Getum við allra vinsamlegast gyrt okkur?

Við hefðum ekki getað rekið íslenskt samfélag og atvinnulíf síðastliðna áratugi án utanaðkomandi aðstoðar.

Mér finnst eins og að þetta sé í svona hundraðasta sinn sem ég skrifa grein eða ræðu eða skýrslu um að við séum að klúðra miklu hagsmunamáli fyrir okkur sjálfum með því að flækja það allt of mikið fyrir útlendingum að koma hingað að vinna. Það sem meira er, ég hef eiginlega aldrei rekist á neinn sem er ósammála þessu.

Staðreyndin er sú að við hefðum ekki getað rekið íslenskt samfélag og atvinnulíf síðastliðna áratugi án utanaðkomandi aðstoðar. Í það minnsta ekki í þeirri mynd sem við þekkjum það. Og þar liggur hundurinn grafinn. Við eigum möguleika á að búa til ný verðmæti úr góðum hugmyndum, stofna ný fyrirtæki og stækka þau sem fyrir eru, en okkur vantar fólk. Ef við tökum þá ákvörðun að vera áfram treg og erfið, með þunga stjórnsýslu og háar girðingar í lögum um atvinnuréttindi útlendinga, geta þessar hugmyndir bara farið eitthvað annað, þar sem er fleira fólk og stærri markaður, enda er erfiðara að setja hömlur á útflutning hugmynda en innflutning fólks.

Tökum dæmi

Ein leið til að fá fleira fólk til landsins er að auka framboð á alþjóðlegu námi í íslenskum háskólum og laða hingað erlenda námsmenn. Þetta gera ýmsar aðrar þjóðir og ef fólk heldur til dæmis að það sé rekin einhver sérstök góðgerðarstefna í bandarískum háskólum sem gerir það að verkum að þangað flykkist erlendir námsmenn, þá er það misskilningur. Þetta er einfaldlega sniðug leið til að laða að sér framtíðarafreksfólk á sínu sviði og akkúrat það eigum við að gera. Fjölga erlendum námsmönnum, sérstaklega í þeim greinum sem við þurfum mest á að halda, tengja þá við fyrirtæki á námstímanum og fá þá svo út á íslenskan vinnumarkað að námi loknu.

En hvernig skyldi þessu vera háttað núna?

Daniel Barrios Castilla er kólumbískur innflytjandi sem kom hingað til lands árið 2019 til að fara í meistaranám í orkuverkfræði. Hann lýsir reynslu sinni af íslenska kerfinu í viðtali í Viðskiptaþingsblaðinu sem kom út í síðustu viku. Daniel þurfti að senda gögn frá Kólumbíu til Íslands fjórum sinnum og greiða gjald fyrir í hvert sinn. Svo þurfti hann að sýna fram á að hann ætti fyrir að minnsta kosti sex mánaða framfærslu en helst allan tímann. Daniel gat það auðveldlega en þar með var björninn ekki unninn. Íslensk yfirvöld vildu ekki taka við kólumbískum pesóum þannig að Daniel þurfti að stofna bankareikning í Evrópu og kaupa þar evrur fyrir pesóana sína. Hann gat nefnilega ekki stofnað reikning hér á landi án kennitölu. Allt þetta hafðist þó en það er margt sem hægt er að bæta. Eitt af því er stafræn þjónusta. Daniel þurfti til dæmis, eftir að hann kom til landsins, að fylla út slatta af eyðiblöðum hjá Útlendingastofnun sem mátti alls ekki gera á netinu heldur varð að skila á pappír. Háskólinn í Reykjavík reyndist Daniel betur en enginn og veitti honum margvíslega aðstoð til að hjálpa honum í gegnum skriffinnskuna, auk þess að hafa milligöngu um að koma fyrsta gjaldinu í ferlinu til yfirvalda.

Eftir fyrra árið í náminu sótti Daniel um sumarstarf hjá HR, sem var hluti af Covid-aðgerðum stjórnvalda, og var ráðinn. Þá komst hann að því að hann þurfti sérstakt leyfi til að mega vinna fyrir sér. Daníel sótti strax um en ferlið tók of langan tíma og vinnuveitandinn neyddist til að afturkalla ráðninguna. Með harðfylgni komst hann samt í vinnu um sumarið og lauk svo náminu.

Þessar hindranir hafa sem betur fer ekki náð að slökkva neistann og Daniel er hér enn. Hefur lokið námi og á nú að baki ár í vinnu hjá Controlant. Til þess að mega ráða sig þurfti hann þó að ganga aftur í gegnum seinlegt umsóknarferli um atvinnuleyfi, en Daniel greiddi þá flýtigjald og fékk leyfið eftir rúman mánuð. Hann er samt enn á ný staddur í sama ferli, því leyfið góða þarf að endurnýja árlega. Nú greiddi hann ekki flýtigjald og það er ekkert að frétta. Hann getur þó athugað stöðuna á leyfinu hjá Vinnumálastofnun, milli klukkan 10 og 12 á miðvikudögum og föstudögum.

Svanhildur Hólm Valsdóttir er framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs.

Greinin birtist fyrst í ViðskiptaMogganum, 25. maí 2022.

Tengt efni

Þrjár áréttingar um grunnskólamál

Umsögn Viðskiptaráðs um áform stjórnvalda um endanlegt afnám samræmdra prófa ...
24. júl 2024

Gera þarf breytingar á fjölda og fjármögnunarkerfi sveitarfélaga

Umsögn Viðskiptaráðs um drög að stefnu í málefnum sveitarfélaga (mál nr. 72/2023).
19. apr 2023

Nauðsynlegt að skapa rétta hvata

Umsögn Viðskiptaráðs og SA um endurskoðun á regluverki Jöfnunarsjóðs ...
31. mar 2023