Óljós atriði um hagsmunaverði

Viðskiptaráð styður markmið frumvarpsins að auka gagnsæi og efla varnir gegn spillingu. Hins vegar þarf að skýra óljós atriði um hagsmunavörslu og skipun í nefndir.

Viðskiptaráð hefur skilað inn umsögn um frumvarp til laga um varnir gegn hagsmunaárekstrum hjá æðstu handhöfum framkvæmdarvalds í Stjórnarráði Íslands (523. mál). Með frumvarpinu er lagt til að settar verði skýrari reglur um skráningu hagsmuna og hagsmunaárekstra æðstu handhafa framkvæmdarvalds sem starfa innan Stjórnarráðs Íslands. Viðskiptaráð styður markmið frumvarpsins að auka gagnsæi og efla varnir gegn spillingu. Ráðið hefur þó nokkrar athugasemdir um það sem snýr að hagsmunavörslu og skipun í nefndir.

Skráning hagsmunavarða

Viðskiptaráð tekur undir þau sjónarmið frumvarpsins að hlutverk hagsmunaaðila getur verið mikilvægt þegar kemur að undirbúningi laga- eða reglusetningar, ákvörðunartöku, samningagerðar og allra annarra starfa stjórnvalda. Það er enda mikilvægt að tekið sé tillit til ólíkra þarfa og væntinga aðila sem verða fyrir áhrifum tiltekinnar löggjafar og reglusetningar. Færst hefur í aukana að aðilar veiti umsagnir um hin ýmsu mál með tilkomu Samráðsgáttarinnar, og er slíkt fagnaðarefni. Með tilkomu gáttarinnar var sköpuð einföld rafræn leið fyrir einstaklinga og lögaðila til að koma ólíkum sjónarmiðum á framfæri um áætlanir stjórnvalda. Þar má öllum vera ljóst hvaða einstaklingur er að reyna að hafa áhrif á stjórnvöld með umsögn sinni, eða þá fyrir hönd hvaða lögaðila. Viðskiptaráð veitir fjölda slíkra umsagna, ásamt því að skila inn umsögnum til nefndasviðs Alþingis, sem birtar eru á vef Alþingis, og sækja þar fundi með Alþingismönnum, og eru upplýsingar um þá fundi aðgengilegar almenningi.

Hugtakið hagsmunavörður er skilgreint í frumvarpinu sem einstaklingur sem talar máli einkaaðila gagnvart stjórnvöldum og leitast við að hafa áhrif á störf þeirra í atvinnuskyni. Með því að takmarka hugtakið við einstaklinga eru félagasamtök líkt og Viðskiptaráð Íslands þannig undanskilin reglum frumvarpsins en einstakir starfsmenn slíkra samtaka geta þó borið skyldur, eins og fram kemur í frumvarpinu. Á sama tíma segir þó í greinargerð að fyrirsvarsmenn lögaðila þurfi ekki að senda sérstaka tilkynningu um að þeir gæti hagsmuna þess í samskiptum sínum við stjórnvöld. Það verður því ekki séð annað en að fyrirsvarsmenn Viðskiptaráðs Íslands þurfi ekki að skrá sig sem hagsmunverði. Auka þarf skýrleika frumvarpsins hvað þetta varðar ef ætlun stjórnvalda er að gera greinarmun þarna á milli.

Skipun í nefndir

Viðskiptaráð hefur fengið beiðnir frá stjórnvöldum þar sem óskað er eftir tilnefningu ráðsins í ýmsar nefndir og ráð á vegum stjórnvalda. Þegar kemur að slíkum tilnefningum hefur ráðið átt það til að tilnefna einstaklinga sem sem eru ekki starfandi hjá ráðinu. Þó að einstaklingurinn sé þá í tiltekinni nefnd fyrir tilstilli tilnefningu Viðskiptaráðs telur ráðið að ef litið sé svo á að umræddir einstaklingar þurfi að skrá sig sem hagsmunaverði hjá stjórnvöldum geti slíkt komið til með að hafa fælandi áhrif og haft það í för með sér að erfitt geti reynst að laða hæfustu einstaklingana að hverju sinni til slíkrar nefndarsetu. Þar sem nefndarstörf eru gjarnan sérhæfð, t.d. greiðsluráð og loftslagsráð, er því mikilvægt að svo verði ekki. Viðskiptaráð telur því að ekki ætti að líta á slíka aðila sem skráningarskylda, enda megi vera ljóst við skipun nefndarinnar hvaða aðilar tilnefni nefndarmenn.

Viðskiptaráð leggur til að frumvarpið nái fram að ganga með tilliti til ofangreindra athugasemda. Þá bindur ráðið jafnframt vonir við það að stjórnvöld hafi í huga þá reglubyrði sem fer sífellt vaxandi á íslenskt atvinnulíf og að nauðsynlegt sé að regluverk sé einfalt og skiljanlegt og eftirlit sé ekki meira íþyngjandi en tilefni er til hverju sinni.

Agla Eir Vilhjálmsdóttir,
lögfræðingur Viðskiptaráðs Íslands

Tengt efni

Lífstílsverðbólga stjórnvalda

Lækning lífstílsvanda stjórnvalda er tiltekt og forgangsröðun í útgjöldum ...
23. okt 2023

Góðir stjórnar­hættir - hvernig og hvers vegna?

Tilnefningarnefndir er dæmi um viðfangsefni sem halda þarf áfram að móta til ...
8. mar 2023

Marel hlaut viðurkenningu fyrir sjálfbærniskýrslu ársins

Viðurkenning fyrir sjálfbærniskýrslu ársins var veitt í hádeginu við hátíðlega ...
8. jún 2023