Stuðningsstuðullinn lækkar um 6% á milli ára

Stuðningsstuðull atvinnulífsins var 1,17 árið 2016 sem er 6% lækkun á milli ára. Stuðullinn er skilgreindur sem hlutfallið á milli starfsfólks í einkageira og öðrum íbúum landsins. Hann segir því til um hversu margir einstaklingar eru studdir með skattheimtu eða millifærslum fyrir hvern vinnandi einstakling í einkageiranum.

Yfir sex þúsund ný störf í einkageiranum
Stærsti áhrifavaldurinn til lækkunar er fjölgun starfa í einkageiranum, en um 6.400 ný störf sköpuðust á milli ára. Þessi nýju störf koma fram í lægra atvinnuleysi, en atvinnulausum fækkaði um 1.700 á milli ára, og einnig í aukinni atvinnuþátttöku, en einstaklingum utan vinnumarkaðar fækkaði um 1.800 á milli ára.

Stöðugildum hjá hinu opinbera fjölgaði um rúmlega 500 á milli ára. Hlutfallslega var aukningin 1,5% samanborið við 4,3% fyrir einkageirann. Vægi hins opinbera á vinnumarkaði minnkaði því á milli ára. Opinberir starfsmenn eru nú um 20% af heildarvinnuafli og nemur lækkunin á því hlutfalli hálfu prósentustigi.

Sterk staða hagkerfisins

Stuðningsstuðullinn endurspeglar sterka stöðu íslenska hagkerfisins og hefur ekki verið lægri frá aldamótum. Hæst fór hann í 1,45 strax í kjölfar hrunsins, þegar störfum í einkageiranum fækkaði verulega, en síðan þá hefur hann farið lækkandi. Lækkunin hefur verið hröðust undanfarin ár sem endurspeglar hratt batnandi stöðu á vinnumarkaði.

Viðskiptaráð Íslands birti stuðningsstuðul atvinnulífsins fyrst árið 2011. Stuðullinn gefur vísbendingu um hvort jafnvægi sé á milli umsvifa einkageirans og hagkerfisins í heild. Ráðið telur mikilvægt að stjórnvöld vinni að því að halda stuðlinum lágum þar sem sterkur einkageiri er undirstaða velferðar og bættra lífskjara.

Tengt efni

Sameiningin sem endaði ofan í skúffu

Ásta S. Fjeldsted, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, fjallar um áform stjórnvalda ...
5. ágú 2020

Skilvirkni og hagkvæmni í þágu atvinnulífs og neytenda

Opinberar stofnanir ættu að vera færri frekar en fleiri, umfang þeirra nægilegt ...
12. nóv 2020

Umfjöllun um stuðningsstuðul atvinnulífsins

Fjallað var um stuðningsstuðul atvinnulífsins í nýjustu útgáfu ...
15. ágú 2014