Morgunblaðsgrein Þórs Sigfússonar 27. september um viðskiptalífið

Eigum við að hafa áhyggjur?

Eftir Þór Sigfússon

Samkeppni hefur líklega aldrei verið meiri hérlendis en nú. Margar stórar stofnanir og fyrirtæki landsins þurfa nú að búa við meiri samanburð og samkeppni en áður. Háskóli Íslands stendur frammi fyrir samkeppni sem vakið hefur menntarisann til lífsins, Flugleiðir keppa við lággjaldaflugfélag, olíufélög, fjarskiptafyrirtæki og skipafélög fá nýja keppinauta, innlendir bankar keppa við alþjóðlega banka og Morgunblaðið kemur út á mánudögum.

Fyrir rúmum áratug síðan voru ýmsir þeir athafnamenn sem nú eru áhrifamiklir í íslensku viðskiptalífi að taka sín fyrstu skref í rekstri á lágvöruverðsverslun, flugfélagi, gosframleiðslu, hrognavinnslu, stoðtækjaframleiðslu og útgerð svo eitthvað sé nefnt. Þessir einstaklingar áttu fátt sameiginlegt annað en að eiga lítið fé, vera ekki hluti að þeim tveim stóru valdablokkum í íslensku atvinnulífi sem við lýði voru og að njóta lítillar hylli ríkisrekins bankakerfis. Fyrirtæki þeirra eiga það hins vegar sammerkt að þau náðu árangri vegna þess að þau byggðu á þekkingu og aðferðum sem voru framúrskarandi og nutu til þess stuðnings smárra fjárfesta og nútímavæddra fjármálafyrirtækja. Sú vending sem varð á tíunda áratugnum með ríkisstjórnum sem litu á frelsi í viðskiptum sem tækifæri en ekki ógn, opnu hlutabréfamarkaðar og nútímalegri fjármálastarfsemi voru forsendur þess að margir þessara einstaklinga gátu byggt upp stór og öflug fyrirtæki.

Ef einhver svaf illa yfir velgengni þeirra fáu sem réðu lögum og lofum í íslensku viðskiptalífi fyrir rúmum áratug þá hlýtur sá hinn sami að vera andvaka nú með allan þann fjölda sem hefur náð árangri í breyttu viðskiptaumhverfi. En er ástæða til að óttast þessa þróun eða spyrna við henni?

Sunnudaginn 21. september má lesa út úr leiðara Morgunblaðsins vissar efasemdir um það að þau átök sem hafa verið áberandi í íslensku viðskiptalífi undanfarið skili sér í betur reknum fyrirtækjum. Spurt er hvort einungis sé verið að skipta um andlit í gömlum stólum og hvort markmið markaðsvæðingarinnar á tíunda áratugnum hafi verið að flytja sífellt meiri völd og eignir á færri hendur. Þessar spurningar eiga fyllilega rétt á sér og þarft að svara þeim.

Fyrst um völd. Í þeirri umræðu sem fram fer um íslenskt viðskiptalíf virðist enn blunda rótgróin en að sumu leyti úrelt hugmyndafræði um völd og áhrif í viðskiptalífi. Auðvitað eru flugfélög, olíufélög, tryggingafélög og bankar valdamiklar stofnanir, ekki síst í smáríki, en völd þeirra minnka eftir því sem arðsemi þeirra er minni. Það er vonlaust fyrir óarðbær fyrirtæki að hugsa meira um völd en hagnað og reyna að halda í völdin með því að skuldsetja sig. Völd og áhrif í samkeppnisumhverfi krefjast þess að menn bretti upp ermar og skili góðum afgangi í rekstri. Einmitt þetta hefur hugsanlega komið betur í ljós á undanförnum árum. Nýir fjárfestar á markaðnum hafa sagt að þeir vilji auka arðsemi rótgróinna fyrirtækja og undir rós hafa þeir sagt að þeir hyggist segja kunningjaþjóðfélaginu stríð á hendur. Nýju fjárfestarnir hafa því verið stóryrtari um ástæður þess að þeir vilji spreyta sig en jafnframt á eftir að koma í ljós hvort þeir nái að auka arðsemi. Markmið þeirra um aukna arðsemi hafa hins vegar verið gerð opinber og auðvelt verður að mæla árangurinn.

