Viðskiptaráð Íslands 97 ára

Í dag, 17. september 2014, eru 97 ár liðin frá stofnun Viðskiptaráðs Íslands (áður Verslunarráð Íslands). Ráðið hefur starfað óslitið frá stofnun þess árið 1917 sem gerir það að einu elsta starfandi félagi landsins. Frá upphafi hefur ráðið verið sameiginlegur vettvangur íslensks viðskiptalífs og tilgangur þess hefur alla tíð verið sá sami: Að vinna að hagsmunamálum atvinnulífsins, óháð atvinnugreinum eða stærð fyrirtækja, og efla frjálsa verslun og framtak.

Saga ráðsins er samofin sögu verslunar og viðskipta á Íslandi. Það var stofnað í KFUM húsinu við Amtmannsstíg árið 1917. Skýrt var frá því á forsíðu Morgunblaðsins þann 19. september sama ár, að til stofnfundarins hefði verið boðað til að koma á „fulltrúaráði fyrir verzlun, iðnað og siglingar, er nefnist Verzlunarráð Íslands“. Að fundinum stóðu 73 einstaklingar og fyrirtæki, en síðar bættust fleiri í hópinn og teljast stofnendur ráðsins vera 156 talsins.

Saga ráðsins hefur verið viðburðarík og það hefur unnið að að mörgum merkum málum í þágu íslensks atvinnulífs. Ráðið hefur alla tíð unnið í anda þeirra markmiða sem í upphafi voru sett en að sama skapi sniðið stakk eftir vexti. Síbreytilegt viðskiptaumhverfi hefur á þessum árum mótað áherslur í starfi ráðsins á hverjum tíma. Í september árið 2005 var ákveðið að breyta nafni Verslunarráðs Íslands í Viðskiptaráð Íslands. Undangenginn áratug hafði orðið mikil breyting á íslensku viðskiptaumhverfi, en aukin fjölbreytni fyrirtækja innan ráðsins einkenndi umfram annað þá breytingu.

Félagar Viðskiptaráðs eru nú um 250 talsins með starfsemi á öllum sviðum atvinnulífsins. Alls hafa verið haldnir 1570 stjórnarfundir frá stofnun félagsins en í stjórn Viðskiptaráðs hafa allar götur frá stofnun setið helstu forvígismenn íslensks atvinnulífs.

Starfsfólk Viðskiptaráðs færir aðildarfélögum þess sérstakar þakkir fyrir samfylgdina síðastliðin 97 ár með von um áframhaldandi farsælt samstarf í þágu íslensks atvinnulífs og frjálsra viðskipta.

Tengt efni

Viðskiptaráð leitar að framkvæmdastjóra

Viðskiptaráð Íslands er heildarsamtök fyrirtækja, félaga og einstaklinga í ...
22. jan 2024

Viðskiptaráð styður hækkun hámarksaldurs heilbrigðisstarfsfólks

Umsögn um frumvarp til laga um um breytingu á lögum um heilbrigðisstarfsmenn, ...
8. maí 2023

Hver ber ábyrgð á verðbólgunni?

Ávarp formanns Viðskiptaráðs á Peningamálafundi sem fram fór í gær, 24. nóvember ...
25. nóv 2022