Skýrsla rannsóknarnefndar nýtt til umbóta

Í síðustu viku skilaði rannsóknarnefnd Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna skýrslu þar sem niðurstöður hennar voru kunngerðar. Meginhlutverk nefndarinnar var að draga upp heildarmynd af aðdraganda að falli bankanna og leita orsaka. Samhliða voru birtar niðurstöður vinnuhóps sem leggja átti mat á hvort skýringar á falli bankanna og tengdum efnahagsáföllum mætti finna í starfsháttum og siðferði.

Efnistök skýrslunnar eru víðtæk og gerir hún grein fyrir flestum hliðum efnahagshrunsins á mjög ítarlegan og faglegan máta. Vinna nefndarinnar á því ótvírætt eftir að reynast verðmætt innlegg í endurreisn hagkerfisins og gagnlegur leiðarvísir um hvað betur megi fari í stjórnsýslu og viðskiptaháttum.

Í skýrslunni er komið til skila réttmætri gagnrýni á vissa þætti í starfsemi og útgáfu Viðskiptaráðs Íslands á árunum fyrir hrun. Í raun má segja að gagnrýnin skiptist í tvennt. Annars vegar er rætt um útgáfu á þeim skýrslum ráðsins sem fjölluðu um fjármálastöðugleika á Íslandi og alþjóðavæðingu íslensku bankanna. Hins vegar er gagnrýni beint að þeim sjónarmiðum og afstöðu sem endurspeglaðist í ýmsu málefnastarfi ráðsins árin fyrir hrun og þeim siðferðilegu álitamálum sem að þeim snúa. Viðskiptaráð fagnar þeirri umfjöllun sem þar kemur fram og sýnir döpur reynsla síðustu ára að full ástæða er til endurskoðunar á ýmsum þáttum í starfi ráðsins sem fjallað er um.

Skýrslur Viðskiptaráðs Íslands um fjármálakerfið
Á vormánuðum ársins 2006 gaf Viðskiptaráð Íslands út skýrsluna „Financial Stability in Iceland“, sem skrifuð var af hagfræðiprófessorunum Fredric Mishkin og Tryggva Þór Herbertssyni. Markmið skýrslunnar var að varpa ljósi á stöðu og styrkleika íslenska fjármálakerfisins, en talsverð umræða hafði spunnist á alþjóðlegum fjármálamörkuðum um það efnahagslega ójafnvægi sem ríkti á Íslandi á þeim tíma. Skýrslan fjallaði lítið um rekstur sjálfra bankanna, heldur fyrst og fremst þá þjóðhagslega þætti sem sneru að fjármálastöðugleika hagkerfisins.

Haustið 2007 var gefin út önnur skýrsla á vegum Viðskiptaráðs Íslands sem bar heitið „The Internationalisation of Iceland‘s Financial Sector“ og var skrifuð af hagfræðiprófessorunum Richard Portes og Friðriki Má Baldurssyni. Í skýrslunni er rýnt í rekstur og fjármögnun íslensku bankanna út frá opinberum gögnum og niðurstöðurnar bornar saman við Norræna banka af sambærilegri stærð. Auk þess er fjallað um þjóðhagslegar afleiðingar af stærð bankakerfisins og þeirri óformlegu evruvæðingu sem átt hafði sér stað.

Skýrslurnar hafa sætt nokkurri gagnrýni, fyrst og fremst fyrir þær sakir að hafa varpað of jákvæðu ljósi á stöðu íslenska fjármálakerfisins. Þessi gagnrýni er skiljanleg í ljósi þeirrar atburða sem áttu sér stað á haustmánuðum 2008, en er þó að ýmsu leyti ómakleg gagnvart höfundum skýrslanna. Í báðum skýrslum er ekki eingöngu fjallað um þá styrkleika sem íslenska fjármálakerfið bjó yfir, heldur einnig bent á veigamikla veikleika og lagðar fram tillögur til úrlausna í þeim efnum. Eins ber að hafa í huga að ýmsar mikilvægar forsendur, líkt og hlutfallsleg stærð fjármálakerfisins, breyttust umtalsverð frá útgáfu fram að hruni bankanna.

