Á fimmta tug frumkvöðla og stjórnenda hittust á tengslakvöldi

Á fimmta tug gesta og lærimeistara mættu á dögunum á sjöunda tengslakvöld Viðskiptaráðs og Klak-Innovit sem haldið var í höfuðstöðvum Símans í Ármúla.

Tengslakvöldum var hleypt af stokkunum árið 2009 með það að markmiði að leiða saman reynslumikla stjórnendur, svokallaða mentora, og áhugasama frumkvöðla sem eru að stíga sín fyrstu skref í atvinnurekstri. Einnig að skapa farveg fyrir félaga Viðskiptaráðs til að leggja sitt á vogarskálarnar í uppbyggingu atvinnulífsins.

Fulltrúar frá sprotafyrirtækjum ANOTHER CREATION, Blendin, GolfPro Assistant,Gracipe, Herberia, Mulier, Radiant Games, Silverberg, Snjohus Software ogSolid Clouds sóttu tengslakvöldið.

Vettvangur sem þessi er kjörinn fyrir fulltrúa sprotafyrirtækja til að leita í reynslubanka þeirra sem hafa mikla reynslu úr íslensku viðskiptalífi,“ segir Salóme Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Klak-Innovits: „Að sama skapi fengu mentorarnir einnig innblástur úr nýsköpunarfyrirtækjunum þar sem ferskir vindar blása.“

Salóme segir að reynslumiklum stjórnendum þyki vænt um að fá að miðla af reynslu sinni til hagsbóta fyrir frumkvöðla. „Einnig var gaman að sjá að meðal fulltrúa í hópi mentora voru stofnendur nýsköpunarfyrirtækja. Það sýnir að á þessum vettvangi koma saman fyrirtæki sem hafa burði til þess að vaxa og dafna.“

Orri Hauksson, forstjóri Símans, var ánægður með kvöldið: „Ég vil þakka öllum sem komu fyrir áhugaverða kvöldstund. Það er gefandi að fylgjast með gróskunni sem er til staðar hjá íslenskum nýsköpunarfyrirtækjum.

Frosti Ólafsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, segir það mat þeirra sem standi að Viðskiptaráði að menntun og nýsköpun séu mikilvægir hlekkir í hagkerfinu til að efla langtímaforsendur aukinnar verðmætasköpunar og tryggja samkeppnishæfni Íslands.

Öll fyrirtæki byrja sem hugmynd. Þegar hjólin fara að snúast þurfa frumkvöðlar sprotafyrirtækja að taka fjölmargar ákvarðanir sem snúa að stefnumótun, vöruþróun, rekstri og ráðningu starfsmanna. Það er því gríðarlega mikilvægt fyrir fulltrúa nýrra fyrirtækja að eiga þess kost að sækja viðburð sem þennan og fá tækifæri til að leita í reynslubanka fremstu stjórnenda landsins.

Viðskiptaráð og Klak Innovit þakka Símanum fyrir samstarfið, fulltrúum nýsköpunarfyrirtækjanna fyrir þátttökuna og þeim sem studdu við verkefnið og tóku þátt að þessu sinni.

Hér má sjá myndir frá tengslakvöldinu.

Tengt efni

Andri nýr formaður Viðskiptaráðs – Ný stjórn kjörin

Aðalfundur Viðskiptaráðs Íslands fór fram í dag. Þar var kunngerð niðurstaða úr ...
7. feb 2024

Björn Brynjúlfur nýr framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs

Gengið hefur verið frá ráðningu Björns Brynjúlfs Björnssonar í starf ...
6. mar 2024

Hverju fórna foreldrar vegna leikskólavandans í Reykjavík?

Á sjöunda hundrað börn, 12 mánaða á eldri, bíða nú eftir leikskólaplássi í ...
12. ágú 2022