Samstarfi ríkisstjórnar og Viðskiptaráðs fagnað

Í ávarpi sínu á 90 ára afmælisfundi Viðskiptaráðs lýsti Geir H. Haarde, forsætisráðherra, yfir fullum vilja til frekara samstarfs við Viðskiptaráð og vonaði að ráðið og stjórnvöld gætu unnið áfram að mikilvægum framfaramálum sem stefna að því að bæta lífskjör í landinu. Sagði forsætisráðherra að samstarf Viðskiptaráðs og ríkisstjórnarinnar hafi skipt miklu máli í þeim breytingum sem átt hafa sér stað í íslensku viðskiptalífi undanfarin ár.

Forsætisráðherra fór stuttlega yfir tiltekin verkefni ráðsins og minntist þar sérstaklega á skýrslu um fjárhagslegan stöðugleika. Hann taldi skýrsluna hafa skipt sköpum og styrkt stöðu íslensks atvinnulífs í mikilli stormatíð. Ráðherra minntist einnig á síðastliðið Viðskiptaþing, þar sem ímyndarmál Íslands voru til umfjöllunar. Fyrir þingið tók forsætisráðherra þátt í undirbúningsvinnu tengdri ímyndarverkefninu og sagði það hafa verið afskaplega skemmtilegt og ánægjulegt. Ennfremur tilkynnti ráðherra að sérsveitin, sem hann nefndi upphaflega á Viðskiptaþinginu, væri ætlað að hefja störf innan fárra vikna.

Um 90 tillögur að bættri samkeppnishæfni sagði ráðherra m.a.: „Í fljótu bragði sýnist mér að þar séu margar mjög góðar hugmyndir, en aðrar kannski síðri. Það er eins og gengur þegar stór hugmyndabanki er á ferðinni. En á sama tíma má segja að Róm var ekki byggð á einum degi, og það sem kann að virðast óraunhæft eða jafnvel framúrstefnulegt í dag, t.d. af stjórnmálalegum ástæðum, getur orðið fyllilega raunhæft á morgun. Það verður því fróðlegt að sjá hvað verður að raunveruleika af þessum tillögum.”

Viðskiptaráð þakkar forsætisráðherra fyrir gott samstarf undanfarin ár og vonar að áframhaldandi samstarf verði jafn gæfuríkt.

Tengt efni

Hver ber ábyrgð á verðbólgunni?

Ávarp formanns Viðskiptaráðs á Peningamálafundi sem fram fór í gær, 24. nóvember ...
25. nóv 2022

Mótsagnakenndar áhyggjur af bankasölu

Staðreyndin er sú að enginn er að tala um að draga að miklu leyti úr eigin fé ...
24. feb 2021

Megintilgangur Viðskiptaráðs að gæta hagsmuna atvinnulífsins

Erlendur Hjaltason, forstjóri Exista og formaður Viðskiptaráðs, hélt ...
17. sep 2007