Sveitarfélög horfi til alþjóðageirans

Viðskiptaráð hvetur Reykjavíkurborg til að skapa atvinnulífinu gott rekstrarumhverfi og leggja þar sérstaka áherslu á alþjóðageirann í samræmi við skýrslu Viðskiptaþings

Með vísan til tölvupósts frá Athafnaborginni 29. mars síðastliðinn þakkar Viðskiptaráð fyrir tækifærið til að koma með sína afstöðu gagnvart mótun atvinnu- og nýsköpunarstefnu Reykjavíkurborgar. Í póstinum eru lagðar fram spurningar í sex liðum og því er umsögnin skrifuð sem svar við þeim.

a) Hver á framtíðarsýn atvinnu- og nýsköpunarstefnu Reykjavíkurborgar að vera til ársins 2030?

Viðskiptaráð hefur um árabil verið þeirra skoðunar að stærstu tækifærin í íslensku atvinnulífi séu fólgin í svokölluðum alþjóðageira, en undir geirann falla þær útflutningsgreinar sem eru ekki sérstaklega háðar íslenskum náttúruauðlindum. Hins vegar treysta þær fyrst og fremst á hugvit. Möguleikar slíkra greina eru því í raun ótakmarkaðir. Nýlegt Viðskiptaþing, sem bara yfirskriftina: Hugsum stærra: Ísland í alþjóðasamkeppni, og samnefnd skýrsla fjalla sérstaklega um þetta. Í skýrslunni má til að mynda finna tillögur alþjóðahóps í 22 liðum enda margt sem þarf að ganga upp svo að grípa megi þessi tækifæri.

Við teljum að Reykjavíkurborg eigi að stefna að því sem skýrslan leggur upp með: Að leggja sérstaka áherslu á að bæta rekstrarumhverfi greina alþjóðageirans svo að borgin sé á heimsmælikvarða og að umsvif geirans í borginni stóraukist. Þar með er ekki sagt að ekki þurfi að horfa á aðrar greinar – skapa þarf öllum atvinnugreinum gott umhverfi og forsendur til nýsköpunar.

b) Hvert á hlutverk og meginmarkmið Reykjavíkurborgar að vera í málefnum atvinnulífs og nýsköpunar til þess að uppfylla þá framtíðarsýn? 

Reykjavíkurborg, líkt og önnur sveitarfélög á að leitast við að skapa það umhverfi sem leyfir fjölbreyttum atvinnugreinum að blómstra. Þetta á ekki síst við alþjóðageirann þar sem fyrirtæki eru í harðri alþjóðlegri samkeppni þar sem minnstu atrið getað riðið baggamuninn. Í því samhengi er nær ekkert óviðkomandi en almennt þarf að huga sérstaklega að sköttum og gjöldum, gæðum þjónustu og grunninnviðum. Þessu til viðbótar er mikilvægt að borgin einbeiti sér að sínum meginverkefnum og stundi ekki starfsemi sem einkaaðilar eru færir um að sinna á samkeppnismarkaði.

c) Nefnið dæmi um aðgerðir og verkefni sem Reykjavíkurborg getur beitt sér í til þess að uppfylla ofangreinda framtíðarsýn og meginmarkmið?

Það sem varðar sérstaklega sveitarfélög og framangreindan alþjóðageira er t.d. að þau búi þannig um hnútana að erlendum sérfræðingum sé gert auðvelt fyrir að flytja hingað og aðlagast lífinu hér. Ísland er einfaldlega það fámennt að ef byggja á upp fjölbreytta hugvitsdrifna atvinnustarfsemi er ekki bara kostur heldur bráðnauðsynlegt að Ísland sé samkeppnishæft í að laða hingað starfsfólk. Mikilvægur þáttur í því, líkt og lagt er til í skýrslunni, er að styrkja alþjóðlegt nám á öllum skólastigum:

Til að fleiri erlendir einstaklingar flytji til Íslands með fjölskyldur sínar þurfa börn að hafa greitt aðgengi að öflugu menntakerfi þar sem kennt er á ensku. Á Íslandi starfa tveir alþjóðlegir grunnskólar sem anna ekki eftirspurn og einungis einn framhaldsskóli býður upp á nám á alþjóðlegri braut. Efla þarf þessa hlið menntakerfisins.“

Hér gegna sveitarfélög eðlilega lykilhlutverki og því ætti Reykjavíkurborg að setja sér mælanleg markmið og aðgerðaáætlun til ársins 2030 um að efla alþjóðlegt nám.

d) Hvernig á borgin að mæla árangur í þessum málaflokkum? 

