðir frá því fjárlagafrumvarp næsta árs var lagt fram á Alþingi. Fáum kom á óvart að þar er gert ráð fyrir stórtækum aðgerðum í ríkisfjármálum til að brúa fjárlagahalla ríkisins. Viðskiptaráð hefur gagnrýnt þá skattastefnu sem frumvarpið boðar, enda er ljóst að megnið af aðlögunaraðgerðum munu að eiga sér stað í gegnum skattahækkanir.

Nýleg frumvörp, til skýringar á annars óskýru fjárlagafrumvarpi, renna stoðum undir gagnrýni Viðskiptaráðs. Meðal þess sem þau bera með sér eru umtalsverðar hækkanir á beinum sköttum einstaklinga og heimila, þ.e. tekju- og fjármagnstekjuskatti, nýir auðlinda-, orku- og umhverfisskattar sem leggjast á öll fyrirtæki og heimili í landinu í formi hærra orkuverðs, stóraukning á neyslusköttum og vörugjöldum og svo mætti áfram telja.

Í þessum aðgerðum taka stjórnvöld ekki tillit til þess að veruleg aðlögun hefur þegar átt sér stað hjá heimilum og fyrirtækjum landsins. Þetta sést best á umtalsverðum samdrætti í einkaneyslu, meira en 10 þúsund töpuðum störfum, hruni í fjárfestingu einkaaðila, fjöldagjaldþrotum fyrirtækja og lækkandi launum á almennum vinnumarkaði. Um leið og þessum hópi er ætlað að bera auknar byrðar þá stefnir ríkið eingöngu að því að taka lítil skref í átt til niðurskurðar og aðhalds, þrátt fyrir verulega þenslu í útgjöldum þess undanfarin ár. Stefnumörkun ríkisstjórnarinnar er því ljós – verja á útgjöld ríkisins og störf í opinbera geiranum á kostnað almenns vinnumarkaðar og einkafyrirtækja.  Þetta er gert undir forskriftum jöfnuðar og sanngirni.

Nú þegar sjást merki um neikvæðar afleiðingar af stefnu stjórnvalda. Einkafyrirtæki hagræða enn frekar í rekstri með tilheyrandi tapi starfa og verðmætasköpunar. Þessi þróun er bein afleiðing skattastefnu og niðurskurðarfælni stjórnvalda. Í stað þess að slík merki séu tekin alvarlega væna opinberir starfsmenn og stofnanir fyrirtæki um óheiðarleika og annarleg vinnubrögð. Ómálefnleg viðbrögð af þessu tagi, sem því miður hefur brugðið fyrir í riti og ræðu að undanförnu, eru ámælisverð, enda hvorki til þess fallin að skapa samstöðu um erfiðar aðgerðir né í anda lýðræðislegra vinnubragða sem gjarnan er kallað eftir.

Með þessari stefnumörkun og viðmóti vegur ríkið að grunni velsældar, elur á sundurlyndi og tortryggni og vegur enn frekar að sjálfbærni í ríkisfjármálum. Með því að draga úr kaupmætti þeirra sem fjármagna útgjöld og launagreiðslur ríkissjóðs og þar með úr umsvifum í hagkerfinu þarf ríkið að sækja frekar í vasa þeirra þegar fram líða stundir. Í mótun er vítahringur sem erfitt getur reynst að komast úr.

Viðskiptaráð vill því árétta fyrri orð og mótmælir harðlega skattastefnu stjórnvalda, enda vinnur hún gegn markmiðum um endurreisn hagkerfisins, auknu atvinnustigi og uppbyggingu sterks og sjálfbærs velferðarkerfis.

Tengt efni

Engan ærsladraug í Karphúsið

Ari Fenger, formaður Viðskiptaráðs, fer yfir stöðu mála í kjaraviðræðum aðila ...
29. jan 2024

Lykillinn að bættum lífsgæðum og auknum tækifærum í atvinnulífi

Umsögn Viðskiptaráðs um tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi aðgerðir til ...
21. mar 2023