Tómas Már Sigurðsson nýr formaður Viðskiptaráðs Íslands

Tómas Már Sigurðsson, forstjóri Alcoa Fjarðaáls, varaformaður Viðskiptaráðs, hefur tekið við formennsku í ráðinu fram að næsta aðalfundi í febrúar 2010.

Erlendur Hjaltason hefur ákveðið að segja af sér formennsku í Viðskiptaráði Íslands. Ástæður þess eru kunngerðar í bréfi sem sent var stjórn Viðskiptaráðs og birt er hér að neðan.

Stjórn Viðskiptaráðs Íslands þakkar Erlendi þau miklu og óeigingjörnu störf sem hann hefur unnið fyrir hönd ráðsins sem stjórnarformaður þess undanfarin 4 ár og stjórnarmaður síðustu 6 ár.

Til stjórnar Viðskiptaráðs Íslands.

Viðskiptaráð Íslands mun gegna afar mikilvægu hlutverki í þeirri efnahagslegu endurreisn sem bíður íslensks samfélags. Þá skiptir trúverðugleiki þess og traust miklu máli.

Það traust hef ég í starfi mínu sem formaður ráðsins síðastliðin tæp fjögur ár í senn reynt að verja og byggja enn frekar upp. Ég hef kappkostað að standa þannig að öllum störfum mínum að þau væru í anda góðra viðskiptahátta og um leið lóð á vogarskálar þeirrar virðingar sem Viðskiptaráð þarf að njóta.

Enda þótt vinna að fjárhagslegri endurskipulagningu Exista, þar sem ég er forstjóri,  hafi verið umdeild er þar unnið af miklum heilindum við að bjarga eins miklum verðmætum og auðið er. Þar á bæði atvinnulífið og þjóðin öll mikilla hagsmuna að gæta. Ég tel ekki að störf mín á þeim vettvangi eða öðrum hafi farið gegn hagsmunum eða orðspori Viðskiptaráðs.

Þegar tortryggni á endurskipulagningarferli Exista hefur hins vegar verið mögnuð upp með þeim hætti sem raun ber vitni hlýt ég þó að horfast í augu við þá staðreynd að formennska mín í Viðskiptaráði gæti rýrt traust ráðsins.

Því hef ég ákveðið að segja af mér formennsku í Viðskiptaráði Íslands.

Mér er það mikið kappsmál að starfsemi Viðskiptaráðs verði efld enn frekar og tel að sameining þess við Samtök atvinnulífsins sé ekki heillavænleg við þær krefjandi aðstæður sem íslenskt viðskiptalíf stendur frammi fyrir um þessar mundir.

Frekar ætti að efla samvinnu þeirra aðila sem vinna að framgangi íslensk viðskiptalífs.

Ég er þakklátur því öfluga fólki, bæði stjórn og starfsfólki,  sem ég hef unnið með og kynnst í störfum mínum fyrir Viðskiptaráð og óska því gæfu og gengis á komandi árum.

Reykjavík 5. október 2009,

Erlendur Hjaltason

Tengt efni

Sprengjusvæði

„Að skiptast á skoðunum er mikilvægt. Það væri þó til mikilla bóta að hafa í ...
7. mar 2024

Björn Brynjúlfur nýr framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs

Gengið hefur verið frá ráðningu Björns Brynjúlfs Björnssonar í starf ...
6. mar 2024

Marel hlaut viðurkenningu fyrir sjálfbærniskýrslu ársins

Viðurkenning fyrir sjálfbærniskýrslu ársins var veitt í hádeginu við hátíðlega ...
8. jún 2023