Markaðsráðandi staða og beiting samkeppnislaga

2011.05.20 mynd2Viðskiptaráð Íslands, Logos lögmannsþjónusta, Háskólinn í Reykjavík og Lex lögmannsstofa stóðu fyrir ráðstefnu í morgun um samkeppnismál sem fram fór í Hörpu. Fjöldi manns sótti ráðstefnuna þar sem fjallað var m.a. um markaðsráðandi stöðu og beitingu samkeppnislaga, úrræði Samkeppniseftirlitsins og með hvaða hætti brot eru metin. Framsögumenn á fundinum voru Richard Whish, prófessor við King´s College í London, Simen Karlsen, yfirhagfræðingur hjá Copenhagen Economics og Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins.

Efnahagsleg greining samkeppnislagabrota til bóta
Á ráðstefnunni fór fram talsverð umræða um verklag samkeppniseftirlita víðs vegar um heim við mat á samkeppnislagabrotum og þróun þar á. Síðustu ár hefur vægi efnahagslegrar greiningar á afleiðingum brota aukist umtalsvert. Nýlegt viðmiðunarskjal framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, sem snertir áherslur þess í málum er varða misnotkun á markaðsráðandi stöðu, leggur einmitt aukna áherslu á að raunverulegt tjón fyrir neytendur sé metið út frá efnahagslegri greiningu.

Prófessor Richard Whish fagnaði þessari þróun í sínu erindi og sagði efnahagslegt mat myndi tryggja betri ákvarðanatöku af hálfu samkeppniseftirlita. Að þessu leyti væri viðmiðunarskjal Framkvæmdastjórnarinnar til verulegra bóta, en það ætti eftir að koma í ljós hvort Evrópudómstóllinn tæki mið af því. Þá ræddi Whish jafnframt um nýtilkomna heimild Samkeppniseftirlitsins um að brjóta upp fyrirtæki þrátt fyrir að þau gerðust ekki brotleg við samkeppnislög. Hann var ekki mótfallinn tilvist hennar sem slíkri enda hefur sambærileg heimild verið til staðar í Bretlandi frá því 1948 og hefur henni eingöngu verið beitt tvisvar. Að áliti Whish fylgdi þeim völdum sem í heimildinni felast veruleg ábyrgð og henni þyrfti því að beita af mikilli varkárni.

Samkeppniseftirlitið fylgist með þróuninni
2011.05.20 mynd3Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, fjallaði í sínu erindi m.a. um úrræði eftirlitsins þegar kemur að samkeppnislagabrotum. Taldi hann ekki ástæðu til hafa áhyggjur af áðurnefndri heimild til uppskiptingar fyrirtækja, en frekari leiðbeiningar eru væntanlegar frá Samkeppniseftirlitinu um fyrirhugaða beitingu hennar. Þá ítrekaði hann mikilvægi þess að viðhalda virkri samkeppni á öllum mörkuðum hér á landi, sérstaklega í ljósi yfirstandandi þrenginga enda myndi virk samkeppni ýta frekar undir efnahagsbata. Hvað varðaði efnahagslega greiningu á samkeppnislagabrotum sagði Páll að eftirlitið myndi fylgjast náið með þróuninni og eflaust fylgja straumnum, en um þessa þróun væru deildar meiningar og því myndi Samkeppniseftirlitið ekki taka frumkvæðið.

2011.05.20 mynd4  

Auk framsögumanna tóku sæti í pallborði Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, og Benedikt Jóhannesson, ritstjóri Vísbendingar. Fundarstjórn var í höndum Heimis Arnar Herbertssonar hjá Lex og Helgu Melkorku Óttarsdóttur hjá Logos.

Annað efni:

Tengt efni

Hvað á að gera við allar þessar háskólagráður?

Fjölgun háskólamenntaðra er stór áskorun en í raun ...
1. júl 2021

Nauðsynlegt er að flugrekstri séu búin samkeppnishæf rekstrarskilyrði

Tryggja þarf að flugrekendur búi ekki við óþarflega íþyngjandi regluverk.
16. apr 2021

Er krónan nógu sterk til að vera sterk?

Hagsmunir allra eru að koma í veg fyrir ofris krónunnar sem leiðir til ...
9. jún 2021