Skattstofnar að gefa eftir?

Nú þegar greiðsluuppgjör ríkissjóðs fyrir fyrsta þriðjung ársins liggur fyrir er ekki úr vegi að staldra við og meta þróun mála eftir upptöku hins nýja skattkerfis. Það sem einkennir uppgjörið einna helst við fyrstu yfirferð er að flestir skattstofnar eru að dragast saman. Má þar t.a.m. nefna tekjuskatt lögaðila, fjármagnstekjuskatt, eignaskatt, virðisaukaskatt af atvinnustarfsemi og vörugjöld af bensíni, olíu, áfengi og tóbaki. Þá áætlar ráðuneytið að undirliggjandi skattstofn tryggingargjalds hafi einnig dregist saman í krónum talið.

Fleiri krónur en til skamms tíma
Nokkrir þessara stofna eru þrátt fyrir það að skila ríkissjóði meiri tekjum en í fyrra. Má þar einkum nefna virðisaukaskatt af vörum, áfengis- og tóbaksgjald ásamt tryggingargjaldi. Tekjurnar eru hinsvegar í mörgum tilvikum undir áætlunum, þrátt fyrir að hagkerfið hafi reynst stærra en gert var ráð fyrir.

Hafa verður í huga að á sama tíma og skatttekjur geta verið að aukast getur ástand þeirra skattstofna sem liggja að baki verið að veikjast. Í þessu sambandi má nefna tekjur af vörugjaldi af bensíni og olíu, áfengi og tóbaki. Þessir skattar eru að skila fleiri krónum í kassann til skemmri tíma en um leið eru undirliggjandi skattstofnar að dragast verulega saman sökum samdráttar í sölu. Raunar er samdrátturinn töluvert meiri en spár gerðu ráð fyrir.

Að auki virðist óljóst hvort skatttekjur af hinu nýja þrepaskipta skattkerfi muni skila þeirri búbót sem vænst var eftir fyrir ríkissjóð. Telur Hagstofan raunar, í nýrri þjóðhagsspá sinni, að margt bendi til að tekjuskattstofn þessa árs í krónum talið verði jafnvel lægri en í fyrra.

Spár ekki að rætast
Ef þessi þróun er borin saman við spágerð fjárlaga þessa árs má sjá töluverðan mun. Í fjárlögum var t.a.m. gert ráð fyrir að skattar myndu aukast um 63 ma. kr. á þessu ári samanborið við fjárlög ársins 2009. Þá var jafnframt gert ráð fyrir að heildarútgjöld myndu haldast óbreytt. Fyrstu fjóra mánuði ársins hafa skatttekjur einungis hækkað um rúma 4 ma. kr. milli ára, en á sama tíma hafa gjöld hækkað um rúma 3 ma. kr. Erfitt er að sjá hvernig ofangreind spá verði raunin miðað við þessa þróun.

Eins óheppileg og þessi þróun er fyrir stöðu ríkissjóðs þá var hún að einhverju leyti fyrirsjáanleg. Í stöðugleikasáttmálanum var t.a.m. samhljómur um að hlutdeild tekjuöflunar í aðlögunaraðgerðunum yrði ekki of mikil með hliðsjón af samdrætti í tekjustofnum. Þá bentu margir á vænt óheppileg áhrif umfangsmikilla skattabreytinga sem innleiddar voru fyrir áramót, en þær voru m.a.:

  • 61% hækkun tryggingargjalds
  • Innleiðing fjölþrepa tekjuskattkerfis einstaklinga
  • 80% hækkun fjármagnstekjuskatts
  • Nýir orku-, auðlinda- og umhverfisskattar
  • Hækkun á tekjuskatti lögaðila úr 15% í 18%
  • Hækkun á efsta þrepi virðisaukaskatts í 25,5%
  • Nýr eignarskattur
  • Skattlagningu vaxtagreiðslna til erlendra aðila

Bregðast þarf við
Ekki verður hjá því komist að horfast í augu við það þessi þróun er alvarleg fyrir ríkissjóð og samfélagið í heild. Fyrsta ár aðlögunaraðgerða hefur fyrst og fremst verið nýtt til aukinnar tekjuöflunar með viðamiklum breytingum á skattkerfinu. Rauntölur um þróun ríkisfjármála benda til að aðgerðirnar hafi ekki haft nægileg áhrif til batnaðar. Við blasir fjárlagagat til næstu þriggja ára sem þarf að brúa, ef markmið um jöfnuð í ríkisfjármálum eiga að nást. Auk þess eru merki um að auknir skattar hafi veikt til muna undirliggjandi skattstofna og ef stjórnvöld bregðast aftur við með frekari skattaálögum má leiða að því líkur að umsvif í hagkerfinu dragist enn frekar saman. Þannig getur skapast hættulegur vítahringur þar sem stjórnvöld vega að sjálfbærni hins opinbera með íþyngjandi skattastefnu.

Af þessu sést hversu mikilvægt er að stjórnvöld setji sér það sem lykilmarkmið að skattkerfið ýti undir hagvöxt og efnahagslega endurreisn. Fjöldi aðila hafa lagt fram tillögur í þá veru undanfarin misseri. Þær þarf að taka til betri skoðunar.

Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands

Grein þessi birtist í Viðskiptablaðinu í dag, fimmtudaginn 24. júní 2010.

Tengt efni

Útborgunardagurinn er í dag

Útborgunardagurinn 2024 er í dag, þann 27. júní. Frá þessum degi byrjar ...
27. jún 2024

Þung skattbyrði og mikil verðbólga undirstrika þörf á aðhaldi

„Útgjaldavöxtur síðustu ára hefur kynt undir háa verðbólgu og valdið bæði ...
8. maí 2024

Góðir stjórnar­hættir - hvernig og hvers vegna?

Tilnefningarnefndir er dæmi um viðfangsefni sem halda þarf áfram að móta til ...
8. mar 2023