Góðar aðgerðir sem duga skammt

Viðskiptaráð fagnar þeim aðgerðum sem kynntar hafa verið vegna kórónuveirunnar og styður að þær nái fram að ganga. Allt bendir þó til þess að grípa þurfi til frekari aðgerða af hálfu hins opinbera og bindur Viðskiptaráð vonir við að þær muni fela í sér eftirgjöf á opinberum gjöldum og að fjárfestingargeta atvinnulífsins sé varin eftir fremsta megni.

Viðskiptaráð þakkar fyrir tækifærið til að veita þessu mikilvæga og tímabæra máli umsögn. Ráðið hefur þessu tengt jafnframt skilað inn umsögn um fjáraukalög til fjárlaganefndar.

Þegar þetta er skrifað hefur kórónuveiran þegar raskað heimshagkerfinu og stendur íslenskt efnahagslíf frammi fyrir bráðavanda. Íslensk fyrirtæki gera allt sem í þeirra valdi stendur til að taka á þessum vanda og róa mörg þeirra lífróður. Því er gríðarlega mikilvægt að stjórnvöld grípi til umfangsmikla aðgerða til að takmarka áhrif kórónuveirunnar á íslenskt efnahagslíf meðan faraldurinn gengur yfir og stuðli að því að efnahagslífið nái aftur jafnvægi sem fyrst.

Viðskiptaráð fagnar því þeim fjölþættu tillögum sem frumvarpið felur í sér, sem stuðla að því markmiði að verja afkomu fólks og fyrirtækja í landinu og vernda grunnstoðir samfélagsins. Þá ber einnig að fagna yfirlýsingum ríkisstjórnarinnar að meira verði gert til að takast á við þetta ástand og að mikilvægt sé að gera meira en of lítið í aðstæðum sem þessum. Ráðið hefur þó nokkrar ábendingar.  

  • Allt bendir til þess að þörf sé á frekari aðgerðum
  • Greiðslufrestir og skuldsetning fyrirtækja eru takmörkunum háð
  • Afnema ætti tryggingagjaldið tímabundið
  • Fresta ætti innheimtu virðisaukaskatts
  • Fasteignaskatta þarf að afnema tímabundið

Allt bendir til þess að þörf sé á frekari aðgerðum

Þó að hér sé um nauðsynleg skref að ræða breytist staðan hratt og lykilatriði er að stjórnvöld sýni mikinn sveigjanleika á næstu vikum. Það blasir við að íslenska hagkerfið er á leið inn í niðursveiflu – spurningin er einungis hversu djúp og löng hún verður. Til að átta sig á samhenginu er Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn að reikna með efnahagssamdrætti í ár sem jafnast í besta falli á við fjármálakreppuna.[2] Framtíðarhorfur eru mjög óljósar og þó Ísland standi að mörgu leyti vel og allar forsendur séu fyrir því að komast vel í gegnum þetta efnahagsáfall, er útlitið mjög dökkt til skemmri tíma.  

Því verða stjórnvöld og löggjafinn að vera í viðbragðsstöðu og tilbúin að grípa fljótt inn í þegar þörf krefur. Það getur reynst mjög kostnaðarsamt seinna meir ef gripið er til of vægra eða síðbúinna ráðstafana. Í ljósi þess hve hratt og harkalega kórónuveiran er að lama íslenskt atvinnulíf, m.a. vegna víðtæks samkomubanns, blasir við að ganga þarf mun lengra ef ekki á illa að fara.  

Aðgerðir stjórnvalda nema 7,8% af landsframleiðslu (VLF). Af þeim eru 6,7% sem snúa að beinum krísuviðbrögðum og 1,1% sem telja má þá til viðspyrnuaðgerða. Af þeim 6,7% sem fara í að bregðast við krísunni eru 5,2% lánveitingar til atvinnulífsins, 0,3% úttektarheimild á séreignarsparnaði og 1,2% eru opinber útgjöld. Það þýðir jafnframt að bein skuldsetning fyrirtækja eykst um 5,2% af VLF eingöngu í tengslum við aðgerðir stjórnvalda en skuldsetning mun vafalaust aukast af öðrum sökum einnig.

Í því samhengi er mikilvægt að horfa til aðgerða annarra ríkja og hafa hugfast að nauðsynlegt er að gera meira heldur en minna. Sá aðgerðarpakki stjórnvalda er kynntur var á laugardaginn er um margt líkur þeim aðgerðum sem ríkisstjórnir á Norðurlöndunum hafa nú þegar kynnt til leiks. Viðskiptaráð telur þó mikilvægt að hafa í huga að ríki í kringum okkur kynntu sínar aðgerðir rúmlega viku fyrr en íslensk stjórnvöld og eru nú þegar búin að uppfæra einhverjar af sínum aðgerðum eða eru að endurskoða þau í ljósi síbreytilegrar stöðu. Þá eru sum hver að átta sig á því að það sé ekki endilega skynsamlegasta leiðin til að styðja við fyrirtæki að láta þau skuldsetja sig meira heldur þurfi beinni og markvissari stuðning.

