Enn vísbendingar um vaxandi jöfnuð

Tekjur Íslendinga hafa aukist mikið síðustu ár og sjaldan áður skilað jafn miklum kaupmætti. Samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofu Íslands hægði þó nokkuð á vextinum árið 2018 en miðgildi ráðstöfunartekna hækkaði um 5,2% samanborið við 8% hækkun árið 2017. Í tölum Hagstofunnar má sjá ýmislegt annað sem varpar ljósi á þróun íslensks samfélags og efnahagslífs. Til dæmis vísbendingar um minnkandi ójöfnuð, vaxandi skattbyrði, mismunandi tekjuþróun aldurshópa, minnkandi ávinning háskólamenntunar og aukinn tekjujöfnuð kynjanna.

Mesta tekjuaukningin hjá lægstu tekjuhópnum

Hagstofan birtir að þessu sinni ekki tölur um skiptingu ráðstöfunartekna landamanna til þess að áætla tekjujöfnuð, sem hefur verið mikið í deiglunni síðustu misseri. Engu að síður voru nú uppfærðar tölur um tíundamörk heildartekna sem gefa ákveðna vísbendingu um þróun tekjujafnaðar. Líkt og síðustu ár virðist sem tekjur í lægri tekjuhópum hækki meira en hjá þeim tekjuhærri (mynd 1). Þannig hækkuðu tekjur einstaklinga við 10% og 20% tíundamörk um 8% á sama tíma og tekjur við 90% tíundamörk hækkuðu einungis um 5% og við 99% mörkin drógust lítillega saman. Á þennan mælikvarða jókst tekjujöfnuður nokkuð í fyrra.

Sé litið til þróunarinnar lengra aftur í tímann og hlutfall tekna einstaklinga við tíundamörk sem hlutfall af meðaltekjum má sjá álíka þróun þar sem hlutfall þeirra tekjuhærri fer lækkandi en hækkandi hjá þeim tekjulægri en einnig við miðgildi (mynd 2). Ennfremur virðist sem tekjujöfnuður á þennan mælikvarða hafi sjaldan mælst minni. Líkt og segir á eftir að birta nánari gögn um ráðstöfunartekjur, sem geta gefið aðra mynd, en miðað við þróun skatta og hækkun fjármagnstekjuskatts í ársbyrjun 2018 kæmi á óvart ef tekjujöfnuður á þann mælikvarða hefði ekki aukist líka.

Næsthæsta skattbyrði einstaklinga í OECD

Skattar á Íslandi eru háir í alþjóðlegu samhengi og sérstaklega þegar kemur að sköttum á einstaklinga. Af OECD ríkjunum er það aðeins í Danmörku sem skattar á atvinnu- og fjármagnstekjur einstaklinga sem hlutfall af landsframleiðslu eru hærri en hér á landi (mynd 3). Hafa ber þó í huga að í Danmörku teljast framlög til almannatrygginga til tekjuskatts sem skýrir að talsverðu leyti hve hár hann er. Staða Íslands í þessum samanburði skýrist að miklu leyti af hækkun skattbyrði einstaklinga undanfarin ár, þar á meðal árið 2018 og hefur hún aldrei verið hærri. Til samanburðar hefur skattbyrði á hinum Norðurlöndunum almennt farið minnkandi eða haldist svipuð undanfarna áratugi.

Yngri aldurshópar sitja enn eftir en hafa unnið á

Í sambærilegri staðreynd Viðskiptaráðs á síðasta ári var vikið að því að ungt fólk hefði að einhverju leyti setið eftir í kaupmáttaraukningu síðustu áratuga en hún hefði að mestu leyti runnið til eldri aldurshópa. Sú er enn raunin en þó snerist þróunin að einhverju leyti við á síðasta ári þar sem kaupmáttur ráðstöfunartekna hjá 16-34 ára hækkaði um tæplega 2% á meðan hækkun var minni eða kaupmáttur dróst saman í öðrum aldurshópum (mynd 4). Ef horft er á núverandi uppsveiflu frá 2010 hefur kaupmáttaraukningin verið mest hjá 65 ára og eldri annars vegar og 16-24 ára hins vegar eða um og yfir 40%. Aftur á móti hefur aukningin verið minnst hjá 25-44 ára eða 18-19% frá 2010.

Enn minnkar fjárhagslegur ávinningur af háskólamenntun

Engar einhlítar skýringar virðast vera á mismunandi tekjuþróun aldurshópa. Ein möguleg skýring er að vægi reynslu í atvinnulífinu hafi aukist á meðan fjárhagslegur ávinningur háskólamenntunar hafi minnkað. Um þessa hlutfallslegu tekjulækkun háskólamenntaðra var fjallað í Skoðun Viðskiptaráðs á síðasta ári. Hagstofan hefur nú birt nýrri, annarskonar og ítarlegri tölur um tekjur landsmanna eftir menntunarstigi sem varpar ljósi á samskonar þróun (mynd 5). Fjárhagslegur ávinningur menntunar, sérstaklega háskólamenntunar hefur almennt dvínað frá 2010 og þar á meðal á síðustu árum. Ein undantekning er þó allra síðustu ár þar sem tekjur þeirra sem hafa starfsnám á framhaldsskóla- eða viðbótarstigi hafa 15% meira en gengur og gerist 2016-2018. Í þeim hópi eru iðnmenntaðir áberandi svo sú aukning gæti endurspeglað vaxandi eftirspurn eftir fólki með slíka menntun.

Kynjajöfnuður eykst hægt og bítandi

Tekjumunur kynjanna hefur minnkað jafnt og þétt síðustu áratugi. Árið 2018 var engin undantekning þó breytingin hafi verið lítil á flesta mælikvarða og enn mælist talsverður óleiðréttur tekju- og launajöfnuður (mynd 6). Þannig eru konur með 68% af atvinnutekjum karla, án þess að tekið sé tillit til mismunandi atvinnuþáttöku og vinnutíma kynjanna. Haldi þessi þróun áfram með sama hraða og síðustu 28 ára má ætla að fullkomnum tekjujöfnuði á mælikvarða ráðstöfunartekna verði náð eftir um 18 ár. Því er ekki spáð hér með heldur er þetta einungis talnaleikfimni til að glöggva sig á hraða breytinganna. Þá skal athuga að ekki hefur heldur verið tekið tillit til menntunar eða annarra áhrifaþátta.

Tengt efni

Ný útgáfa um íslenskt efnahagslíf

Viðskiptaráð Íslands hefur birt nýja ársfjórðungslega útgáfu af The Icelandic ...
21. ágú 2023

Ríkið herðir hnútinn á leigumarkaði

Frumvarp um breytingar á húsaleigulögum er enn einn rembihnúturinná leigumarkaðinn
31. ágú 2023