Greiðsludreifing opinberra gjalda ekki lengur í boði

Í vetur var lögfest á Alþingi heimild til handa fyrirtækjum að dreifa gjalddögum aðflutningsgjalda, tolla og virðisaukaskatts. Lögin voru sett á til að bregðast við gjörbreyttum aðstæðum íslensks atvinnulífs og mæltust þau afar vel fyrir hjá íslenskum fyrirtækjum. Sú heimild gilti þó einungis fyrir fyrstu tvö uppgjörstímabil þessara gjalda (janúar-febrúar og mars-apríl) á árinu 2010 og rann heimildin út í lok apríl s.l. Ekki verður því mögulegt að dreifa greiðslum vegna maí og júní mánaðar, sem þýðir að stórir gjalddagar opinberra gjalda bíða margra fyrirtækja nú í næstu viku.

Strax í apríl lá fyrir að mörg fyrirtæki myndu lenda í greiðsluerfiðleikum ef þessi heimild yrði ekki framlengd út árið. Viðskiptaráð óskaði vegna þess formlega eftir því við fjármálaráðuneytið að slík framlenging yrði tekin til skoðunar og hún þá veitt áður en störfum Alþingis yrði frestað. Sú beiðni var ítrekuð í tvígang nokkru síðar. Þar sem málið var hins vegar ekki afgreitt á nýafstöðnu vorþingi liggur fyrir að ekki verður af framlengingu þessarar heimildar fyrir næstu gjalddaga ársins.

Stór gjalddagi sem þessi getur reynst mörgum fyrirtækjum þungbær þar sem lausafjárstaða margra þeirra er ekki eins og best væri á kosið. Sérstaklega er það svo nú í júlí, sem alla jafna er rólegasti tími ársins í atvinnulífinu. Viðskiptaráð harmar að málinu hafi lokið með þessum hætti, en auðvelt hefði verið fyrir stjórnvöld að styðja við fyrirtæki í tímabundnum greiðsluerfiðleikum með framlengingu á greiðsludreifingu opinberra gjalda.

Tengt efni:

Tengt efni

Viðskiptaráð hvetur löggjafann til að leita hófsamari leiða

Umsögn Viðskiptaráðs um frumvarp til laga um breytingu á húsaleigulögum
1. nóv 2022

Viðspyrnustyrkir eitt þeirra tóla sem nýst hafa hvað best

Umsögn Viðskiptaráðs um frumvarp til laga um framhald viðspyrnustyrkja.
21. feb 2022

Endurskoðun fari fram þegar nauðsynlegar upplýsingar eru til reiðu

Umsögn Viðskiptaráðs um drög að frumvarpi til laga um sóttvarnir.
16. feb 2022