Samkomulag millilandaráða Viðskiptaráðs og utanríkisráðuneytis undirritað

Ásta S. Fjeldsted, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands, Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, Baldvin Björn Haraldsson, formaður stjórnar millilandaráðanna og Sigrún Lilja Guðbjartsdóttir, framkvæmdastjóri millilandaráðanna skrifa undir samkomulagið

Í dag undirrituðu utanríkisráðuneytið og alþjóðlegu viðskiptaráðin; Amerísk-íslenska, Bresk-íslenska, Dansk-íslenska, Fransk-íslenska, Færeysk-íslenska, Grænlensk-íslenska, Ítalsk-íslenska, Japansk-íslenska, Norsk-íslenska, Spænsk-íslenska, Sænsk-íslenska, Þýsk-íslenska og Norðurslóða viðskiptaráðið, sem starfa innan vébanda Viðskiptaráðs Íslands, samkomulag um að efla og formgera áralangt samstarf þessara aðila á sviði utanríkisviðskipta Íslands. Helstu markmiðin með samkomulaginu eru eftirfarandi:

  1. að vinna sameiginlega að hagsmunum atvinnulífsins á ofangreindum mörkuðum;
  2. að vinna sameiginlega að viðskiptasendinefndum á ofangreindum mörkuðum;
  3. að nýskipaðir sendiherrar eigi fund með stjórn viðkomandi millilandaráðs áður en starf hefst á erlendri grundu;
  4. að sendiherrar eigi árlegan fund með stjórn viðkomandi millilandaráðs;
  5. að ráðherra eigi árlegan fund með formönnum allra millilandaráðanna;
  6. að vinna sameiginlega að árlegri ráðstefnu undir yfirskriftinni Alþjóða viðskiptaráðsdagurinn, þar sem athygli er vakin á alþjóðlegum málefnum.

Aðilar samkomulagsins stefna ennfremur að því að efla enn frekar samskipti og samvinnu sín á milli á markaðssvæði hvers millilandaráðs, auk þess að eiga í heildarsamstarfi eins og að ofan greinir, allt með það að leiðarljósi að auka útflutningsviðskipti Íslands og gjaldeyrisöflun.

Frá því að ég tók við embætti utanríkisráðherra hef ég lagt sérstaka áherslu á að efla utanríkisviðskipti og þetta samkomulag er mér því mikið fagnaðarefni. Ég er ekki í vafa um að nánara samstarf utanríkisráðuneytisins og millilandaráðanna eigi eftir að verða íslensku atvinnulífi til verulegra hagsbóta."

- Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra

„Það er fagnaðarefni að við formgerum loks það samstarf sem við höfum átt við utanríkisráðuneytið til fjölda ára með þessum samningi. Innan stjórna millilandaráðanna starfa yfir 130 forsvarsaðilar í fyrirtækjarekstri víðsvegar um heiminn með það að markmiði að rækta og efla milliríkjaviðskipti landsins.“

- Baldvin Björn Haraldsson, formaður stjórnar millilandaráðanna

Alþjóðaviðskipti og efling þeirra er hagsmunamál okkar allra en 13 alþjóðleg viðskiptaráð starfa innan vébanda Viðskiptaráðs Íslands og erum við stolt af aðkomu okkar og stuðningi í þessu samhengi.“

- Ásta S. Fjeldsted, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands

Tengt efni

Vel heppnað Viðskiptaþing 2023

Húsfyllir var á vel heppnuðu Viðskiptaþingi 2023 sem fór fram á Hilton Reykjavík ...
20. feb 2023

Ný útgáfa um íslenskt efnahagslíf

Viðskiptaráð Íslands hefur birt nýja ársfjórðungslega útgáfu af The Icelandic ...
21. ágú 2023

Lífstílsverðbólga stjórnvalda

Lækning lífstílsvanda stjórnvalda er tiltekt og forgangsröðun í útgjöldum ...
23. okt 2023