Ríkisfjármálin - betri staða en áætlanir gerðu ráð fyrir?

Fjárlög næsta árs staðfesta einkum tvennt. Annars vegar að árangur hefur náðst í ríkisfjármálum frá haustinu 2008 - um það verður ekki deilt. Hins vegar að sá árangur er ekki í samræmi við upphaflegar áætlanir sem endurspeglast m.a. í fyrirhuguðum skattahækkunum næsta árs þvert á fullyrðingar um að til þeirra þyrfti ekki að koma.

Bætt staða hagkerfisins frá hruni skýrist einkum af þremur þáttum. Í fyrsta lagi setningu neyðarlaga sem kom í veg fyrir að óhóflegar byrðar féllu á ríkið. Í öðru lagi sérlega hagfelldra aðstæðna fyrir útflutningsgreinar sem viðheldur fjárfestingu, störfum og þar með skattgreiðslum. Í þriðja lagi aðhalds í ríkisfjármálum, í samræmi við áætlun AGS, þó deila megi um áhrif einstakra ákvarðana sem teknar hafa verið á þeim grunni.

Þrátt fyrir árangur síðustu ára liggur fyrir að umtalsverð frávik eru frá upphaflegum áætlunum um jöfnuð í ríkisrekstrinum. Í ríkisreikningi síðasta árs er t.a.m. að finna helmingi meiri halli en áætlanir höfðu gert ráð fyrir. Að auki lá fyrir að upphafleg markmið um jákvæðan frumjöfnuði náðust ekki. Frávik þar á nema raunar allt að 70 mö. ef miðað er við áætlanir ársins 2009 en slakað var á markmiðum um frumjöfnuð undir lok síðasta árs með Herðubreiðuskýrslunni svokölluðu. Við þetta bætist ákvörðun stjórnvalda síðastliðið haust um að fresta markmiðum um heildarjöfnuð um eitt ár, fram til ársins 2014. Rökin þar að baki var betri staða ríkissjóðs en búist var við. Staðan nú bendir til að sú ákvörðun hafi verið ótímabær.

Þá er ljóst að þó fjárlög næsta árs sýni betri stöðu nú en fyrir fjórum árum er staða ríkissjóðs enn þung og ríkt tilefni til áframhaldandi aðhalds. Nýlegar fregnir af stöðu Íbúðalánasjóðs endurspegla vel hversu viðkvæmt ástandið er. Allt útlit er fyrir að ríkissjóður þurfi að leggja a.m.k. 14 ma. í sjóðinn til viðbótar við 33 ma. árið 2010. Framlagið myndi bætast við áætlaðan halla þessa árs sem nemur um 25 mö. Ef markmið um sölu eigna uppá 7,6 ma. ná ekki fram að ganga má því ætla að halli ársins í ár nemi 47,8 mö. Er það aukning um 30 ma. frá áætlunum Herðubreiðuskýrslunnar og tæpa 43 ma. frá áætlunum ársins 2009. Ekki bætir úr skák að hagvöxtur síðasta árs var lækkaður um 16% eftir endurskoðun Hagstofunnar sem eykur að öllu jöfnu á aðlögunarþörf ríkissjóðs.

Nú þegar kosningavetur gengur í garð er full þörf á að stjórnmálaflokkarnir hafi þessa stöðu ríkissjóðs í huga við mótun útgjaldaloforða vorsins. Er það sérstaklega mikilvægt í ljósi þess að árangur síðustu ára hefur að einhverju leyti skapað jákvæðari umræðu um stöðu ríkissjóðs en uppgjör síðasta árs og framtíðarverkefni gefa tilefni til. Aukinn hvati til að gera sem flestum til geðs í atkvæðaveiðum næstu mánaða má ekki enda sem byrði á herðum skattgreiðenda. Þær eru þegar of miklar. Sé ætlunin að koma hagkerfinu í jafnvægi er það forgangsatriði að ekki verði frekari breyting á þeim markmiðum sem lagt var upp með árið 2009 í samstarfi við AGS – næg eru frávikin þegar orðin.

Í skoðuninni er m.a. farið yfir eftirfarandi:

  • Árangur hefur náðst í ríkisfjármálum en umtalsverð frávik eru þó frá upphaflegum áætlunum.
  • Slík frávik hafa verið skrifuð á óreglulega liði sem lítið bendir til að dragi úr næstu misseri.
  • Staðan nú bendir til að frestun markmiða um heildarjöfnuð hafi verið ótímabær.
  • Fjáraukalög gerðu ráð fyrir uppgjöri vegna SPKEF og það getur því varla skýrt viðbótarhalla uppá 42 ma.
  • Opinber upplýsingagjöf um stöðu ríkisfjármála er iðulega óljós enda sjaldnast miðað við upphaflegar áætlanir.
  • Töluvert er í að staða ríkisfjármála teljist sjálfbær til langframa og því ríkt tilefni til áframhaldandi aðhalds.
  • Stjórnmálaflokkar þurfa að hafa erfiða stöðu ríkissjóðs í huga nú á kosningavetri.

Skoðunina má nálgast hér

Tengt efni:

Tengt efni

Nauðsynlegt að breyta fyrirkomulagi kauprétta

Umsögn Viðskiptaráðs um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld (mál nr. 432)
6. des 2022

Landvernd staðfestir tillögu um verri lífskjör þjóðarinnar

„Það er mjög jákvætt að fá staðfestingu á því frá Landvernd að efnahagsleg ...
4. júl 2022

Réttarbót og staðfesting á túlkun EFTA dómstólsins

Að mati samtakanna er veruleg hætta á því að málsmeðferðartími stjórnvalda ...
31. jan 2021