Ný:sköpun Ný:tengsl – árangursríkur kvöldverðarfundur

Í gærkvöldi var haldinn fyrsti kvöldverðarfundur Viðskiptaráðs og Innovit undir yfirskriftinni Ný-Sköpun-Ný-Tengsl.  Markmið fundarins var að búa til vettvang skoðanaskipta og tengslamyndunar fyrir þróttmikið fólk sem nýlega hefur hafið rekstur og fólk með reynslu og þekkingu á rekstri og framkvæmd hugmynda. 

Til fundarins, sem haldinn var í Hugmyndahúsi HR og LHÍ, var boðið fulltrúum frá þrettán nýjum fyrirtækjum sem kynntu viðskiptalíkön og áætlanir til framtíðar og jafn mörgum reynsluboltum úr atvinnulífinu.  Fyrirtækin sem kynnt voru í gær eru: CLARA, Controllant, Eff2, Fafu, Global Call, ICCE, Mammon, Mindgames, Primula, Responsible Surfing, Tæknibrúa, Ymir Mobile og Ævintýri.  Nánari upplýsingar um þessi fyrirtæki verður að finna á vefjum Viðskiptaráðs og Innovit innan tíðar. 

Sá eldmóður og bjartsýni sem einkenndu þann hóp frumkvöðla sem sótti kvöldverðinn er til vitnis um þann kraft sem býr í íslensku athafnafólki.  Horft var til tækifæra, framtaks og samstöðu, sem er mikilvægt veganesti í þeirri endurreisn efnahagslífs sem framundan er.  Fundurinn mæltist afar vel fyrir, bæði hjá frumkvöðlum að nýjum fyrirtækjum og þeim sem eldri og reyndari eru. Ráðgert er að halda annan slíkan fund innan tíðar og er þeim sem vilja kynna sér málið frekar bent á að hafa samband við Finn Oddsson hjá Viðskiptaráði eða Andra Heiðar Kristinsson hjá Innovit.

Tengt efni

Fréttir

Skemmtileg kvöldstund full af nýjum hugmyndum

Í gærkvöldi var haldinn í annað sinn kvöldverðarfundur Viðskiptaráðs og Innovit ...
1. okt 2010
Fréttir

Eldhugar á stefnumóti við stjórnendur

Þriðjudaginn 6. desember stóðu Viðskiptaráð Íslands og
16. des 2011
Fréttir

Hvað ungur nemur gamall temur

Síðastliðinn fimmtudag stóðu Viðskiptaráð Íslands og
12. apr 2011