Stuðningskerfi bænda verði endurskoðað í heild

Viðskiptaráð fagnar því að gripið sé til aðgerða til að „ná jafnvægi í framleiðslu sauðfjárafurða og gera bændum kleift að byggja upp nýjar búgreinar og búskaparhætti eða hasla sér völl á öðrum sviðum, m.a. til þess að stuðla að nýsköpun og náttúruvernd,“ eins og það er orðað í skýringum við 7. gr. frumvarpsins.

Í skoðun Viðskiptaráðs frá 2015, Hverjar eru okkar ær og kýr?, eru tillögur sem byggja á Samráðvettvangi um aukna hagsæld þar sem gert er ráð fyrir að jarðræktarstuðningur yrði ný undirstaða landbúnaðarstuðnings og að dregið yrði úr sértækum stuðningi við einstakar greinar landbúnaðar. Þá var lagt til að dregið yrði úr tollvernd til að auka samkeppnisaðhald landbúnaðargreina. Tillögunum var ætlað að tryggja að stuðningur við landbúnað rynni í auknum mæli til bænda og veitti þeim aukið frelsi. Á sama tíma myndi framleiðni í greininni aukast og hagur neytenda vænkast samhliða. Þannig var reynt að móta fyrirkomulag sem nær samfélagslegum markmiðum landbúnaðarstefnunnar með lágmarks fórnarkostnaði.

Með frumvarpinu er stigið skref í átt að þessum tillögum, sem því miður var að mestu leyti litið framhjá við breytingar á búvörulögum. Með frumvarpinu er þannig gert ráð fyrir að framleiðandi sauðfjárafurða fækki í bústofni um að minnsta kosti 100 fjár en haldi tímabundið óbreyttum stuðningsgreiðslum og telur Viðskiptaráð að með því sé farið í þá átt að draga úr sértækum stuðningi við einstakar greinar. Þrátt fyrir það ítrekar Viðskiptaráð þá grundvallarsýn að það sé í meginatriðum markaðarins að ákveða hvaða atvinnustarfsemi skuli verða ofan á, en ekki ríkisins með styrkjum og niðurgreiðslum.

Lesa má umsögnina í heild sinni hér.

Tengt efni

Hver ber ábyrgð á verðbólgunni?

Ávarp formanns Viðskiptaráðs á Peningamálafundi sem fram fór í gær, 24. nóvember ...
25. nóv 2022

Viðskiptaráð ítrekar ábendingar um atriði sem stríða gegn almannahagsmunum

Umsögn Viðskiptaráðs um frumvarp til laga um leigubifreiðaakstur (167. mál).
20. okt 2022

Viðskiptaráð hvetur löggjafann til að leita hófsamari leiða

Umsögn Viðskiptaráðs um frumvarp til laga um breytingu á húsaleigulögum
1. nóv 2022