Bæta þarf stjórnarhætti til frambúðar

Nú í vikunni stóðu Viðskiptaráð, Samtök atvinnulífsins, Kauphöllin og rannsóknarmiðstöð um stjórnarhætti fyrir hádegisverðarráðstefnu um stjórnarhætti fyrirtækja hér á landi. Þátttaka var góð, en um 100 gestir sóttu ráðstefnuna sem haldin var undir yfirskriftinni Getum gert miklu betur! Á ráðstefnunni var m.a. fjallað um hlutverk leiðbeininga um stjórnarhætti og mikilvægi þess að fyrirtæki fylgdu þeim eftir.

Á henni fluttu erindi Páll Harðarson, forstöðumaður rekstrarsviðs Kauphallarinnar, Chris Pierce forstjóri Global Governance Service og Benedikt Jóhannesson, ritstjóri Vísbendingar. Páll kom í stað Þórðar Friðjónssonar sem forfallaðist. Að lokum fóru fram pallborðsumræður þar sem m.a var rætt um hvernig viðskiptalífið ætti að tileinka sér góða stjórnarhætti.

Snýst um upplýsingagildi fyrst og fremst
Páll Harðarson fór yfir söguna að baki útgáfu leiðbeininga um stjórnarhætti fyrirtækja, markmið þeirra og helstu nýjungar í þriðju útgáfu leiðbeininganna, en erindi hans bar yfirskriftina Nýjar áherslur með reynsluna í farteskinu.

Að mati Páls væri það ekki endilega hagkvæmt fyrir hvert og eitt fyrirtæki að fylgja öllum ákvæðum leiðbeininganna, enda gætu verið góðar og gildar ástæður fyrir frávikum. Það sem mestu skipti væri að ársreikningur fyrirtækja hefði að geyma skýringar á frávikunum. Nefndi hann í þessu samhengi að rétt um 77% fyrirtækja innan ESB skýra einhver frávik í sínum ársreikningum – aðeins um fjórðungur telur sig því vera að fara í einu og öllu eftir viðkomandi leiðbeiningum.

Eftirfylgni skiptir máli
Páll fjallaði einnig um mikilvægi þess að fyrirtæki finndu sjálf að eftirfylgni við leiðbeiningarnar skiptu hluthafa og fjárfesta máli. Þar væri mikilvægt að veigamikil fyrirtæki á markaði s.s. eignaumsýslufélög, bankar, opinber fyrirtæki tækju þær til sín.

Taldi hann jafnframt að nýstofnuð rannsóknarmið um stjórnarhætti við Háskóla Íslands myndi nýtast vel í vinnu á þessu sviði og lagði hann til að stórir aðilar á markaði myndu styðja miðstöðina í sínu starfi. Þessir aðilar ættu allir, að mati Páls, að leggjast á árarnar um að bæta stjórnarhætti til frambúðar og efla þannig traust á íslensku viðskiptalífi.

Sagan að endurtaka sig
Benedikt Jóhannesson velti því upp í sínu erindi, Hlutverk og starfshættir stjórna – gerum við það sem við eigum að gera?, hvort stjórnir ættu að beita sömu vinnubrögðum nú og fyrir hrun, enda væri umhverfið gjörbreytt. Þá dró Benedikt í efa að unnt væri að skýra orsakir hrunsins út frá stjórnarháttum fyrirtækja. Að hans mati mætti miklu frekar rekja það til breytts umhverfis, þ.e. þegar bankarnir breyttust úr þjónustufyrirtækjum yfir í óvini fyrirtækja með því að vilja eiga þau og reka. Þessi þróun væri að eiga sér aftur stað í dag og hana þyrfti að stöðva.

Stjórnarmenn eiga ekki að vera farþegar
Þá fór Benedikt jafnframt yfir hlutverk stjórna og sagði þær eiga að marka stefnu fyrirtækja, tryggja að henni sé fylgt og einnig að hafa eftirlit með rekstri fyrirtækjanna. Í þessu tilliti nefndi hann að fyrirtæki yrðu mörg hver að hafa stefnur, t.a.m. um samkeppnismál, umhverfismál og jafnréttismál – jafnvel pólitíska stefnu varðandi styrki til stjórnmálaflokka. Stjórnarmenn þyrfti þannig að vera ráðgjafar og að einhverju leyti varðhundar, en mestu skipti að þeir kæmu utan frá að rekstri fyrirtækisins.

Ábyrgðin mikil
Í grunninn taldi Benedikt fyrirtækjarekstur ekki flókinn, stjórnin þyrfti að huga að því hvort eiginfjárstaðan væri góð, skuldsetning hófleg og lausafjárstaða næg. Þá nefndi Benedikt að umræðan hafi hingað til að mestu snúist um þá ábyrgð sem viðskiptalífið bar fyrir og í aðdraganda hrunsins. Ekki væri hins vegar síður mikilvægt nú að huga að þeirri ábyrgð sem viðskiptalífið ber í dag og til frambúðar.

  • Glærur Páls má nálgast hér.
  • Grein Þórönnu Jónsdóttur, sem tók þátt í pallborði ráðstefnunnar, Bættir stjórnarhættir - betra viðskiptalíf sem birtist í Viðskiptablaðinu í gær má nálgast hér.

Tengt efni

Fjölsóttur fundur um lífeyrissjóði og atvinnulífið

Ríflega 150 manns sóttu fund Viðskiptaráðs Íslands, Samtaka atvinnulífsins, ...
15. nóv 2013

Góðir stjórnarhættir skipta máli

Á ráðstefnu um stjórnarhætti fyrirtækja,
26. maí 2010

Athafnir verða að fylgja orðum

Í síðustu viku stóðu Viðskiptaráð, Samtök atvinnulífsins, Kauphöllin og ...
3. jún 2010