Stuðningsstuðullinn lækkar um 6% á milli ára

Stuðningsstuðull atvinnulífsins var 1,17 árið 2016 sem er 6% lækkun á milli ára. Stuðullinn er skilgreindur sem hlutfallið á milli starfsfólks í einkageira og öðrum íbúum landsins. Hann segir því til um hversu margir einstaklingar eru studdir með skattheimtu eða millifærslum fyrir hvern vinnandi einstakling í einkageiranum.

Yfir sex þúsund ný störf í einkageiranum
Stærsti áhrifavaldurinn til lækkunar er fjölgun starfa í einkageiranum, en um 6.400 ný störf sköpuðust á milli ára. Þessi nýju störf koma fram í lægra atvinnuleysi, en atvinnulausum fækkaði um 1.700 á milli ára, og einnig í aukinni atvinnuþátttöku, en einstaklingum utan vinnumarkaðar fækkaði um 1.800 á milli ára.

Stöðugildum hjá hinu opinbera fjölgaði um rúmlega 500 á milli ára. Hlutfallslega var aukningin 1,5% samanborið við 4,3% fyrir einkageirann. Vægi hins opinbera á vinnumarkaði minnkaði því á milli ára. Opinberir starfsmenn eru nú um 20% af heildarvinnuafli og nemur lækkunin á því hlutfalli hálfu prósentustigi.

Sterk staða hagkerfisins

Stuðningsstuðullinn endurspeglar sterka stöðu íslenska hagkerfisins og hefur ekki verið lægri frá aldamótum. Hæst fór hann í 1,45 strax í kjölfar hrunsins, þegar störfum í einkageiranum fækkaði verulega, en síðan þá hefur hann farið lækkandi. Lækkunin hefur verið hröðust undanfarin ár sem endurspeglar hratt batnandi stöðu á vinnumarkaði.

Viðskiptaráð Íslands birti stuðningsstuðul atvinnulífsins fyrst árið 2011. Stuðullinn gefur vísbendingu um hvort jafnvægi sé á milli umsvifa einkageirans og hagkerfisins í heild. Ráðið telur mikilvægt að stjórnvöld vinni að því að halda stuðlinum lágum þar sem sterkur einkageiri er undirstaða velferðar og bættra lífskjara.

Tengt efni

Fréttir

Umfjöllun um stuðningsstuðul atvinnulífsins

Fjallað var um stuðningsstuðul atvinnulífsins í nýjustu útgáfu ...
15. ágú 2014
Staðreyndir

Stuðningsstuðullinn hækkar í fyrsta sinn í átta ár

Stuðningsstuðull atvinnulífsins var 1,20 árið 2017 og hækkaði lítillega í fyrsta ...
5. apr 2018
Staðreyndir

Hlutfall opinberra starfsmanna hækkar

Viðskiptaráð hefur tekið saman stuðningsstuðul atvinnulífsins fyrir árið 2018 ...
4. jún 2019