Ísland hækkar á lista stafrænnar samkeppnishæfni

Ísland hækkar um tvö sæti í úttekt IMD viðskiptaháskólans á stafrænni samkeppnishæfni og fer því úr 23. og upp í 21. sæti af 63. Frá 2014 hefur Ísland hækkað um sex sæti á listanum. Á tímum fordæmalausra tæknibreytinga og stafrænnar þróunar eru þetta gleðitíðindi. Einnig er jákvætt að Ísland sé að bæta sig á þessu sviði í því ljósi að heildarsamkeppnishæfni landsins fór dvínandi skv. úttekt IMD sem birt var í maí.

Stafrænni samkeppnishæfni er skipt í þrjá meginþætti:

  1. Þekking: Samanstendur af þremur undirþáttum sem eru hæfni íbúa, menntun og þjálfun, og áhersla á vísindastarf. Ísland er í 21. sæti í þessum meginþætti og stendur hlutfallslega best í menntun og þjálfun (18. sæti) en talsvert verr í hinum þáttunum. Þar er skortur á alþjóðlegri færni, reynslu og þekkingu nokkuð áberandi og er Ísland í 37. sæti hvað varðar hæfni íbúa. Fámenni og fáir erlendir sérfræðingar hafa þar mikil áhrif en Viðskiptaráð hefur áður bent á að nauðsynlegt sé að laða til landsins erlenda sérfræðiþekkingu.
  2. Tækni: Er samsett úr regluverki, fjármagni og skipulagi tæknimála. Ísland er hér í 18. sæti og er það regluverk og skipulag tæknimála sem togar okkur upp á við. Hvað varðar fjármagn og fjármögnun er Ísland aftur á móti í 40. sæti, sem skýrist meðal annars af takmörkuðu aðgengi að áhættufjármagni og fjárfestingaráhættu.
  3. Framtíðar viðbúnaður (e. future readiness): Mælir hversu vel fólk, fyrirtæki og hið opinbera tekjur á móti tæknibreytingum og ræðst af viðhorfum, lipurð atvinnulífsins (e. Business agility)og samþættingu upplýsingtækni (e. IT integration). Ísland er í 19. sæti í þessum meginþætti og stendur þar af best í lipurð atvinnulífsins (11. sæti) en síst í samþættingu upplýsingatækni (28. sæti).

Bandaríkin náðu í ár efsta sætinu af Singapúr sem fellur niður í 2. sætið. Í næstu sætum eru hin Norðurlöndin ásamt Sviss. Það er því sama upp á teningnum í stafrænni samkeppnishæfni líkt og í heildarsamkeppnishæfni ríkja – Ísland er langt að baki hinum Norðurlöndunum. Þetta er áhyggjuefni því Ísland vill almennt bera sig saman við hin Norðurlöndin og niðurstöðurnar gefa til kynna að við stöndum ekki jafn vel að vígi og þau þegar kemur að fjórðu iðnbyltingunni.

Ásta S. Fjeldsted, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs: „Vissulega eru það gleðitíðindi að Ísland feti upp listann en þó svekkjandi að sjá okkur svo langt á eftir nágrannaþjóðum okkar sem raða sér í efstu sætin. Ef við ætlum að auka verðmætasköpun í landinu og treysta ekki einvörðungu á núverandi grunnstoðir þá er þekking og færni á sviði stafrænnar tækni og gervigreindar lykilatriði. Þetta er ekki spurning um að kunna á snjallsímaforrit og geta verslað á netinu.Þetta spurning um að tryggja að atvinnulífið, hið opinbera og mennta- og skólakerfið sé samstillt um að gera Ísland að aðdráttarafli fyrir alþjóðleg tæknifyrirtæki í hvaða geira sem það kann að vera, þar sem innviðir, rekstrarumhverfi, færni og þekking styðja við nýsköpun og framþróun.“

Um úttektina

Úttekt IMD á samkeppnishæfni ríkja er ein sú umfangsmesta í heimi og hefur verið framkvæmd í 30 ár. Viðskiptaráð Íslands hefur verið samstarfsaðili IMD hér á landi síðustu ár. Árið 2017 hóf IMD einnig sérstaka birtingu á stafrænni samkeppnishæfni í 63 ríkjum og er hún nú birt í annað sinn. Sú úttekt samanstendur af 50 undirþáttum. Af þeim byggja 30 á haggögnum og 20 á alþjóðlegri stjórnendakönnun sem um 6.200 stjórnendur fyrirtækja og annarra samtaka taka þátt í.

Nánari upplýsingar veitir Konráð S. Guðjónsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs, í síma 846-1654.

Tengt efni

Úthlutað úr Framtíðarsjóði Viðskiptaráðs 

Sex verkefni fengu styrk úr Framtíðarsjóði Viðskiptaráðs Íslands
23. feb 2024

Gera þarf breytingar á fjölda og fjármögnunarkerfi sveitarfélaga

Umsögn Viðskiptaráðs um drög að stefnu í málefnum sveitarfélaga (mál nr. 72/2023).
19. apr 2023

Samkeppnishæfni Íslands eykst á árinu 2022

Ísland bætir samkeppnishæfni sína og færist upp í 16. sæti samkvæmt greiningu IMD
15. jún 2022