Lögð verði áhersla á að liðka fyrir komu erlendra sérfræðinga

Umsögn Viðskiptaráðs um drög að atvinnu- og nýsköpunarstefnu Reykjavíkurborgar til ársins 2030

Viðskiptaráð fagnar því að óskað sé eftir auknu samráði við mótun atvinnu- og nýsköpunarstefnu Reykjavíkurborgar til ársins 2030 og vísar m.a. til fyrri umsagnar. Ráðið telur þó að í núverandi drögum megi leggja meiri áherslu á ákveðna þætti sem fjallað er um hér að neðan.

Aukin áhersla á alþjóðageirann

Viðskiptaráð tekur sérstaklega undir kjarnaáherslu nr. 3 sem kveður á um fleiri stoðir verðmætasköpunar. Þar er lögð áhersla á bætt rekstrarumhverfi greina alþjóðageirans en undir geirann falla þær útflutningsgreinar sem ekki eru sérstaklega háðar íslenskum náttúruauðlindum og reiða þær sig fyrst og fremst á hugvit. Í skýrslu Viðskiptaráðs, Hugsum stærra: Ísland í alþjóðasamkeppni, má finna tillögur í 22 liðum um hvernig megi stuðla að bættri rekstraraðstöðu fyrirtækja í alþjóðlegri samkeppni. Þar að auki þarf að skapa öllum atvinnugreinum gott umhverfi og forsendur til nýsköpunar.

Hlutverk Reykjavíkurborgar annars vegar og einkaaðila hins vegar

Ráðið telur að hlutverk Reykjavíkurborgar í málefnum atvinnulífs og nýsköpunar sé að skapa umhverfi sem leyfir fjölbreyttum atvinnugreinum að blómstra. Þá er mikilvægt að borgin einbeiti sér að sínum meginverkefnum og stundi ekki starfsemi sem einkaaðilar eru færir um að sinna á samkeppnismarkaði. Þess í stað ætti borgin að skapa frjósaman jarðveg fyrir einkaaðila og huga um leið að alþjóðlegri samkeppnishæfni.

Liðkað fyrir komu erlendra sérfræðinga

Ráðið fagnar því að stefnt sé að því að efla innlent og alþjóðlegt samstarf um nýsköpun og rannsóknir, þá einkum með þátttöku í alþjóðlegu nýsköpunar- og rannsóknarsamstarfi. Ráðið telur þá ekki síður mikilvægt að lögð sé áhersla á að liðka fyrir komu erlendra sérfræðinga til landsins. Þá er er mikilvægt að Reykjavíkurborg sé álitlegur kostur fyrir erlenda sérfræðinga að flytjast til og starfa, því sökum smæðar landsins getur reynst torvelt að byggja upp sterkan hugvitsgeira án þeirra aðkomu.

Eitt af meginhlutverkum borgarinnar í þessu samhengi er t.a.m. að efla hlið menntakerfisins sem getur sinnt börnum erlendra sérfræðinga sem sækjast eftir því að flytja til Íslands með fjölskyldur sínar. Á Íslandi starfa aðeins tveir alþjóðlegir grunnskólar sem anna ekki eftirspurn og aðeins einn framhaldsskóli býður upp á nám á alþjóðlegri braut. Þar að auki þarf að leita leiða til að tryggja að erlendir sérfræðingar sem flytjast til borgarinnar upplifi sig sem hluta af samfélaginu og auki þannig líkur á að þeir setjist varanlega að í höfuðborg Íslands.

Ráðið telur að í grófum dráttum séu kjarnaáherslurnar til bóta fyrir atvinnulíf og nýsköpun í Reykjavíkurborg en telur þó að ýmislegt þurfi betur að skýra svo að markmið stefnunnar nái fram að ganga.

Tengt efni

At­vinnu­rekstur er allra hagur

„Það er mikið hagsmunamál fyrir launafólk að til séu þeir sem bæði geta stofnað ...
23. feb 2024

Ríkið herðir hnútinn á leigumarkaði

Frumvarp um breytingar á húsaleigulögum er enn einn rembihnúturinná leigumarkaðinn
31. ágú 2023

Annarra manna fé

„Það er engu líkara en að Reykjavíkurborg sé að vinna með kómóreyska franka en ...
3. okt 2023