Gjaldeyrishöft hvetja til erlendrar uppbyggingar

Eins og þekkt er þá voru sett á gjaldeyrishöft í kjölfar bankahrunsins til að hindra mikla veikingu krónunnar og stuðla að auknum gengisstöðugleika. Gjaldeyrishöftin hafa þó margvísleg önnur óæskileg áhrif, sem lítið hefur verið rætt um. Þegar höft hafa verið við líði jafn lengi og raun ber vitni hérlendis má vera ljóst að fyrirtæki fara beint og óbeint að aðlaga sig að þeim, eins og að öðrum ráðandi þáttum í þeirra rekstrarumhverfi.

Í reglum um gjaldeyrismál segir m.a. að fyrirtæki sem hafa yfir 80% af tekjum og 80% af gjöldum erlendis geta fengið undanþágu frá reglunum. Af þeim sökum er skýr hvati fyrir fyrirtæki, sem uppfylla t.d. einungis skilyrði um að tekjur þeirra séu meira en 80% erlendis, að auka vægi erlends reksturs á kostnað innlends. Þ.e. að kostnaður viðkomandi fyrirtækis færist í auknum mæli út fyrir landsteinanna þar til hlutfallið er umfram 80%.

Nú þegar hafa komið upp dæmi um fyrirtæki þar sem umfang erlends reksturs er að aukast og er viðkomandi fyrirtæki óðum að nálgast þau skilyrði sem sett eru af Seðlabankanum. Það er afar óheppilegt og óæskilegt í endurreisn hagkerfisins að uppbygging metnaðarfullra fyrirtækja sé á erlendri grundu þegar full þörf er á slíkri uppbyggingu hérlendis.

Uppbygging nýrra fyrirtækja takmörkuð
Þá hindra höftin jafnframt önnur metnaðarfull innlend fyrirtæki, sem einvörðungu eru með starfssemi hérlendis, í að sækja á erlenda markaði. Finnur Oddson framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs tók dæmi um áhrif haftanna á uppbyggingu fyrirtækja í nýsköpun á morgunverðarfundi ráðsins í síðustu viku. Lýsti hann þar m.a. því hvernig sprotafyrirtæki sem stefnir á alþjóðlega markaði er ekki leyfilegt að stofna dótturfélög erlendis til að komast nær viðkomandi markaði. Finnur sagði m.a. að:

„Í þessu sambandi má ekki gleyma að flaggskip íslensks atvinnulífs í dag, fyrirtæki á borð við CCP, Össur og Marel, hefðu aldrei náð þeirri stöðu og styrk án sóknar á erlenda markaði. Það er ekki vænleg stefna til frambúðar að í höftum felist hindranir fyrir sprota atvinnulífsins í sömu vegferð. Að sama skapi er nær ómögulegt fyrri smærri fyrirtæki sem gætu tekið við keflinu af þeim sem eru að draga saman seglin hér á landi.“

Höftin ekki valkostur
Það er áhyggjuefni hversu almenn sátt virðist vera um höftin og því afturhvarfi til fortíðar sem í þeim felst. Það var ekki að ástæðulausu að horfið var frá þeim miklu gjaldeyrishöftum sem réðu ríkjum á seinni hluta síðustu aldar. Það fyrirkomulag gekk augljóslega ekki til lengri tíma og það sama á við nú. Viðvarandi gjaldeyrishöft eru ekki raunhæfur kostur.

Tengt efni

Staðreyndir

Launakostnaður á Íslandi og skaðsemi atvinnuleysis

Eitt mikilvægasta verkefnið næstu mánuði er að sporna gegn atvinnuleysi með ...
29. sep 2020
Greinar

Kófið kæfir sprotana nema í taumana sé tekið

„Fyrirliggjandi aðgerðir stjórnvalda munu að óbreyttu ekki nýtast ...
20. apr 2020
Umsagnir

Einföldun á fjárhagslegri endurskipulagningu til bóta

Þörf er á nýju úrræði, ólíku því sem tekið var upp í lok fjármálahrunsins, ...
27. maí 2020