Skattkerfið þarf að skapa hvata til uppbyggingar hagkerfisins

Verulegar breytingar hafa átt sér stað á skattkerfinu hér á landi síðustu tvö árin og hefur því í raun verið umturnað frá því sem áður var. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Finns Oddssonar framkvæmdastjóra Viðskiptaráðs á skattadegi Deloitte sem fram fór á Grand Hótel í morgun. Fundinn setti Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra, en fundarstjóri var Vilhjálmur Egilsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. Önnur erindi á fundinum fluttu Vala Valtýsdóttir, sviðsstjóri skatta- og lögfræðisviðs Deloitte, Hólmfríður Kristjánsdóttir, lögfræðingur og Sigurður Páll Hauksson, löggiltur endurskoðandi, bæði á skatta- og lögfræðisviði Deloitte.



Litið fram hjá mikilvægi samráðs
Finnur kom í erindi sínu einnig inn á mikilvægi samráðs við sem flesta hagsmunaaðila við eins viðamiklar breytingar á skattkerfinu og hafa átt sér stað hér síðustu tvö árin, en slíku samráði hefur því miður verið verulega  ábótavant. Í „Handbók um undirbúning og frágang lagafrumvarpa“ frá Stjórnarráðinu segir í kafla 4.3 um „Samráð við hagsmunaaðila og almenning“ að æskilegt sé að efna til samráðs við hagsmunaaðila og almenning við gerð allra þýðingarmeiri frumvarpa eftir því sem tími og aðstæður leyfa. Við mat á því hvort frumvörp eru þýðingarmikil skal m.a. líta til þess hvort nýjar skyldur séu lagðar á einstaklinga, atvinnulíf, sveitarfélög o.s.frv. eða þá að réttindi framangreindra aðila eru aukin eða skert.

„Það samráðsferli sem hefur átt sér stað þessi síðustu tvö ár er engan vegin uppörvandi og gætu stjórnvöld nýtt þekkingu atvinnulífs á skattamálum mun betur sem væri hagkvæmt fyrir alla,“ sagði Finnur.

Mikilvægt að koma í veg fyrir mistök við lagasetningu
Ennfremur benti Finnur á það frumkvæði sem atvinnulífið hefur sýnt, m.a. í sameiginlegri skýrslu Viðskiptaráðs og Samtaka atvinnulífsins frá því í september í fyrra. Nú er sérstaklega mikilvægt að koma í veg fyrir mistök við lagasetningu sem hefðu neikvæð áhrif á atvinnulíf og efnahagsuppbyggingu. Þegar litið er á þær tillögur sem lagðar voru fram í áðurnefndri skýrslu sést að stjórnvöld hafa einungis tekið tillit til þeirra að litlum hluta eða í fjórum af 21 tillögu.

Eitthvað hefur þó verið unnið til bóta en þar má helst nefna tímabundnar breytingar á greiðslufyrirkomulagi virðisaukaskatts og aðflutningsgjalda vegna uppgjörstímabila nóvember og desember. Þá hefur einnig verið undirritað samkomulag um skuldaafskriftir lítilla og meðalstórra fyrirtækja þar sem hið opinbera kemur að afskriftum til jafns við aðra kröfuhafa.

Fólk bregst ávallt skynsamlega við ...miðað við aðstæður
Að lokum ræddi Finnur einnig þá staðreynd að skattkerfi hafa áhrif á hegðun fólks og stýra henni. Nú sem aldrei áður er mikilvægi uppbyggingar og endurreisnar efnahagskerfisins ljóst, en það getur reynst erfitt þegar hvatarnir eru orðnir þannig að skynsamleg viðbrögð einstaklinga og fyrirtækja felist í því að þau gera minna af því sem samfélagið þarfnast og meira af því sem er því óhagkvæmt. Nýja stefnu þarf í skattamálum á Íslandi, en það svigrúm til skattahækkana sem mögulega var til staðar til að auka tekjuöflun í byrjun árs 2009, er augljóslega uppurið og gott betur.

„Ný nálgun krefst sóknarhugsunar, frekar en varnar, og trú á framtaksemi og dug fólksins sem hér býr og fyrirtækjanna sem hér starfa. Slík nálgun hvetur til vinnu, framtakssemi, fjárfestinga og verðmætasköpunar,“ sagði Finnur ennfremur.

Ríkissjóður hefur nú þegar tapað tekjum
Til viðbótar benti Finnur á að margir einstaklingar og fyrirtæki hafi brugðist eðlilega og skynsamlega við mörgum af þeim skattabreytingum sem nýlega voru samþykktar. Sem dæmi nefndi Finnur m.a. að:

  • ljóst væri að nýlegar reglur um arðgreiðslur draga úr hvata til sjálfstæðrar atvinnustarfsemi 
  • afdráttarskattar á vaxtagreiðslur hafi aukið fjármagnskostnað fyrirtækja og að auki leitt til slita á nokkrum fyrirtækjum á síðasta ári sem voru stórir skattgreiðendur
  • auknar álögur almennt dragi úr neyslu sem leiðir til minni umsvifa í hagkerfinu og býr í mörgum tilfellum til aðstæður fyrir neðanjarðarhagkerfi sem er Íslendingum lítt hugnanlegt
  • samspil bótakerfis og hárrar skattlagningar festa svarta vinnu í sessi
  • tvískattlagning á arðgreiðslum kemur í veg fyrir að fjármagn komi til lands úr dótturfélögum íslenskra fyrirtækja

Glærur af fundinum:

Tengdar fréttir úr fjölmiðlum:

Tengt efni

Umsögn um drög að frumvarpi um loftslags- og orkusjóð

Viðskiptaráð skilaði á dögunum inn umsögn um drög að frumvarpi til laga um ...
21. mar 2024

Tölur í tóma­rúmi og tíma­bundni banka­skatturinn

Skýrasta tækifærið til að bæta kjör landsmanna er að lækka bankaskattinn enn ...
16. maí 2023