Ótakmarkaðir möguleikar

Þegar þetta er ritað eru fleiri atvinnulausir en sem nemur öllum íbúum Akureyrar og fer atvinnuleysi enn vaxandi. Til að snúa við þeirri þróun er þörf á fjárfestingu sem skapar grundvöll nýrra starfa.

Opið örhagkerfi eins og Ísland þarf lífsnauðsynlega á viðskiptum við útlönd að halda. Sennilega hafa fleiri blaðagreinar en sem nemur fjölda Íslendinga hafist á þessum augljósu sannindum. Sem betur fer er nú á tímum um nokkuð víðtekna visku að ræða, allavega hvað varðar hinar ýmsu vörur og þjónustu. Ef á hinn bóginn er horft á önnur viðskipti finnast hindranir og tregða víða, til dæmis hvað varðar fólksflutninga og fjárfestingu. Mikið er rætt um það fyrrnefnda en þrátt fyrir ótvírætt mikilvægi er minna rætt um það síðarnefnda.

Erlend fjárfesting er í meginatriðum eins og hver önnur utanríkisviðskipti nema að í stað þess að bíll er fluttur til landsins, eru fjármunir fluttir hingað með öllum þeim tengslum og þekkingu sem þeim fylgja. Á meðan möguleikar í fjármögnunarumhverfi Íslands eru takmarkaðir, eru möguleikarnir með erlendri fjárfestingu nánast ótakmarkaðir. Um þetta var fjallað í nýlegri skoðun Viðskiptaráðs: Hraðari viðspyrna með erlendri fjárfestingu.

Sagan hefur ítrekað sýnt okkur þessa möguleika enda hafa allar helstu stoðir verðmætasköpunar byggst upp fyrir tilstilli erlendrar fjárfestingar að einhverju eða miklu leyti. Vélvæðing sjávarútvegs, forsenda þess að Íslendingar brutust út úr fátækt, varð í framhaldi af því að Íslandsbanki hinn fyrri var stofnaður fyrir erlent fjármagn árið 1904. Með því fimmfaldaðist eigið fé í íslenska bankakerfinu að raunvirði á einu ár sem flýtti verulega fyrir togaravæðingunni. Þá var og er stóriðja að mestu erlend fjárfesting og á síðustu árum hafa erlendir fjárfestar gert sig gildandi í íslenskri ferðaþjónustu. Síðast en ekki síst er alþjóðageirinn mjög háður erlendu fjármagni og má segja að það sé forsenda vaxtar þar sem 74% af fjárfestingu í nýsköpunar- og tæknifyrirtækjum á árinu hefur verið erlend.

Í þessu ljósi er umhugsunarvert að sáralítil umræða hefur átt sér stað um að dregið hafi úr erlendri fjárfestingu hér á landi á síðustu árum á sama tíma og þörfin fyrir fjárfestingu í innviðum og atvinnulífi er afar mikil. Tækifærin í atvinnulífinu eru sannarlega til staðar. Tækifærin fyrir aðkomu erlends fjármagns eru einnig víðar eins og hjá ríkissjóði og í hvers kyns innviðauppbyggingu. Einnig felur aukin aðkoma erlendra fjárfesta í sér annars konar tækifæri, til dæmis fyrir lífeyrissjóði landsmanna til að fjárfesta erlendis og dreifa áhættu. Ef lífeyriskerfið heldur áfram að vaxa hratt með auknum fjárfestingum erlendis er innstreymi erlends fjármagns á móti jafnvel nauðsynlegt.

Vinna þarf markvisst að því að skapa forsendur fyrir því að hingað komi erlent fjármagn í auknum mæli. Í áðurnefndri skoðun Viðskiptaráðs eru tillögur um það í sjö liðum þar sem rauði þráðurinn er að ryðja úr vegi sem flestum óþarfa hindrunum og gera allt ferlið eins einfalt og hægt er. Stjórnvöld þurfa með slíkum aðgerðum að sýna í verki vilja til að auka fjárfestingar erlendra aðila og marka sér skýra stefnu um að auka veg þeirra. Af nógu er að taka enda eru hindranir í vegi erlendrar fjárfestingar meiri í aðeins tveimur OECD ríkjum og í öllum atvinnugreinum eru hindranir hér meiri en að meðaltali í OECD ríkjum.

Sértækar aðgerðir gætu meðal annars falist ívilnunum til grænna fjárfestinga, rýmri heimildum fyrir afleiðuviðskipti með krónuna sem dýpka gjaldeyrismarkað og skapa sem besta hvata til að fjárfesta í rannsóknum og þróun (R&Þ). Varðandi það síðastnefnda hafa miklar breytingar orðið til hins betra á síðustu árum með auknum endurgreiðslum R&Þ og tilkomu Kríu stuðningssjóðs. Það mun þó aldrei koma í staðinn fyrir fyrirsjáanlegt og hagfellt rekstrarumhverfi.

Þegar þetta er ritað eru fleiri atvinnulausir en sem nemur öllum íbúum Akureyrar og fer atvinnuleysi enn vaxandi. Til að snúa við þeirri þróun er þörf á fjárfestingu sem skapar grundvöll nýrra starfa. Ólíklegt er að það gerist án þess að við nýtum þá ótakmörkuðu möguleika sem felast í erlendri fjárfestingu.

Konráð S. Guðjónsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu þann 16. desember.

Tengt efni

Stuðningsstuðullinn lækkar

Jákvæð þróun á vinnumarkaði - Stuðningsstuðullinn mældist 1,3 í fyrra og lækkaði ...
10. nóv 2023

Fleiri njóta stuðnings einkageirans

Stuðningsstuðull atvinnulífsins hækkaði talsvert í faraldrinum
20. apr 2022

Hvað er svona merkilegt við vísisjóði? Föstudagskaffi 17. desember

Í síðasta Föstudagskaffi Viðskiptaráðs fyrir jól verður sjónum beint að vísisjóðum.
14. des 2021