Bankasýsla ríkisins

Fyrir viðskiptanefnd Alþingis liggur frumvarp um stofnun Bankasýslu ríkisins, en henni er ætlað að fara með eignarhluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Ljóst er að leysa þarf úr þeim fjölmörgu álitamálum sem sköpuðust við yfirtöku ríkisins á viðskiptabönkunum. Mikilvægt er að faglega sé staðið að þeirri úrlausn og að aðkoma ríkisins sé hafin yfir allan vafa og um hana settar ákveðnar leikreglur. Vegna þessa fellst Viðskiptaráð í megindráttum á þessar fyrirætlanir stjórnvalda, en þrátt fyrir það gerði ráðið talsverðar athugsemdir við frumvarpið.

Þannig skýtur það skökku við að stjórnvöld hyggjast setja þessi verkefni í opinbera stofnun, en ekki félag. Það gengur þvert gegn ráðleggum nefndar um endurreisn fjármálakerfisins, en í fyrstu starfsáætlun hennar er beinlínis lagt til að ríkisstjórnin íhugi að stofna „sjálfstætt félag, með viðeigandi aðskilnaði frá hinu pólitíska valdi, er fari með eignarhlut ríkisins í bönkunum…”. Þá vekur það jafnframt spurningar að hvergi sé að finna samanburð á því hvernig sambærilegum málum hefur verið háttað í öðrum löndum, en í fyrrgreindri áætlun nefndarinnar  segir að með stofnun sjálfstæðs móðurfélags væri ríkissjórnin að fara að dæmi “yfirvalda í mörgum löndum”.

Til viðbótar við ofangreint gerði Viðskiptaráð margvíslegar athugsemdir við einstök ákvæði frumvarpsins, en þar má nefna: Að gera þurfi mun ríkari kröfur um upplýsingagjöf en frumvarpið felur í sér; að fjármálaráðherra sé einum ætlað að skipa í stjórn stofnunarinnar; að hvergi sé fjallað um starfshætti stofnunarinnar séu aðrir hluthafar í viðkomandi félögum; að ekki skuli vera nægjanlega mikið litið til sölu fyrirtækjanna í gegnum Kauphöll Íslands og að of lítil áhersla sé lögð á sölu um leið og markaðsaðstæður leyfa. Vonir ráðsins standa til þess að viðskiptanefnd taki athugsemdir þessar til skoðunar við afgreiðslu málsins.

Umsögn Viðskiptaráðs við frumvarpið má nálgast hér.

Fyrstu starfsáætlun nefndar um endurreisn fjármálakerfisins má nálgast hér.

Tengt efni

Keppni án verðlauna

Við fáum engin verðlaun fyrir að vera kaþólskari en páfinn
12. júl 2023

Gera þarf breytingar á fjölda og fjármögnunarkerfi sveitarfélaga

Umsögn Viðskiptaráðs um drög að stefnu í málefnum sveitarfélaga (mál nr. 72/2023).
19. apr 2023