Það má hinsvegar með réttu gagnrýna Viðskiptaráð Íslands, íslensk fjármálafyrirtæki sem og stjórnsýsluna fyrir að hafa nánast eingöngu lagt áherslu á þá jákvæðu þætti sem í skýrslunum komu fram, en ekki nægilega var lagt upp úr því að kynna eða taka tillit til gagnrýni höfunda. Að sama skapi var full ástæða til að leggja ríkari áherslu á að rannsaka til hlýtar þá veikleika kerfisins sem greint var frá í skýrslunum.

Það er því einkum framreiðsla og nýting umræddra skýrslna sem verðskuldar gagnrýni og í þeim efnum ber Viðskiptaráð Íslands ríkustu ábyrgðina. Ofangreindar áherslur endurspegla skort á sjálfsgagnrýni sem ráðið, auk meginþorra viðskiptalífs og stjórnsýslu, gerðu sig seka um í aðdraganda hrunsins.

Siðferðisleg álitamál í starfi Viðskiptaráðs
Þrátt fyrir að starfsemi Viðskiptaráðs sé ekki talin hafa stuðlað með beinum hætti að falli íslensku bankanna og því tjóni sem af því hlaust, er engu að síður velt upp þeirri siðferðilegu ábyrgð sem fólgin var í málefnastarfi ráðsins árin fyrir hrun. Þessa umfjöllun má finna í niðurstöðum vinnuhóps sem leggja átti mat á hvort skýringar á falli bankanna og tengdum efnahagsáföllum mætti finna í starfsháttum og siðferði, en hann birti skýrslu sína samhliða rannsóknarskýrslunni. Þó svo ákveðnar niðurstöður vinnuhópsins gefi tilefni til rökræðu, er margt í gagnrýni hans á málefnastarf Viðskiptaráðs sem full ástæða er til að taka tillit til og nýta til umbóta í starfi ráðsins.

Stór hluti gagnrýninnar snýr að málflutningi ráðsins um að aukin þátttaka fyrirtækja við mótun eigin leikreglna gæti stuðlað að aukinni hagsæld á Íslandi. Þar er réttilega bent á að í umfjöllun ráðsins um aukið athafnafrelsi í viðskiptum hafi Viðskiptaráð gengið útfrá þeirri forsendu að viðskiptalífið kynni að fara með þá ábyrgð sem í frelsinu fælist. Því miður sýnir reynslan og niðurstöður rannsóknarnefndar Alþingins að í alltof mörgum tilfellum hafi það ekki reynst raunin. Viðskiptaráð hefði því átt að leggja ríkari áherslu á umfjöllun um hvernig styrkja mætti siðferði í viðskiptalífinu og stuðla að samfélagslegri ábyrgð í fyrirtækjarekstri. Að sama skapi hefði átt að fylgja leiðbeiningum ráðsins um stjórnarhætti fyrirtækja eftir með mun virkari hætti. Stefnt er að umbótum á þessu sviði í starfi Viðskiptaráðs.

Ímyndarstarf án innihalds
Í umfjöllun siðferðishópsins er einnig fjallað um þá ímyndarvinnu Viðskiptaráðs Íslands sem unnin var undir handleiðslu Simon Anholt, sem titlaður er sérfræðingur í ímynd þjóða. Ljóst er að betur hefði mátt vanda til verka í þeim efnum, enda einkennast niðurstöður þess starfs um of af þeim sjálfbirgingshætti og ofmati á eigin ágæti sem einkenndi tíðaranda þeirra ára.

Þrátt fyrir að vissulega geti verið gagnlegt að rannsaka uppruna og helstu þjóðareinkenni landsins, gagnast lítið að móta ímynd sem ekki er innstæða fyrir. Heppilegra hefði verið að mótun ímyndar íslensks viðskiptalífs, stjórnsýslu og samfélags hefði byggt á verkum og athöfnum sem endurspegla ábyrga starfshætti og gott siðferði. Kröftum Viðskiptaráðs hefði því vafalaust verið betur varið í að beita sér fyrir auknu gagnsæi viðskiptalífs, leggja enn frekari orku í upplýsingamiðlun og vinna að stórbættum stjórnarháttum í þeim ranni.