Þótt tveir valdahópar hafi tekist á að undanförnu eru margir aðrir sem gætu tekið þátt en hafa valið önnur verkefni, hér og erlendis, sem þeir telja hugsanlega arðbærari en þær stofnanir sem tekist hefur verið á um.

Nú eru 8-10 fyrirtækjahópar í stað tveggja áður með umtalsverð ítök í íslensku viðskiptalífi. Eignir hafa því dreifst á fleiri hendur en áður þótt nú sé mest rætt um átök tveggja af öflugustu valdablokkum íslensks viðskiptalífs. Völd og áhrif í íslensku viðskiptalífi hafa því líklega aldrei verið á fleiri höndum en nú og þær breytingar og þau átök sem átt hafa sér stað í viðskiptalífinu gætu verið kennslubókardæmi um það hvernig virkt hagkerfi á að starfa: fjárfestar leita nýrra tækifæra og fyrirtæki og forstjórar eiga fáa kyrrðardaga.

Þetta eru engir vaxtarverkir eins og leiðarahöfundur Morgunblaðsins veltir fyrir sér. Og það er engin sjáanleg hætta á ferðum á meðan hlúð er að samkeppninni og erlend fjárfesting er leyfð. Ef allt er eins og best verður á kosið eru fáir kyrrðardagar í vinnuvikunni hjá stjórnendum 20-30 stærstu fyrirtækja landsins. Þetta eru umrótstímar fyrir marga, ekki síst þá sem hafa búið lengi við óbreytt ástand. Spurningum leiðarahöfundar Morgunblaðsins þess efnis hvort ástæða sé til að koma böndum á þetta ástand og hvort rétta þurfi viðskiptalífið af verður því að svara neitandi.

Það sem hins vegar má taka undir með leiðarahöfundi Morgunblaðsins, er að smærri hluthafar eru ekki þátttakendur í þessu ferli og fylgjast einungis með úr fjarlægð, þegar ráðandi hluthafar umbreyta fyrirtækjunum. Það er erfitt að styrkja stöðu minnihluta eigenda í fyrirtækjum; þannig er oftast með minnihluta. Þessir hluthafar eiga auðvitað kost á því að selja hlutabréf sín og kaupa í öðrum fyrirtækjum sem vilja eiga betri samskipti við breiðari hóp hluthafa. Það er hins vegar augljós hagur alls íslensks viðskiptalífs að fyrirtæki standi saman um það að hlúa að minni hluthöfum. Það voru einmitt þeir sem lyftu Grettistaki með mörgum frumherjanna og þannig mun það án efa verða áfram ef viðskiptalífið viðheldur trausti smásparenda.

Stórtíðindi úr íslensku viðskiptalífi munu halda áfram að berast okkur og það má ekki koma fát á okkur vegna þeirra. Nýir íslenskir iðnjöfrar munu koma fram á sviðum sem okkur óraði ekki fyrir, jafnvel íþróttaálfar kunna að skapa okkur mestu verðmætin á næstu árum, erlend fjármálafyrirtæki munu setja upp starfsstöðvar hérlendis, útrásin mun halda áfram á ólíkustu sviðum, útlendingar munu vilja fjárfesta hér í ferðaþjónustu, sjávarútvegi og orku, menn í úrvalsdeildinni munu falla í aðra deild og aðrir koma í staðinn.

Þannig gengur þetta fyrir sig og engin ástæða er til þess að líkja okkur við Rússland eftir fall Sovétríkjanna eins og leiðarahöfundur Morgunblaðsins gerir eða að trúa því að Alþingi þurfa að koma böndum á þetta umrót. Auðvitað eigum við að vera á varðbergi en fyrst og fremst ber að fagna því að ekki ríkir sama ládeyða í íslensku athafnalífi og er að hrjá margar nágrannaþjóðir okkar.

Tengt efni

Þrjár áréttingar um grunnskólamál

Umsögn Viðskiptaráðs um áform stjórnvalda um endanlegt afnám samræmdra prófa ...
24. júl 2024

Jöfnunarsjóður atvinnulífsins?

Svanhildur Hólm Valsdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, skrifar um ...
21. feb 2024

„Við þurfum raunsæja nálgun“

Ávarp Ara Fenger, formanns Viðskiptaráðs, á Peningamálafundi Viðskiptaráðs sem ...
23. nóv 2023