Ótroðnar lágvaxtaslóðir

„Ef það heldur ekki, verðlagið, vextirnir og búvöruverðið, ríkisstjórnin, verkalýðsfélögin. Ef einhver hópur fer að vaða uppi í hækkunum fyrir ofan almennt verkafólk, þá er þetta búið. Menn þurfa að átta sig á því að þetta verður að byggjast á gagnkvæmu jafnræði á milli hópa. Það þýðir ekki að keyra áfram einhverjir sérhópar upp yfir aðra því þá er þetta hrunið og það hrynur yfir þá hina sömu,“ sagði Guðmundur Jaki Guðmundsson eftir að skrifað hafði verið undir hina svokölluðu þjóðarsáttasamninga árið 1990.

Þá líkt og nú var efnahagslegur stöðugleiki undir því að línan sem dregin var í kjarasamningum héldi enda stöðugleiki á vinnumarkaði undirstaða verðstöðugleika og þar með lágs vaxtastigs.

Á Íslandi hafa vextir aldrei verið lægri. Færa má rök fyrir því að í fyrsta sinn á tímum nútíma hagstjórnar megi tala um Ísland sem lágvaxtaland. Það verður umfjöllunarefni árlegs Peningamálafundar Viðskiptaráðs sem fram fer á morgun. Lágum vöxtum ber að fagna en hvort tveggja heimilin og viðskiptalífið hafa lengi beðið um og beðið eftir lækkun vaxta.

Haldist skilyrði fyrir frekari vaxtalækkunum þurfa landsmenn þó jafnframt að hafa það hugfast að engin er rós án þyrna. Lágt vaxtastig kemur fram í lægri kostnaði einstaklinga og fyrirtækja en hin hliðin á peningnum er sú að það felur í sér lægri ávöxtun sparnaðar. Slíkt getur til að mynda haft víðtæk áhrif á lífeyrissjóði landsins og skapað hvata fyrir sjóðina til þess að sækja í áhættumeiri eignir.

Yfirskrift Peningamálafundarins er töluvert breytt frá því í fyrra þegar við hjá Viðskiptaráði veltum því upp hvort við yrðum hávaxtaland að eilífu. Lágir vextir geta þó verið skammgóður vermir ef illa fer í samningum hins opinbera við starfsmenn sína. Missi samningsaðilar sjónar á stóra samhengi efnahagsmálanna er hætt við að Seðlabankinn neyðist til þess að hækka vexti á ný sem aftur grefur undan Lífskjarasamningum og getur leitt til enn frekari vaxtahækkana. Það er því mikið undir og verður fróðlegt að heyra sjónarhorn nýs seðlabankastjóra á þau úrlausnarefni sem standa hagstjórn fyrir dyrum um þessar mundir.

Ásta S. Fjeldsted, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands

Greinin birtist fyrst í Markaði Fréttablaðsins 6. nóvember 2019

Tengt efni

Engar tekjur og endalaus útgjöld? Greining á loforðum flokkanna

SA og VÍ áætla að afkoma ríkissjóðs gæti versnað um allt að 250 milljarða. ...
22. sep 2021

Komið að viðspyrnu í ríkisfjármálum

Sem betur fer er tilefni til að færa áherslu ríkisfjármála í auknum mæli að því ...
14. apr 2021

Góðar aðgerðir sem duga skammt

Viðskiptaráð fagnar þeim aðgerðum sem kynntar hafa verið vegna kórónuveirunnar ...
24. mar 2020