Jákvæð umræða um stöðu lífeyrismála

Undanfarnar vikur hefur mikil umræða átt sér stað um stöðu lífeyrismála á Íslandi vegna þeirrar skerðingar sem sjóðsfélagar almenna lífeyriskerfisins hafa þurft að taka á sig í kjölfar fjármálakreppunnar. Viðskiptaráð gaf í síðustu viku út skoðun þar sem farið er yfir stöðu lífeyrismála og varpað ljósi á það mikla ójafnræði sem þar ríkir.

Á sama tíma og starfsmenn almenna vinnumarkaðarins hafa þurft að taka á sig skerðingu lífeyrisréttinda hafa lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna aukist, þrátt fyrir slælega ávöxtun Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Þannig mun almenni vinnumarkaðurinn þurfa að taka á sig tvöfalt högg vegna fjármálakreppunnar. Annars vegar rýrnun lífeyrisréttinda og hins vegar stórauknar skattaálögur til að standa undir ósjálfbæru lífeyriskerfi opinberra starfsmanna.

Víðtæk samstaða ríkir um að núverandi fyrirkomulag flokkist undir mismunun af versta tagi og að ekki verði unað við óbreytt kerfi. Í síðustu viku tjáðu fjölmargir aðilar vinnumarkaðarins sig um stöðu lífeyrismála.

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, sagði eftirfarandi í viðtali við Stöð 2:

„Það er alveg ljóst að reikningurinn fyrir þessu verður sendur til skattgreiðenda í formi hærri iðgjalda.“ Ennfremur sagði hann „ef maður tekur bæði b- deildar og a-deildar kerfið er ljóst að sá halli er á sjötta hundrað milljarða. Það þýðir að það þurfi að hækka skatta um 4 prósent til að standa undir þessu. Ég held að það sjái það allir að það sé óraunhæft þannig að þessi sýndarveruleiki er komin að leiðarlokum“.

Vilmundur Jósefsson, formaður SA, lét eftirfarandi orð falla á aðalfundi samtakanna:

„Sá mikli munur sem er á lífeyrisréttindum á almennum vinnumarkaði og hjá hinu opinbera fær ekki staðist. Á almennum vinnumarkaði þurfa lífeyrissjóðir að rísa undir skuldbindingum sínum og skerða réttindi þegar illa árar en opinberu sjóðirnir eru með ótakmarkaða ábyrgð launagreiðenda og þar með skattgreiðenda. Skattgreiðendur á almennum markaði þurfa því bæði að þola skert lífeyrisréttindi frá eigin sjóðum og skertar ráðstöfunartekjur til viðbótar vegna lífeyrissjóða hins opinbera.”

Í könnun sem framkvæmd var af útvarpsstöðinni Bylgjunni kom fram að 87% hlustenda töldu að sömu lög eigi að gilda um almenna lífeyrissjóði og opinbera. Það má því ljóst vera að mikill meirihluti þjóðarinnar telur breytinga þörf í þessum efnum.

Fjármálaráðherra tilkynnti í fjölmiðlum í lok síðustu viku að stefna eigi að því að jafna lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna og fólks á almennum vinnumarkaði. Samkvæmt ráðherra fer starfshópur nú yfir lífeyrissjóðakerfið sem móta á langtímaáætlun um lífeyrismál. Viðskiptaráð fagnar þessum ummælum ráðherra og vonast til að staðið verði við þau.

Sérstök ástæða er til að undirstrika að Viðskiptaráð hefur ávallt tekið sérstaklega fram í hugmyndum sínum að áunnin réttindi opinberra starfsmanna eigi að sjálfsögðu standa og ríkissjóður verði að standa skil á þeim greiðslum að fullu. Annað myndi flokkast undir eignaupptöku og því varla standast stjórnarskrá. Aftur á móti er nauðsynlegt að gera breytingar á kerfinu sem fyrst þannig að framtíðarlífeyrisréttindi opinberra starfsmanna ávinnist með sama hætti og gengur og gerist á almennum vinnumarkaði.

Skoðun Viðskiptaráðs um lífeyrismál má nálgast hér.

Tengt efni

Orkulaus eða orkulausnir?

Traustir innviðir eru forsenda þess að samfélag og atvinnulíf á Íslandi búi við ...
16. feb 2023

Velkomin til framtíðarinnar, árið 2003

Landvernd kynnti tillögur um orkuframleiðslu og -skipti til ársins 2040 án ...
27. jún 2022

Starfsfólk hins opinbera nýtur enn meiri verndar en á almenna markaðnum

Umsögn Viðskiptaráðs um frumvarp til laga um breytingu á lögum um réttindi og ...
2. nóv 2022