Í Danmörku mun til að mynda ákveðin fjárhæð renna beint til fyrirtækja – ekki í formi lána líkt og við sjáum hérlendis. Danir ætla að veita fyrirtækjum sem missa 40% eða meira af tekjum sínum styrki sem nema 25-80% á föstum kostnaði þeirra. Þetta eitt og sér er talið kosta 2% af landsframleiðslu (VLF). Þá fá sjálfstætt starfandi og fyrirtæki með 10 eða færri starfsmenn sem sjá tekjur minnka um meira en 30% allt að 75% af tekjum sínum greiddar frá ríkinu. Þessir styrkir eru í boði í þrjá mánuði og eru ekki lán eða frestanir, heldur bein fjárframlög frá ríkinu til fyrirtækja vegna bráðavanda kórónuveirunnar. Fleiri ríki eru að skoða þennan möguleika. Þá mætti einnig nefna þá leið er norsk stjórnvöld kynntu sem felur í sér heimild til að draga tap ársins frá hagnaði fyrri ára og stofna þannig til endurgreiðslukröfu á ríkið, þ.e.a.s. fá endurgreiddan tekjuskatt frá fyrri árum.

Greiðslufrestir og skuldsetning fyrirtækja takmörkunum háð

Í upphafi skal endinn skoða og ljóst er að þær aðgerðir sem gripið er til nú munu hafa töluverð áhrif á samsetningu efnahagsreiknings stórs hluta fyrirtækja á Íslandi. Aðgerðir íslenskra stjórnvalda gagnvart atvinnulífinu eru að stofni til lánafyrirgreiðsla og frestun gjalddaga opinberra gjalda sem koma á skuldadaga síðar meir. Það hefur í för með sér að fyrirtæki, sem komast þó í gegnum þær þrengingar sem nú standa yfir, munu mörg hver hafa gengið verulega á eigið fé sitt og skulda hlutfallslega mikið. Mikil skuldsetning getur dregið úr fjárfestingargetu fyrirtækja þegar rofa fer til, sem aftur getur dregið úr viðspyrnuhraða hagkerfisins þegar fram í sækir.

Á sama tíma og Viðskiptaráð fagnar þeim tillögum sem eru fram komnar bindur ráðið vonir við frekari aðgerðir af hálfu hins opinbera sem felur í sér eftirgjöf á opinberum gjöldum og tryggja að fjárfestingargeta atvinnulífsins sé varin eftir fremsta megni. Það er að mati ráðsins ekki skynsamlegt til lengri tíma að stefna fólki og fyrirtækjum í of mikla skuldsetningu vegna atburða sem birtast okkur eins og þessar óviðjafnanlegu náttúruhamfarir.

Afnema ætti tryggingagjaldið tímabundið

Frumvarpið felur m.a. í sér greiðslufrest á allt að þremur greiðslum staðgreiðslu og tryggingagjalds á tímabilinu 1. apríl 2020 til 1. desember 2020.  Þrátt fyrir að Viðskiptaráð telji þessa ráðstöfun af hinu góða telur ráðið að að réttast væri að afnema a.m.k. hluta þessara greiðslna tímabundið og má þá sérstaklega horfa á tryggingagjaldið.

Tímabundið afnám tryggingagjaldsins væri hnitmiðuð ráðstöfun sem auðveldar fyrirtækjum að sporna gegn atvinnuleysi. Áætlaðar heildartekjur ríkisins af tryggingagjaldi samkvæmt fjárlögum eru 102 ma. kr. beinn kostnaður ríkisins af afnámi tryggingagjalds í þrjá mánuði (mars, apríl og maí) næmi 18 ma. króna. Ljóst er að forsendur fjárlaga eru brostnar  vegna faraldursins, líkt og fjallað er um í umsögn Viðskiptaráðs um fjáraukalög, og tekjur af tryggingagjaldi verða minni. Ríkið getur aftur á móti spornað gegn varanlegu tekjutapi með því að létta tímabundið undir fyrirtækjum. Lykilatriðið er að tímabundið afnám tryggingagjaldsins myndi hjálpa fyrirtækjum að að halda í starfsfólk sem annars hefði þurft að segja upp, einkum í mannaflsfrekum atvinnugreinum, t.d. ferðaþjónustu og hugvitsdrifinni starfsemi.  

