Morgunverðarfundur um útþenslu hins opinbera

Hátt í 70 manns mættu á morgunverðarfund Viðskiptaráðs á Grand Hótel Reykjavík nú í morgun. Tilefni fundarins er skýrsla Viðskiptaráðs sem ber heitið Útþensla hins opinbera: orsakir, afleiðingar og úrbætur, en hún var gefin út nú á vormánuðum. Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra opnaði fundinn, Finnur Oddsson framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs hélt stutt erindi um núverandi stöðu og leiðir úr henni, Frosti Ólafsson hagfræðingur Viðskiptaráðs kynnti helstu niðurstöður skýrslunnar og Þórður Víkingur Friðgeirsson lektor við Háskólann í Reykjavík kynnti nýja leið til aukins aðhalds í ríkisframkvæmdum. Að loknum framsögum sátu fjármálaráðherra og Frosti Ólafsson fyrir svörum í pallborði ásamt Katrínu Jakobsdóttur alþingismanni, Pétri Blöndal alþingismanni og Jóni Bjarka Bentssyni hjá greiningardeild Glitnis.


Í erindi Finns kom fram að huga þyrfti sérstaklega að þremur atriðum í ljósi núverandi þáttaskila í íslensku efnahagslífi. Í fyrsta lagi að stefna hins opinbera þyrfti að stuðla að jöfnun hagsveiflna ætti framleiðslugeta hagkerfisins að nýtast sem best. Í öðru lagi að draga þyrfti úr umsvifum hins opinbera til að auka svigrúm fyrir starfsemi einkaaðila þar sem framleiðnivöxtur er mestur og til að auka sveigjanleika vinnumarkaðarins. Í þriðja lagi að rekstur hins opinbera verði sjálfbær, þ.e. að tekjur þess dugi fyrir öllum útgjöldum til lengri tíma. Finnur hvatti ráðherra og ríkisstjórnina til að stíga varlega til jarðar í auknum umsvifum til að jafna yfirstandandi hagsveiflu því slíkt væri einungis til þess fallið að draga tímabil hárra vaxta og viðvarandi verðbólgu á langinn. Taldi Finnur að hið opinbera ætti að líta á núverandi þrengingar sem ástæðu til aðhalds og ráðdeildar í stað aukinna umsvifa og að almennur skilningur væri á að nú væri tímabil erfiðra ákvarðana og óvinsælla aðgerða.

Í erindi fjármálaráðherra kom fram að skipulagsbreytingar undanfarinna ára, t.a.m. aðild að EES, einkavæðing bankanna og skattalækkanir, hefðu orðið til þess að íslenska hagkerfið væri með þeim samkeppnishæfustu í heiminum. Taldi ráðherra þær aðgerðir sem kynntar hafa verið á árinu styrkja enn frekar stöðu hagkerfisins í núverandi mótlæti. Ráðherra fór stuttlega yfir breytingar síðustu ára á skattkerfinu sem hafa einkennst af lækkun flestra tegunda skatta. Þrátt fyrir þessari breytingar hafi ríkissjóður skilað ríkulegum afgangi undanfarin ár, sem að mati ráðherra skýrist bæði af auknum tekjum í uppsveiflu og af því að hlutfall útgjalda af landsframleiðslu hafi lækkað milli áranna 2003-2006. Útgjaldatölur hafi þó farið upp á við á síðasta ári og á þessu ári einkum vegna breytinga á tilfærslum. Lækkun útgjalda sagði ráðherra stafa m.a. af því að sett hafi verið langtímamarkmið fyrir ríkissjóð um vöxt samneyslu og tilfærslna og að dregið hafi verið verulega úr ríkisframkvæmdum. Ráðherra sagði mikla áherslu hafa verið lagða á framlag fjármálastjórnar til jöfnunar hagsveiflunnar og að aukin tekjuafkoma síðustu ára beri þess vott. Að lokum fór ráðherra yfir þær aðgerðir sem gripið hefur verið til á útgjaldahlið ríkissjóðs, en þar má nefna setningu rammafjárlaga, innleiðingu fjármálareglna og styrkingu fjárlagaferlisins. Jafnframt væri unnið að því að sveitarfélög innleiði sambærilegar fjármálareglur og ríkissjóður. Þessar aðgerðir eru allar í samræmi við alþjóðlega þróun á þessu sviði.

