Skattar hækkuðu um 59 milljarða árið 2014

Fjársýsla ríkisins hefur gefið út ríkisreikning fyrir árið 2014. Í honum kemur fram að skatttekjur ríkissjóðs hafi aukist verulega, eða um 59 ma. kr., á milli ára. Aftur á móti jukust útgjöld ríkissjóðs einnig um 17 ma. kr. en þar vegur þyngst 8 ma. kr. hækkun launakostnaðar. Í heild batnaði afkoma ríkissjóðs um 47 ma. kr. og er þetta í fyrsta sinn frá falli fjármálakerfisins sem ríkissjóður skilar afgangi (mynd 1).

Skattbyrði hefur þyngst

Af ríkisreikningi er ljóst að skattbyrði bæði einstaklinga og fyrirtækja hefur þyngst (mynd 2). Þar kemur fram að skatttekjur ríkissjóðs sem hlutfall af landsframleiðslu hafi vaxið úr 27,1% í 30,2% á milli ára og allir helstu skattstofnar hækkað (mynd 2). Hlutfallslega var aukningin mest í tilfelli fjármagnstekjuskatts einstaklinga (39% aukning) og fyrirtækjaskatts (37% aukning). Þá vekur athygli að tryggingagjöld hafi hækkað um 5% á milli ára þrátt fyrir að atvinnuleysi hafi minnkað úr 5,4% niður í 5,0% á sama tímabili samkvæmt Hagstofu Íslands.

Ríkisútgjöld aukast á ný

Þá virðist aðhaldi í ríkisfjármálum vera lokið í bili. Launakostnaður ríkisins jókst um 6% á milli ára og önnur rekstrargjöld um 4%. Samtals nemur útgjaldaaukningin vegna þessara tveggja liða 13 ma. kr. á milli ára. Auk þessa hækkaði vaxtakostnaður ríkissjóðs um 4 ma. kr. á milli ára og nam 79 ma. kr. árið 2014. Útgjöld ríkissjóðs jukust því samtals um 17 ma. kr. á milli ára sem jafngildir 3% hækkun.

Forgangsraða þarf verkefnum stjórnvalda

Nauðsynlegt er að forgangsraða verkefnum stjórnvalda. Það mun seint teljast sjálfbær þróun að auka ríkisútgjöld á sama tíma og opinberar skuldir eru tvisvar til þrisvar sinnum hærri en hjá öðrum Norðurlöndum og hækkandi meðalaldur reynist Íslendingum sífellt þyngri baggi. Að mati Viðskiptaráðs eru fjölmörg verkefni á höndum hins opinbera í dag sem einkaaðilar eru betur til þess fallnir að leysa af hendi. Það getur hvort heldur verið í formi aukins einkarekstrar eða minni aðkomu hins opinbera á ákveðnum sviðum.1

Þetta verkefni er enn mikilvægara en ella í ljósi þess að Seðlabanki Íslands spáir þenslu hérlendis á næstu árum. Aðhaldsaðgerðir á tímum samdráttar og atvinnuleysis eru sársaukafullar og geta haft neikvæðar efnahagslegar afleiðingar í för með sér. Á uppgangstímum er hins vegar heppilegra að stjórnvöld dragi úr umsvifum hins opinbera með forgangsröðun verkefna og niðurgreiðslu opinberra skulda. Þannig verður best dregið úr hagsveiflum og stutt við efnahagslegan stöðugleika á komandi árum.

1 Sjá nánari umfjöllun í skoðun Viðskiptaráðs (mars 2015): „Starfsemi á skjön við almannavilja“. Slóð: http://vi.is/malefnastarf/utgafa/skodanir/starfsem...

Tengt efni

17.000 störf til að útrýma atvinnuleysi

Jafnvel þótt horfur séu góðar í baráttunni við kórónuveiruna er enn nokkuð í ...
23. feb 2021

Heimilin þungamiðja COVID-úrræða

Úrræði stjórnvalda hafa í meira mæli runnið til heimila en fyrirtækja þrátt ...
11. mar 2021

Komið að viðspyrnu í ríkisfjármálum

Sem betur fer er tilefni til að færa áherslu ríkisfjármála í auknum mæli að því ...
14. apr 2021