Ný lög skapa aukinn verðbólguþrýsting

Alþingi afgreiddi í gær lög um hækkun gjalda á áfengi, tóbaki, olíu og bifreiðum. Í fjárlögum næsta árs var gert fyrir að þessi gjöld myndu alls hækka um 11,5% á næsta ári, en í þessum nýju lögum, sem taka gildi strax, nemur hækkunin 12,5%. Ljóst að lög þessi eru til þess fallin að kynda undir verðbólgu, en hið opinbera ætti einmitt að gera allt sem í sínu valdi stendur til að draga úr verðbólguþrýstingi við núverandi ástand.

Í vístölu neysluverðs er samanlagt vægi þeirra neysluliða sem hækkunin nær til umtalsvert. Löggjöfin mun því valda verðbólguskoti strax við næstu verðlagsmælingu. Tímasetningin er mjög óheppileg, enda fjárhagsstaða heimila og fyrirtækja nú þegar í molum og ekki á það bætandi með hærra vöruverði og meðfylgjandi hækkun verðtryggðra skulda. Auk þess hafa aðgerðir ríkissjóðs slæmt fordæmisgildi gagnvart sveitarfélögum sem að öllum líkindum munu fylgja eftir með hækkun á þjónustu sinni.

Viðskiptaráð hefur ítrekað bent á mikilvægi þess að hið opinbera beiti sér að alefli í baráttunni gegn verðbólgu við núverandi aðstæður. Stjórnvöldum eru tvær leiðir færar í að brúa þann fjárlagahalla sem þau standa frammi fyrir: skera niður útgjöld og hagræða í rekstri eða hækka skatta og alögur. Hækkun gjalda nú, auk hækkunar á tekjuskatti og útsvari sem tilkynnt var um gær, bendir til þess að ríkisstjórnin sé á rangri leið.

Tengt efni

Dauða­færi ríkis­stjórnarinnar til að lækka vaxta­stig

Viðureignin við verðbólguna er nú eitt brýnasta verkefnið á vettvangi ...
7. jún 2023

Hver er þín verðbólga?

Viðskiptaráð hefur sett upp reiknivél sem gerir hverjum og einum kleift að ...
17. ágú 2022

Hver er þín verðbólga?

Reiknivél Viðskiptaráðs sem gerir hverjum og einum kleift að reikna sína ...
13. mar 2023