Næstu skref
Með hliðsjón af þeirri gagnrýni sem hér hefur verið rædd mun Viðskiptaráð Íslands leggja ríka áherslu frekari endurskoðun á áherslum ráðsins. Ljóst er af skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis að gagnsæi viðskiptalífs og stjórnsýslu, góðir stjórnarhættir og raunveruleg samfélagsleg ábyrgð fyrirtækja eru allt þættir sem var verulega ábótavant árin fyrir hrun. Enn fremur bendir vinnuhópur um siðferðileg álitamál í tengslum við fall bankanna á ýmislegt sem vert er að taka til endurskoðunar í málefnastarfi ráðsins.

Í febrúar síðastliðnum fóru fram kosningar til stjórnar Viðskiptaráðs Íslands. Margir nýir aðilar koma í fyrsta sinn að stjórn ráðsins sem endurspeglar sérlega vel breidd íslensks viðskiptalífs, m.t.t. stærðar fyrirtækja og atvinnugreina.  Stjórnin hefur þegar hafist handa við stefnumótun og hafa þrjár nefndir stjórnarmanna hafið umfjöllun, í fyrsta lagi um sjálfbærni atvinnulífs, með áherslu viðskiptasiðferði og stjórnarhætti, í öðru lagi um áherslur í efnahagsmálum og í þriðja lagi um umhverfi til nýsköpunar. Niðurstöður rannsóknarnefndar Alþingis munu nýtast stjórn ráðsins áþreifanlega í þessu starfi og sem leiðarvísir til umbóta í íslensku samfélagi.

Horft til framtíðar
Málefnastarfi Viðskiptaráðs er ekki ætlað að vera óumdeilt. Engu að síður leggja stjórn og aðstandendur ráðsins ríka áherslu á að markmið þess sé fyrst og fremst að stuðla að bættum lífskjörum á Íslandi þar sem heildarhagsmunir eru hafðir að leiðarljósi. Ennfremur hefur ráðið lagt áherslu á málefnalega og lausnadrifna umræðu við úrlausn þess vanda sem Íslendingar standa nú frammi fyrir.

Mörg feilspor hafa verið stigin af forkólfum atvinnulífsins á undanförnum árum og tryggja þarf að sambærileg mistök eigi sér ekki aftur stað. Viðskiptaráð leggur áherslu á að í þeirri vinnu sem framundan er verði almennt tekið tillit til þeirra umfangsmiklu gagnrýni sem fram kemur í skýrslu rannsóknarnefndar á íslenskt atvinnulíf, stjórnsýsluna og eftirlitsstofnanir.  Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis er góður leiðarvísir um það sem betur má fara í íslensku samfélagi og varpar skýru ljósi á þá afdrifaríku atburðarás sem leiddi til falls íslensku bankanna. Viðskiptaráð Íslands mun, með úrbótum í eigin ranni, leggja sín lóð á vogarskálarnar til að sagan endurtaki sig ekki. Í því starfi verður sérstök áhersla lögð á markvissara stuðningi við góða stjórnarhætti og gott siðferði í íslensku atvinnulífi.

Tengt efni

Úthlutað úr Framtíðarsjóði Viðskiptaráðs 

Sex verkefni fengu styrk úr Framtíðarsjóði Viðskiptaráðs Íslands
23. feb 2024

Ávarp Ara Fenger á Viðskiptaþingi

Ari Fenger flutti opnunarávarp á Viðskiptaþingi 2024. Þetta var hans síðasta ...
12. feb 2024

Vilt þú efla samkeppnishæfni Íslands?

Nú er opið fyrir umsóknir um styrki úr Framtíðarsjóði Viðskiptaráðs Íslands. ...
5. des 2023