Menntasjóður íslenskra námsmanna þarfnast betri undirbúnings

Viðskiptaráð hefur ásamt Samtökum atvinnulífsins skilað inn umsögn um frumvarp um Menntasjóð íslenskra námsmanna. Með frumvarpinu er lagt til að innleitt verði nýtt námsstyrkjakerfi samhliða námslánakerfi. Verði frumvarpið að lögum mun það leysa af hólmi gildandi lög um Lánasjóð íslenskra námsmanna.

Viðskiptaráð og Samtök atvinnulífsins telja að markmið frumvarpsins séu um margt góð. Þannig telja samtökin jákvætt að auka gagnsæi í styrkveitingum sjóðsins, að aukins jafnræðis sé gætt í stuðningi við námsmenn, að námsmenn taki aðeins þá upphæð að láni sem þeir þurfi yfir námstímann, að lánahluti námslánakerfisins standi að fullu undir sér og að spornað sé gegn því að námsmenn ílengist að óþörfu í námi.

Að því sögðu telja samtökin þó að þó nokkur meiriháttar útfærsluatriði séu of óljós til þess að hægt sé að taka endanlega afstöðu til efnisatriða frumvarpsins. Mikilvægar upplýsingar eru ekki aðgengilegar þegar kemur að því að meta áhrif frumvarpsins og margt bendir til þess að frumvarpið leiði til aukinnar óvissu og óskilvirkni hvað varðar rekstur sjóðsins. Því telja samtökin nauðsynlegt að frumvarpið sé dregið til baka á þessu stigi þannig gaumgæfa megi betur eftirfarandi útfærsluatriði:

  • Ólíkur skilningur virðist vera á fyrirkomulagi breytilegra vaxta
  • Óljóst er hvort gjaldfellingarheimild nái yfir tekjutengd lán en auk þess er sköpuð óvissa með því að setja virkjun heimildarinnar í hendur stjórnar sjóðsins
  • Lengd námslána virðist vera afar illa útfærð sem getur haft mikil áhrif á stöðu lánþega

Þá telja samtökin einnig rétt á að koma á framfæri athugasemdum við efnisatriði frumvarpsins:

  • Tekjutenging afborgana mun að öllum líkindum leiða til hærri vaxta, aukinna vanskila og/eða mikils ójafnræðis í styrkveitingum
  • Skólagjaldalán ættu ekki að vera styrkhæf - frekar á að hækka styrkhlutfall vegna framfærslulána
  • Það er ekki endilega hlutverk lánasjóðs námsmanna að skapa hvata til barneigna í námi líkt og svokallaðir barnastyrkir munu óhjákvæmilega gera
  • Framfærslulán til námsmanna erlendis mun leiða til mikils ójafnræðis í styrkveitingum, draga úr gagnsæi og valda því að námsmenn taki hærri lán en þeir raunverulega þurfa

Hér má nálgast umsögnina í heild sinni.

Tengt efni

Jón er hálfviti

Það er þetta með fólkið í opinberri umræðu sem elskar afgerandi lýsingarorð og ...
24. feb 2023

Getum við allra vinsamlegast gyrt okkur?

Við hefðum ekki getað rekið íslenskt samfélag og atvinnulíf síðastliðna áratugi ...
26. maí 2022

Hvað er í alvörunni að gerast á fasteignamarkaði?

Orsakir verðhækkana, framboðshorfur, hátíðnigögn, sviðsmyndir og fleira
11. nóv 2021