Frá morgunverðarfundi um íslenskt viðskiptaumhverfi

Fjölmenni var á morgunverðarfundi Verslunarráðs, þar sem skýrsla viðskiptaráðherra um íslenskt viðskiptaumhverfi, var til umfjöllunar.

Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, var ánægð með viðbrögð aðila viðskiptalífsins við skýrslunni. Hún lagði áherslu á samvinnu milli ráðuneytis og viðskiptalífs.

Þór Sigfússon, framkvæmdastjóri VÍ, talaði um að tillögur nefndar viðskiptaráðherra um stjórnarhætti fyrirtækja miðuðu að því að setja ýmis ákvæði um stjórnarhætti í lög, sem ekki væru í lögum í mörgum samkeppnislöndum okkar. Þór sagði að viðskiptalífið hefði komið með Leiðbeiningar um stjórnarhætti fyrirtækja fyrir rúmum 6 mánuðum síðan. Þær leiðbeiningar væru nú að verða að reglum Kauphallar fyrir skráð fyrirtæki. Þór lagði áherslu á að viðskiptalífið fengi tíma til að þróa sínar leiðbeiningar og að alltof skammt væri síðan viðskiptalífið kynnti sínar leiðbeiningar til þess að ríkið kæmi með ítarlegar hugmyndir um lagasetningu. Fram kom að ef þau atriði sem nefnd eru í skýrslunni yrðu að lögum, þá væri umgjörð stjórnarhátta fyrirtækja, þ.e. hlutafélagalögin, leiðbeiningar um stjórnarhætti og regluverk Kauphallar orðnar meira íþyngjandi en í nær öllum þeim löndum sem við berum okkur saman við. Þór sagði það áhyggjuefni að ekki væru dregnar skýrari markalínur milli stórra og smárra fyrirtækja í hugmyndum nefndar viðskiptaráðherra, þar sem sjónum væri einnig beint að minni fyrirtækjum. „Þótt ýmsar tillögur sem settar eru fram í skýrslunni líti sakleysislega út þegar haft er í huga að þær eiga m.a. við um öll stærstu fyrirtæki landsins þá má ekki gleyma því að margar þessara tillagna eru hugsaðar fyrir fyrirtæki með fjóra eða fleiri hluthafa. Það vill oft gleymast að íslenskt atvinnulíf samanstendur m.a. af þúsundum lítilla fyrirtækja sem mörg þurfa að bregðast við verði tillögur nefndarinnar að lögum.” Sjá ræðu Þórs.

Þórunn Guðmundsdóttur, hrl. gagnrýndi tillögur meirihluta nefndarinnar um heimildir til handa samkeppniseftirliti til að gera brotlegum fyrirtækjum að breyta skipulagi sínu. Hún taldi að ekki hefði verið sýnt fram á með óyggjandi hætti að árangur af uppskiptingu fyrirtækja væri jákvæður. Í minnihlutaáliti nefndarinnar kemur fram að tillaga meirihlutans gengi lengra en reglugerð ráðs ESB, sem miðast við viðskipti milli aðildarríkjanna. Þórunn taldi nægar heimildir vera fyrir hendi í samkeppnislögum í dag til að stöðva samkeppnislagabrot. Hún taldi sektarákvarðanir eflaust eiga eftir að hækka og að ekkert fyrirtæki stæði af sér ítrekaðar sektarákvarðanir. Auk fjárútgjalda hefðu sektarheimildir í för með sér álitshnekki. Þórunn taldi tillögur meirihlutans hafa alvarlegar afleiðingar í för með sér. Ef slíkar lagabreytingar næðu fram að ganga, yrði það atlaga að eignarréttinum, þar sem fyrirtækjum yrði skylt að skipta fyrirtækjum upp og selja. Íslensk fyrirtæki væru ekki of stór í dag í samanburði við alþjóðleg fyrirtæki. Of harðar samkeppnisreglur gæti stuðlað að flótta íslenskra fyrirtækja frá landinum. Talaði Þórunn um að erlendir fjárfestar myndu síður fjárfesta hér á landi og tók dæmi af Landsímanum, sem margar ákvarðanir samkeppnisyfirvalda hafa beinst að. Erlendir fjárfestar sýndu áhuga á að kaupa hann fyrir nokkrum árum en ef lagaumhverfið væri með þeim hætti sem nefndin leggur til, myndi það fæla áhugasama erlenda fjárfesta frá. Í erindi Þórunnar kom fram að mikilvægt væri fyrir íslenskt viðskiptalíf að málshraði samkeppnismála væri aukinn. Þórunn taldi tillögur nefndarinnar um að leggja samkeppnisráð niður og setja stjórn yfir samkeppniseftirlitið ekki skila tilætluðum árangri. Hún taldi þyngri stjórnskýrslu koma niður á málshraða. Sjá glærur Þórunnar.

Tengt efni

Ómálefnaleg mismunun og dregið úr fjölbreytni

Umsögn Viðskiptaráðs um drög að frumvarpi til áfengislaga (mál nr. 596)
9. jún 2022

Hverju fórna foreldrar vegna leikskólavandans í Reykjavík?

Á sjöunda hundrað börn, 12 mánaða á eldri, bíða nú eftir leikskólaplássi í ...
12. ágú 2022

Stytting stúdentsprófs - flas eða framfaraspor?

Í dag verður haldið málþing í sal Verzlunarskóla Íslands um styttingu náms til ...
12. apr 2005