Almennt er hægt að horfa t.d. til fjölda starfsmanna og veltu í hugvitsdrifnum útflutningsgreinum í borginni. Varðandi alþjóðlegt nám er hægt að stefna á tiltekinn fjölda nemenda í alþjóðlegum skólum í borginni og jafnframt horfa á árangurstengd markmið.

e) Hvaða borgir teljið þið vera alþjóðlegar fyrirmyndir í málefnum atvinnulífs og nýsköpunar og hvers vegna?

Vafalaust er hægt að horfa til fjölda fyrirmynda í þessum efnum. Til að þær fyrirmyndir séu sem samanburðarhæfastar má horfa til borga á Norðurlöndunum, en einnig í öðrum ríkjum sem almennt koma út vel í samkeppnishæfni atvinnulífs. Nefna má eina borg sem kom upp oftar en einu sinni í undirbúningi Viðskiptaþings: Montreal í Kanada. Þar hefur t.d. leikjaiðnaður verið byggður markvisst upp og dæmi eru um að íslenskum fyrirtækjum hafi boðist að flytja höfuðstöðvar þangað og fá í staðinn ríflega skattaafslætti og svo framvegis.

f) Annað sem þið viljið koma á framfæri á þessum tímapunkti?

Malbikunarstöðin Höfði

Í lið b var minnst á að Reykjavíkurborg og aðrir opinberir aðilar eigi ekki að standa í samkeppni í starfsemi sem einkaaðilar eru fullfærir um að sinna. Því er ekki alltaf svo farið og gott dæmi um þetta er Malbikunarstöðin Höfði, sem Viðskiptaráð hefur oftar en einu sinni bent á að ætti ekki að vera í eigu borgarinnar. Í nýlegri grein framkvæmdastjóra Viðskiptaráðs og Samtaka iðnaðarins var fjallað um þetta. Þau rök hafa verið notuð að með rekstri stöðvarinnar sé Reykjavík að tryggja samkeppni á þeim mörkuðum sem malbikunarstöðin starfar. Staðreyndin er hins vegar sú að einn samkeppnisaðilinn á verkefnalausa malbikunarstöð og að hér starfar Samkeppniseftirlit sem hefur það verkefni að tryggja samkeppni á mörkuðum. Ef rekstrargrundvöllur er fyrir fyrirtækinu má líka ætla að lítill vandi að finna áhugasama kaupendur þannig að samkeppnin væri sú sama eftir sem áður.

Nú stendur til að byggja nýja stöð á Esjumelum þar sem loka þarf þeirri sem nú er í rekstri. Það kallar á 1,7 milljarða króna lántöku sem virðist hreinlega þjóðhagsleg sóun þegar nú þegar er til stöð sem er ekki í rekstri. Þessum fjármunum væri betur varið í að byggja upp grunninnviði, styðja við skóla borgarinna eða lækka skatta.

Dagvistunarúrræði

Á sama tíma og borgin byggir malbikunarstöð sem ætla má að kosti meira en 2 milljarða króna eru dagvistunarmál í ólagi. Óásættanlegt er hversu seint og illa gengur að veita börnum í mörgum hverfum borgarinnar leikskólapláss. Þetta hefur óneitanlega slæm áhrif á atvinnulífið með því að gera fólki erfitt fyrir að snúa að fullu til baka úr barneignaleyfi, en dregur umfram allt úr lífsgæðum fjölskyldna. Þá er hér um að ræða eitt mikilvægasta jafnréttismálið – að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla, en Reykjavíkurborg ætti að kappkosta við að vera framarlega á því sviði og hluti af atvinnustefnu borgarinnar ætti að einblína á það. Einnig vinnur ástandið beinlínis gegn markmiðum borgarinnar um að halda aftur af vexti bílaumferðar og að fólk geti nálgast alla helstu þjónustu innan hverfis. Því má slá föstu að margir foreldrar eyði mun lengri tíma í að ferðast þvert yfir borgina til að aka börnum í og úr leikskóla eða dagvistun en þyrfti ef þessi mál væru í góðu horfi.

Líkt og kom fram hér að framan þarf margt að ganga upp til að byggja megi upp öflugan alþjóðageira. Þó að það sé ekki meginástæða fyrir því að bæta aðgengi að dagvistunarúrræðum í borginni er það eigi að síður mikilvægur liður í því að bæta lífsgæði í borginni sem laðar að fólk og þannig fyrirtæki um leið.

Tengt efni

Átján fyrirmyndarfyrirtækjum í stjórnarháttum veitt viðurkenning

Hópur fyrirtækja í fjölbreyttri starfsemi hlaut í dag verðlaun fyrir góða ...
22. ágú 2023