Fresta ætti innheimtu virðisaukaskatts

Viðskiptaráð telur mikilvægt að skilum virðisaukaskatts almennt sé frestað í heild eða að hluta samhliða frestun annarra opinberra gjalda. Stjórnvöld í Danmörku, Svíþjóð, Belgíu og Frakklandi hafa til að mynda gripið til frestunar á innheimtu virðisaukaskatts. Í Danmörku er virðisaukaskatti og fyrirtækjasköttum t.a.m. frestað í allt að ár. Virðisaukaskattur er stærsti einstaki skattstofn ríkisins og því verulegar fjárhæðir að í húfi fyrir fyrirtæki – tímabundin frestun á greiðslu hans skapar mikilvægt svigrúm fyrir fyrirtæki þegar spáð er að veiran nái hámarki sínu.

Fasteignaskattar verði afnumdir tímabundið

Mikilvægt er að þau úrræði sem gripið verður til nýtist sem best og dreifist sem víðast í öllum skilningi. Því er einnig þörf á aðgerðum af hálfu sveitarfélaganna. Þegar hafa ýmsar hugmyndir verið lagðar fram á vettvangi Sambands íslenskra sveitarfélaga, en í frumvarpinu er meðal annars lögð til heimild til frestunar á gjalddögum fasteignaskatts. Viðskiptaráð leggur áherslu á að sveitarfélög hlaupi með öflugum hætti  undir bagga með fyrirtækjum og starfsfólki þeirra. Því hvetur ráðið til þess að frekara tillit verði tekið til fjölbreytileika sveitarfélaga og heimildir verði meðal annars veittar til að gefa afslátt eða endurákvarða skattprósentu fyrir þetta ár fyrir þau sveitarfélög sem það kjósa, ekki síst með hagsmuni ólíkra fyrirtækja í huga sem starfa víðsvegar um landið (um þessi atriði er nánar fjallað í umsögn Skorradalshrepps dags. 23. mars 2020).

Að mati Viðskiptaráðs er ekki nægilega langt gengið með frestun gjalddaga fasteignaskatta. Sum sveitarfélög gætu viljað ganga lengra eða nýta sértækari leiðir og mikilvægt er að þeim sé eftirlátið frelsi til þess við þessar aðstæður. Sveitarstjórnir þurfa að geta gengið eins langt og þörf er á eins og forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar hafa gefið út að þeir muni gera, en það er mikilvægt að mati Viðskiptaráðs að sveitarfélögin stígi inn í og afnemi fasteignaskatt tímabundið. Nauðsynlegt er að löggjafinn búi svo um að sveitarfélögunum geti að grípa til slíkra aðgerða.

Að lokum

Viðskiptaráð áréttar að viðbrögð við ástandinu þurfa að vera skjót og meginreglan þarf að vera að gera meira en minna. Sá kostur verður alltaf fyrir hendi, að draga úr aðgerðum þegar staðan batnar, en það sama verður ekki sagt um skaðann, sem samkvæmt dekkstu sviðsmyndum gæti tekið langan tíma að laga. Það er einnig mikilvægt að tíma og orku sé forgangsraðað hverju sinni þannig að þær almennu aðgerðir séu í forgangi sem gagnast við að bregðast við þeirri bráðakrísu sem steðjar að á næstu vikum, jafnvel þótt einnig sé mikilvægt að líta til næstu mánaða og ára. Í því samhengi bendir Viðskiptaráð einnig á þær athugasemdir sínar sem lagðar hafa verið fram í umsögn sinni við fjáraukalög.

Viðskiptaráð leggur til að frumvarpið nái fram að ganga en hvetur til þess að tryggingagjaldið verði afnumið tímabundið og að frestur verði veittur á greiðslu virðisaukaskatts. Að lokum áskilur Viðskiptaráð sér rétt til að koma frekari athugasemdum á framfæri á síðari stigum og er reiðubúið að skýra þessa umsögn nánar sé þess óskað.

#covid19vaktin

Tengt efni

Umsögn um frumvarp til breytinga á lögum um virðisaukaskatt og lögum um kílómetragjald

Viðskiptaráð hefur skilað inn umsögn um frumvarpið og telur fyrirhugaðar ...

Fimm staðreyndir inn í kjaraviðræður

Gunnar Úlfarsson, hagfræðingur hjá Viðskiptaráði, skrifar um fimm staðreyndir ...
24. jan 2024

Engan ærsladraug í Karphúsið

Ari Fenger, formaður Viðskiptaráðs, fer yfir stöðu mála í kjaraviðræðum aðila ...
29. jan 2024