Í erindi sínu fór Frosti yfir helstu niðurstöður skýrslu Viðskiptaráðs, Útþensla hins opinbera: orsakir, afleiðingar og úrbætur. Um leið og hann hrósaði þeim viðamiklu breytingum sem hafa átt sér stað á skattkerfi landsins undanfarin ár benti hann á að ekki hafi gengið nægjanlega vel að halda aftur af útgjöldum hins opinbera. Samhliða hafi umsvif hins opinbera aukist til muna, sem endurspeglast m.a. í mikilli fjölgun opinberra starfsmanna samanborið við almennan vinnumarkað. Að sama skapi benti Frosti á að framlag fjármálastjórnar til efnahagslegs stöðugleika hefði ekki verið nægjanlega mikið síðan verðbólgumarkmið var tekið upp enda hafi undangengin hagsveifla að miklu leyti verið keyrð áfram af aðgerðum og ákvörðunum stjórnvalda. Meðal þess sem orsakar aukningu útgjalda er lítill hvati stjórnmálamanna til kostnaðaraðhalds, veikleikar í fjárlagaferlinu og mikill útgjaldaþrýstingur af völdum sveitarfélaga. Meðal þeirra úrbóta sem lagðar voru til er að draga úr valkvæði stjórnmálamanna á öllum stigum fjárlagaferlisins, endurskoða fjárlagaferlið, nýta sjálfvirka sveiflujöfnun í auknum mæli, auka samhæfingu í efnahagsstjórn og draga opinber útgjöld saman um fimmtung.

Þórður Víkingur fór yfir ástæður þess afhverju einstaklingar, fyrirtæki og hið opinbera tækju rangar ákvarðanir og hvernig væri hægt að bregðast við því. Ástæðurnar að mati Þórðar eru einkum tvíþættar, annars vegar sé um að ræða ofurbjartsýni einstaklingsins sem lýsir sér í ofmati á eigin getur og á valdi yfir aðstæðum. Þetta leiðir oftar en ekki til þess að tekin er of mikil áhætta í ákvarðanatökum. Annars vegar sé um að ræða þrýsting, hvort sem hann er pólitískur eða annars eðlis. Afleiðingin eru verkefni sem byggja sjaldnast á hagkvæmni eða arðsemi heldur sé aðalatriðið að fá þau af stað því þau verða seint stöðvuð. Til að mæta þessu lagði Þórður til upptöku ákvörðunarlíkans til að auka aðhald. Þannig yrðu fyrri verkefni skoðuð og fundið út hvaða tölfræðilega dreifing gildir um mismun raunveruleika og áætlunar. Þegar nýtt verkefni liggur fyrir eru þessi gögn skoðuð og af þeim má sjá hvað er líklegt að bæta þurfi við miklum fjármunum, hverjar líkurnar eru á framúrkeyrslu o.fl. Með þessu móti mætti auka aðhald og takmarka möguleikana á að verkefnum sé hrundið af stað án þess að hugað sé að óvissuþáttum og þar með dregið úr líkum á mistökum.

Ræðu Finns má nálgast hér.

Ræðu fjármálaráðherra má nálgast hér.

Glærur fjármálaráðherra má nálgast hér.

Glærur Frosta má nálgast hér.

Glærur Þórðar má nálgast hér.

Tengt efni

Styrkjum fjárlagagerðina: Bindandi útgjaldaþak

Í upphafi mánaðarins kynnti ríkisstjórnin fjárlagafrumvarp ársins 2011 og hafa í ...
13. okt 2010

Drögum úr hagsveiflum með einföldum hætti

Meðfylgjandi grein birtist í Viðskiptablaðinu, miðvikudaginn 2. júlí:
2. júl 2008

Athyglisverður fundur um hlutverk lífeyrissjóða í endurreisninni

Ríflega 80 manns sóttu morgunverðarfund Viðskiptaráðs undir yfirskriftinni
22. okt 2009