Nauðsynlegt að fyrirtækjum sé bættur skaði vegna sóttvarnaraðgerða

Ljóst er að þörf hefur skapast fyrir stuðning við fyriræki sem var gert að hætta starfsemi en velta má upp hvort tímabil styrkjanna ætti aðeins að ná til síðari hluta janúarmánaðar.

Viðskiptaráð hefur tekið til umsagnar frumvarp til laga er varðar framhald lokunarstyrkja vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Nauðsynlegt er að mati ráðsins að fyrirtækjum sé bættur skaði vegna sóttvarnaraðgerða stjórnvalda, en ljóst er að þörf hefur þegar skapast fyrir slíkan stuðning hjá þeim fyrirtækjum sem var gert að hætta starfsemi í síðari hluta janúarmánaðar, eða frá 15. til 29. janúar. Ekki er sýnt að þörf sé á opinni fjárheimild til frekari styrkja, enda hafa áform stjórnvalda um fulla afléttingu takmarkana á næstu vikum þegar verið kynnt.

Líkt og fram kom í umsögn Viðskiptaráðs um skylt mál frá 24. janúar sl., um styrki rekstraraðila veitingastaða sem sætt höfðu takmörkunum á opnunartíma (232. mál), þarf heildstæð umræða um slíka styrki að fara fram, í samhengi við frelsisskerðingar og nauðsyn þeirra hverju sinni. [1]

Gildistími lokunarstyrkja rímar illa við áform stjórnvalda um afléttingu frelsisskerðinga

Með 4. gr. frumvarpsins er áformað að réttur til lokunarstyrks skv. II. kafla laganna geti stofnast fram til 30. júní nk. Um þetta segir í greinargerð:

„Þar sem ekki er vitað hvort beita þurfi frekari lokunum á næstu mánuðum liggja ekki fyrir upplýsingar um heildaráhrif á ríkissjóð af því að framlengja lokunarstyrki. Lagt er til að gildistími á framlengingu úrræðisins verði fram á mitt ár 2022. Heildaráhrif á ríkissjóð af úrræðinu fram að þeim tíma ráðast af því hve mikið verður um lokanir og hve mikið fyrirtæki koma til með að nýta sér úrræðið sem er valfrjálst og sækja þarf um sérstaklega.“

Samkvæmt stefnu ríkisstjórnarinnar er ekki gert ráð fyrir að neinum fyrirtækjum verði gert að loka vegna faraldursins á næstu mánuðum og raunar er engum fyrirtækjum nú meinað að hafa opið að því er fram kemur í núgildandi reglugerð um takmörkun á samkomum vegna farsóttar nr. 90/2022.

Í ljósi þess má velta því upp hvort tímabil styrkjanna ætti aðeins að ná til síðari hluta janúarmánaðar. Með því að samþykkja gildistíma út júní er þingið í raun að gefa frá sér tækifæri til að veita framkvæmdavaldinu, sem tekur ákvarðanir um samkomutakmarkanir, aðhald. Væri það að vissu leyti í andstöðu við sjónarmið um aukna aðkomu þingsins að ákvörðunum um sóttvarnir sem þingmenn hafa haldið á lofti og Viðskiptaráð einnig. Líkt og fram kom í umsögn ráðsins um styrki til veitingahúsa, sem minnst var á hér að framan, er slík aðkoma löggjafans nauðsynleg til að skapa heildstæða umræðu um sóttvarnir og afleiðingar þeirra.

[1] Sjá nánar hér.

Tengt efni

Er bensín raunverulega dýrara en nokkru sinni fyrr?

Jafnvel þótt verð hafi ekki verið hærra í krónum talið hafa engin raunveruleg ...
22. feb 2022

Viðspyrnustyrkir eitt þeirra tóla sem nýst hafa hvað best

Umsögn Viðskiptaráðs um frumvarp til laga um framhald viðspyrnustyrkja.
21. feb 2022

Endurskoðun fari fram þegar nauðsynlegar upplýsingar eru til reiðu

Umsögn Viðskiptaráðs um drög að frumvarpi til laga um sóttvarnir.
16. feb 2022